Skip to main content

Húsey

Gengið er um sléttuna utan við Húseyjarbæinn út við Héraðsflóa. Hægt er að velja um 6 km (ca 2 klst) eða 14 km hringleið. Mikið fuglalíf og selalátur. Gengið frá skilti sem er innan við hliðið hjá Húsey. Gengið í átt að Jökulsá og síðan gengnir bakkar allt þar til komið er að hólknum þar sem er gestabók og stimpill. Hólkurinn er við borð nálægt sjónum ca 3 km utan við bæinn. Síðan er haldið áfram og stefnt á Húseyjarbæinn. Loks er vegurinn genginn og hringnum lokað.

  • Vegalengd: 6 km
  • GPS hnit:  (N65°38.775-W14°14.670)

Húsey er ysti bærinn í Hróarstungu á samnefndu eylendi við mót Jökulsár á Dal (Jöklu) og Lagarfljóts. Húseyjan er u.þ.b. 30 km² þar sem hæst rís er Sandhóll, 13 m yfir sjó.

Stóru árnar tvær hafa átt sinn þátt í að móta þetta svæði. Árið 1946 var Geirastaðakvísl, sem fell úr Jöklu í Lagarfljót, stífluð. Hún braut land til beggja hliða og einangraði Húseyna frá Hróarstungu.

Holskeflur úr Héraðsflóa æða stundum langt upp á Héraðssand. Þar sem brimaldan nær eru ógrónir sandar en sunnan þeirra eru melgresisskúfar. Þegar fjær kemur ströndinni er sandorpið mólendi, melar og votlendi. Í norðanáttum og þurru veðri fjúka jarðvegsefni upp frá ógrónum söndum og sverfur þá bæði og kaffærir aðliggjandi gróður.

Vindrofið veldur því einnig að nýgræður eiga erfitt uppdráttar, þó má finna þarna u.þ.b. 170 tegundir plantna. Markmið landgræðsluaðgerða er að hefta sandfok sem berst í norðlægum áttum frá ströndinni inn yfir gróið land í Húsey. Unnið er að því að sá melgresi í sandfokssvæðin og styrkja gróðurjaðarinn með áburðargjöf.

Húsey er annáluð náttúruparadís og er á Náttúruminjaskrá. Lífríkið í Húsey er sérstakt. Hér er hægt að sjá um 30 tegundir varpfugla. Ferfætlingum bregður fyrir af og til s.s. hreindýrum, refum og minkum. Húsey er selveiðijörð og má huga að selnum, sem oftast eru tugum eða hundruðum saman í ánni eða mókandi á eyrunum andspænis. Silungur og lax er veiddur í net í fljótinu.

Bóndinn á Húsey, Örn Þorleifsson, tekur oft að sér undanvillingskópa og elur þá heima í tjörn rétt við bæinn. Þeir elta hann eins og hundar, þegar að fóðrun kemur. Hann hefur líka laðað að sér grágæsir, sem vappa um eins og heimalningar við bæinn. Örn er orðinn að þjóðsagnapersónu í lifanda lífi og unir sér hið besta með láðs- og lagardýrunum í þessu sérstaka umhverfi.

Nánari upplýsingar eru veittar á Farfuglaheimilinu.

  • Last updated on .
  • Hits: 1873

Hrafnafell

Ekið Fjallselsveg upp á hæsta ás suðvestan við Hafrafell. Gengið frá skilti við veg að fjarskiptamöstrum á Hrafnafelli þar sem hólkinn með gestabók og stimpli er að finna. Upplagt að koma við í Hrafnafellsrétt (N65°18.02-W14°29.23) sem er sérstæð, hlaðin grjótrétt milli kletta skammt austan vegar.

Gaman er að ganga síðan út af Hrafnafellinu og inn með því að austanverðu og koma við í Kvíahelli (N65°18,359-W14°29,063). Ef genginn er hringur er hann lengri, eða 5,8 km og rauð leið.

  • Vegalengd og hækkun: 2,6 km og 80 m. hækkun
  • GPS hnit: (N 65°18,304-W14°29,098)

Hrafnafell er klettaborg í suðurenda Hafrafells sem er stærst fella í Fellahreppnum, 3 km á lengd og 218 m á hæð þar sem það rís hæst.

Þar hefur ísaldarjökulinn sorfið bergið í rennislétt hvalbök og niður í djúpa geil með því nær lóðréttum veggjum. Þarna gerðu hagsýnir bændur stóra fjárrétt með því að hlaða grjóti í báða enda geilarinnar. Þarna hét Hrafnafellsrétt og var lögrétt Fellahrepps allt til 1888 eða 1889 en þá var lögréttin flutt að Ormarstöðum og hefur verið þar síðan. Síðast var vitað til að réttað væri í Hrafnafellsrétt haustið 1907 þegar Tungu- og Fellafé var rekið í einu lagi úr Hnefilsdalsrétt beint austur yfir heiðina.

Af Hrafnafellinu er útsýn yfir Úthérað allt út á Héraðsflóa. Í norðri sjáum við Smjörfjöll, Hellisheiði, Dýjafjall og Kollumúla en að sunnan sjáum við Dyrfjöll, Beinageit og Botnsdalsfjall, einnig sést Herfellið í Loðmundarfirði.

Gaman er að ganga út Hrafnafellið þar sem það er hæst og niður af því þar sem það lækkar að norðanverðu og inn með því aftur að vestanverðu með brekkurótum. Þar liggur leiðin um svokallaða vættaborg. Mikið er það af gjótum og skútum sem er algjört ævintýraland fyrir smáfólkið. Þar finnst einir og hægt er að týna bæði einiber og bláber þegar líða fer á sumarið.

Einnig er gaman að ganga út af Hrafnafellinu og inn með því að austanverðu og koma við í Kvíahelli.

  • Last updated on .
  • Hits: 1895

Höttur (Hátúnahöttur)

Höttur (Hátúnahöttur) er tignarlegt fjall, sem rís upp af fjallshryggnum milli Austur-Valla og Fagradals, og er af mörgum talinn bæjarfjall Egilsstaða.  Gengið frá skilti austan (utan) við Gilsá (N65°08,172-W14°31.133) í átt að Grjótánni aðeins utan við Víðihjalla og upp með ánni.  Áfram upp á Hattarhólana og síðan beygt inn eftir og upp á Höttinn (1106 m). 

  • Vegalengd og hækkun: 10 km og 1000 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°07.63-W14°27.25)
  • Last updated on .
  • Hits: 1911

Hnjúksvatn

Gegnt Merki á Jökuldal uppi á heiðinni er Hjúksvatn. Gengið er frá skilti við veg 923 upp með Hnjúksánni að Binnubúð við Hnjúksvatn. Þar er hólkurinn með gestabók og stimpli.  Gaman  er að ganga í kringum vatnið áður en haldið er til baka. Það var kona af Jökuldalnum, Brynhildur Stefánsdóttir, ljósmóðir, sem lét reisa þetta hús á sinn kostnað, fyrir fólk, sem vildi halda  til við vatnið og ganga um þetta hálendi.

  • Vegalengd og hækkun: 6,5 km og 300 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°14.333-W15°887)

Hæð yfir sjávarmál: 595 m. Silungsveiði

Hnjúksvatn liggur á hásléttu sem einkennist af ávölum hnjúkum þar sem Eiríksstaða-Hneflarnir (947 og 922 m) í suðri eru helstu kennileitin.

Við vatnið stendur lítið veiðihús, Binnubúð sem var byggð fyrir Brynhildi Stefánsdóttur, ljósmóður frá Merki. Á unga aldri veiddi Brynhildur í Hnjúksvatni. Hún fór á kláfi yfir Jöklu með netin sín og bar síðan veiðina heim sömu leið. Brynhildur var ákaflega merkileg kona, mikill ferðamaður og fór um heiðina þvera og endilanga, gangandi að sumri til og á skíðum þegar færi gafst, til að taka á móti börnum.

Binnubúð var byggð á Egilsstöðum af Völundi Jóhannessyni og flutt uppeftir í heilu lagi haustið 1983. Brynhildur lést aðeins nokkrum mánuðum eftir að húsið var reist og gat því aldrei nýtt sér aðstöðuna.

Af fellunum kringum Hnjúksvatnið rís til suðurs Þórfell 705 m. Til norðurs rís Kiðufellið hæst, 720 m og lítið austar er Arnórsstaðahnjúkur 636 m. Þar á milli er ónefnd hæð næst vatninu, 662 m. Hnjúksá fellur úr vatninu til austurs og niður í Jöklu. Hnjúksáin skiptir löndum Arnórsstaða og Hákonarstaða. Svæðið milli Eiríksstaða-Hnefla og Hnjúksvatns einkennist af miklum flóum sem nefndir eru Eiríksstaða- og Hákonarstaðaflóar.

Vestar á Jökuldalsheiðinni eru daldrög með gras- og sléttlendi og er Víðidalur þeirra mestur. Mörg veiðivötn eru á heiðinni og má nefna Gripdeild, Ánavatn og Sænautavatn. Svæðið afmarkast af Þríhyrnings-fjallgarði í vestur.

Ætla má að búið hafi verið á Jökuldal hið Efra allt frá landnámi því sögur benda til að Eiríkur morri hafi verið kominn til staðfestu á Eiríksstöðum litlu eftir 900. Hásléttan ofan brúna hefur verið harðbýl og voru kotin þar yfirleitt yfirgefin eftir aðeins nokkurra ára búsetu.

Ekki aðeins veðurfar heldur náttúruhamfarir eins og eldgos hafa valið búsifjum og hafa heiðarbýlin orðið verst úti. Má nefna að á 14. öld lögðu þrjú stór eldgos alla byggð í eyði á þessum slóðum. Síðasta stóra gos sem hafði mikil áhrif var Öskjugosið 1875 og má enn sjá ummerki þess. __________________________________________________________
Heimildir: Eiríksstaðir á Jökuldal, grein eftir Benedikt Gíslason frá Hofteigi; Múlaþing, 6. hefti – 1971; Frá Valdastöðum til Veturhúsa, Björn Jóhannsson; 1964; Árbók Ferðafélags Íslands; 1987; Dagný Pálsdóttir 2008.

 

  • Last updated on .
  • Hits: 1869

Hengifoss

Einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna sem heimsækja Austurand, er Hengifoss í Fljótsdal. Góð gönguleið er upp að fossinum sem vel er hugsað um af starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs en Snæfellsstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs er um fjóra kílómetra innar í dalnum. Hengifoss er annar hæsti foss landsins, um 128 metra hár og rennur í Hengifossá. Um miðja leið upp, sést í gilinu hæsta stuðlaberg landsins en það er við Litlanesfoss. Perluhólkur með gestabók og stimpli fyrir perluleikinn er á grasflöt nokkru áður en stígurinn endar (N65°05.422-W14°53.200). 

  • Vegalengd og hækkun: 4,5 km og 300 m. hækkun
  • GPS hnit: (Upphafspunktur N65°04.41-W14°52.84)

Hengifoss er 128 m hár og annar hæsti foss landsins. Vatnsmagn hans er hins vegar fremur lítið.

Í fossbrúninni eru nokkur blágrýtislög en milli þeirra röndótt millilög, sum fagurrauð. Stuðlabergs-myndanir prýða umhverfi hans og gera hann að einum af fegurstu fossum landsins. Þar er hægt að finna steinrunna stofna kulvísra barrtrjáa og surtarbrand, sem vísar til hlýrra loftslags á seinni hluta tertíer tímabilsins. Neðan blágrýtislaganna er þykk sandsteinsmyndun sem veðrast fyrr en blágrýtið og veldur því eiginlega fossmynduninni.

Á sú, sem Hengifoss er í, heitir Hengifossá. Hún á upptök sín í Hengifossár-vatni uppi á Fljótsdalsheiði og fellur í innanvert Lagarfljót. Neðan við Hengifoss og skammt fyrir ofan bæinn Hjarðarból er annar foss í ánni sem heitir Litlanesfoss. Fellur áin þar í allháum fossi niður í óvenju svipfagran stuðlabergssveip.

Auðvelt er að ganga bak Hengifoss þegar lítið er í ánni og skoða hellisskúta.

Hæð Hengifoss hefur lengi verið á reiki. Í grein um Hengifoss 1967 eftir Sigurð Blöndal er þetta ritað:
Hann er eins og silfurband, þar sem hann fellur beinn og tígulegur fram af hinum ógnarlega hamri, 128 m á hæð (skv. mælingu Steingríms Pálssonar, mælingamanns hjá Raforkumálastjóra). Skipar þessi hæð honum í 2. sæti íslenzkra fossa á eftir Glym í Hvalfirði, en á undan Háafossi í Þjórsárdal.
(Austurland 7. júlí 1967)
Í Íslensku alfræðibókinni (1990) er Hengifoss talinn 118 m og Háifoss í Þjórsárdal 122 m og næsthæsti foss landsins; þar er Glymur í Botnsá talinn hæstur, 198 m.

  • Last updated on .
  • Hits: 1952