Skip to main content

Ævintýraferðir fjölskyldunnar

| Þórdís Kristvinsdóttir | Önnur verkefni

myndin.jpg

Ævintýraferðir fjölskyldunnar byggjast á útiveru og samveru í austfirskri náttúru sem sérstaklega eru miðaðar að börnum og foreldrum þeirra. Ferðirnar eru byggðar upp á þremur áhersluþáttum; jákvæðri upplifun, fræðslu og fjölskyldusamveru. Þessir þrír áhersluþættir sameinast í því að styrkja fjölskylduböndin, byggja upp tengsl milli barna og náttúru auk þess að gera barnið sjálft að sterkari einstaklingi sem getur leitað til náttúrunnar til að efla trú á eigin getu og auka vellíðan.

Ferðirnar eru byggðar upp sem sex smærri og styttri ferðir auk einnar lengri ferðar þar sem er gist og er ferðatímabilið apríl til október.

Ferðirnar hafa verið niðurgreiddar af ýmsum styrktaraðilum til að hægt sé að bjóða börnunum ferðirnar að kostnaðarlausu. Kostnaðarverð er þó tekið í gistiferðunum af foreldrum eða þeim sem fylgja börnunum. Styrktaraðilar hafa verið Múlaþing, Lífheimur, Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið og Lýðheilsusjóður.

 

 

Landvarsla á Víknaslóðum

| Þórdís Kristvinsdóttir | Önnur verkefni

 frigg

Síðan 2018 hefur Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, í samstarfi við Ferðamálahóp Borgarfjarðar Eystri haft umsjón með landvörslu á göngusvæðinu Víknaslóðum.  Verkefnið felst í árlegum úttektum á gönguleiðum og aðstöðu, viðhaldi, eftirliti og upplýsingagjöf til ferðamanna. Þegar að Stórurð, Stapavík og nágrenni var friðlýst árið 2021, gerði Umhverfisstofnun svo sérstakan umsjónarsamning við ferðafélagið að halda áfram að sinna því svæði með landvörslu.

Víknaslóðir verða sífellt vinsælli áfangastaður ferðamanna með ári hverju. Miklu skiptir að markvisst sé hlúð að öryggi þeirra sem ganga um svæðið, náttúrunni sjálfri með stýringu og svo heimafólki með góðu samtali, sérstaklega samtali við landeigendur á þeim svæðum sem leiðirnar fara um. Ferðafélagið hefur á sínum snærum tvo landverði á Víknaslóðum í tvo mánuði yfir háannatímann, annan á friðlýsta svæðinu og hinn á Víknaslóðum. Eins hafa sjálfboðaliðasamtökin Seeds komið að ruslatínslu í Stapavík í samstarfi við ferðafélagið.

Ýmsir styrktaraðilar hafa komið að starfinu til að það sé mögulegt. Frá árinu 2018 hefur það verið styrkt af Fljótsdalshéraði og Borgarfjarðarhreppi sem er núna sameinað sveitarfélag Múlaþings, Umhverfis,-orku- og loftlagsráðuneytinu, Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, Íslenskum fjallaleiðsögumönnum, Arion banka, Landsbankanum, Alcoa, Landsneti og brothættum byggðum. Síðustu tvö ár hefur sveitarfélagið Múlaþing stingið inn með afgerandi hætti og er nú eini styrktaraðili landvörslu á Víknaslóðum utan friðlýsta svæðisins.