Skip to main content

Skúmhöttur

Skúmhöttur er næst hæsta fjall í fjallgarðinum milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Fjallið er að mestu úr líparíti en sjálfur tindurinn er úr dekkra bergi.
Sunnan við bæinn Litla Sandfell er ekið af þjóðvegi inn á veg í gegnum hlið og ekið þar til komið er að gamalli brú yfir Þórisá. Þar er bílastæði. Gengið frá skilti við Þórisá og síðan eftir hryggnum framan í fjallinu alla leið upp á topp, 1229. Skemmtileg fjallgana á áhugavert fjall.

  • Vegalengd og hækkun: 14 km. og 1100 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°02.548-W14°28.848)

SKÚMHÖTTUR 1229 m y.s.

Skúmhöttur er næsthæsta fjallið í fjallabálkinum milli Héraðs og Reyðarfjarðar, milli Ófærudals og Hallsteinsdals innantil. Fjallið nýtur sín vel þegar horft er inn eftir Ófærudal og hefur tiginborna reisn. Það mun mestallt vera úr líparíti og eru hlíðar þess ákaflega litskrúðugar en sjálfur tindurinn er þó úr dökku bergi, og má það vera skýring á nafni fjallsins. Það mun vera mjög nálægt miðju "Hjálpleysueldstöðvar", en hún hefur fram til þessa gengið undir nafninu "Þingmúla-eldstöð" meðal jarðfræðinga. Mikið litaskrúð er í dölum og fjöllum svæðisins, eins og jafnan þar sem líparít er í meiri hluta, og eins og slíkra fjalla er vandi eru þau mjög skriðurunnin og fremur gróðursnauð. Ná skriðurnar sumsstaðar niður í dalbotna. Umrædd líparítfjöll setja mjög mikinn svip á Skriðdal.
Hjálpleysugriðland hugsast ná yfir fjallabálkinn milli Skriðdals að vestan og Fagradals að austan, utan frá Hetti og inn í Þórudal og Áreyjadal. Innan þessara marka eru aðallega ljósgrýtisfjöll (líparít), sem talin eru hlutar af gríðarmikilli eldstöð, sem var virk á tertíertímabili, fyrir um 10-15 milljónum ára.
Skammt fyrir austan Skúmhött rís annar tindur, er Botnatindur nefnist (1163 m y.s.), og tengjast þeir saman um lítið lægra varp. Botnatindur er lítið áberandi af Héraði en rís þó tignarlega fyrir botni Hjálpleysu, oftast þakinn fönnum að utanverðu. Suðaustur úr honum er Kaldakinn (1129 m), og síðan Áreyjatindur (971 m) fyrir botni Reyðarfjarðar. (Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, 48).
Gunnar Gunnarsson kallar líparítið baulustein og lýsir þessu svo:
,,Það sem einkennir fjallaklasann milli Hjálpleysu og Jórudals, sem er eldra og réttara nafn en Þórudalur, sem á uppdrættinum stendur, er baulusteinninn, sem þarna er aðalbergtegundin. Skartar hann í ýmsum litum, rauðum, gulum, grænum o.s.frv., og tekur hinum furðanlegustu litabreytingum við áhrif ljóss og skugga. Kolsvartar blágrýtisæðar liggja hér og hvar um mjallhvítar eða grágular baulusteinsskriðurnar. Sagt er að hvergi á landinu sé jafn mikið af þessu skrautlega grjóti saman komið á einum stað." (Árbók F.Í. 1944, 112).
Þann 5. apríl 1905 fórust í Hallsteinsdal þeir Gunnar Sigurðsson og Guðjón Sigurðsson frá Strönd og Víkingsstöðum í snjóflóði sem kom úr hlíðum Skúmhattar, lík þeirra fundust þannig að hundur var með þeim sem slapp úr flóðinu. Þegar var farið að leita þeirra lá hundurinn á snjóflóðinu beint fyrir ofan líkin. (Guðni Nikulásson, Arnkelsgerði).

  • Last updated on .
  • Hits: 1479