Skip to main content

Háls

Bærinn var byggður úr landi Eiríksstaða 1859 um 5 km norðaustur af Hneflaseli og var hann hæsta býlið í heiðinni, í 597 m hæð. Frumbyggjar voru Magnús Jónsson, bónda í Mjóanesi í Skógum, Ormssonar og Aðalbjörg Jóhannesdóttir, bónda í Fjallsseli. Háls er talið hafa verið sauðahús frá Eiríksstöðum fyrr á öldum. Óvíst er um búsetulok á Hálsi.

(7) GPS hnit (N65°11.48 - W15°25.30)

Háls - Ítarefni og ábúendatal

Háls er líklega kenndur við Búðarhálsinn sem rís austan við Búðarvatnið.   Býlið var byggt út úr Eiríksstöðum en talið er að áður hafi verið þar sauðahús.  Háls lá í 594 m hæð, hæst býla í heiðinni og hefur sennilega verið það býli á Íslandi sem var hæst yfir sjó.  Það þótti mjög áveðurs og var aðeins fimm ár í ábúð.

Fyrirkomulag landnáms í Jökuldalsheiðinni. 

“Eftir því sem heimildir greina frá var byggt á Heiðinni án þess að gengið væri frá neinum skriflegum samningum við neinn jarðeiganda í Jökuldal. Þeir sem byggðu á einhverjum seljarústum frá stórbýlum dalsins fengu munnleg leyfi frá viðkomandi, en í engu tilviki var stofnað til nýbýlis á heiðinni með úrskiptingu lands, hvort sem er með afsali eða byggingarbréfi. Gefur þetta til kynna að leyfi í þeim tilvikum, sem eftir var leitað hafi fremur tekið til seljarústanna, en landsins sjálfs. Á sama tíma, ef skipt hefði verið landi niðri í dalnum hefði verið gengið frá skriflegum landskiptum og afsali, ef um kaup hefði verið að ræða, en um byggingu hjáleigu hefði verið gengið frá byggingarbréfi. 

Skýringar á þessari miklu byggð, sem reis á Heiðinni má rekja til nýbýlatilskipunar konungs 1776, þar sem nýbyggjurum var heitið skattaívilnun og í sumum tilvikum beinum eignarrétti að landi, ef þeir byggðu óbyggð pláss eða eyðijarðir. Almúga hefur verið kunnugt um þessi áform stjórnvalda til eflingar byggðar, en í mörgum tilvikum hefur skort lagaþekkingu til að fara rétt að málum” (Ólafur Sigurgeirsson, 2004). 

Húsakostur

Í sóknarlýsingu séra Þorvaldar Ásgeirsson í Hofteigi frá 1874 segir að bæir í heiðinni hafi “nær undantekningarlítið” verið reisulegir og loftgóðir.

Við annan tón kveður í grein Halldórs Stefánssonar í Austurlandi um Jökuldalsheiðina og byggðina þar er hann lýsir húsakynnum 70 árum seinna. “Sem að líkindum lætur, voru húsakynni og hýbýli manna og fénaðar í frumstæðara lagi og síst reisuleg.  Frumbyggjarnir voru efnalitlir menn og umkomulitlir flestir og þá einnig oft knappur tími til þess að reisa húsin.  Allir voru bæirnir torfbæir og í lágreistara lagi, baðstofa á þrepi, sem svo var nefnt, sums staðar, þ.e. portveggir aðeins, en alltaf eða nær alltaf, a.m.k. þegar frá leið, þiljuð í hólf og gólf; annað þekktist ekki á Austurlandi á þeim tíma.  Hleðslugrjót var nægt og gott og lyng, hrís eða hella var haft í tróð.  Snjór skýldi oft  vel að húsum, svo að húskuldi mun ekki hafa verið meiri, en almennt var.  Vegna þess hve húsin voru lágreist, stóðu þau furðuvel (Halldór Stefánsson, 1947).

Ábúendatal

1. 1859 – 1860:  Magnús Jónsson f. 27.7.1826 frá Mjóanesi í Skógum og Aðalbjörg Jóhannesdóttir f. 28.8.1822 frá Fjallseli í Fellum. Frá Hálsi fluttust þau að Sleðbrjót í Jölkulsárhlíð. Þau áttu fimm syni sem allir dóu ungir en dóttur áttu þau sem komst á legg, Jónínu Ragnhildi. Hún átti Nikulás Guðmundsson frá Skálafelli í Suðursveit og bjuggu þau lengi að Haga í Vopnafirði.

2. 1860 – 1864:  Björn Árnason f. 28.8.1822 frá Sævarenda í Loðmundarfirði og kona hans Hildur Bessadóttir f 21.1.1826, d. 30.6.1863 frá Giljum á Jökuldal. Þeim varð fjögurra barna auðið. Bessi, Þórarinn og Þórunn Þuríður dóu öll í bernsku en Stefán fæddur 1853 náði fullorðinsaldri og flutti til Vesturheims. Hildur dó í Heiðinni og fljótlega flutti ekkillinn burt og þar með féll býlið úr ábúð. Munnmælasagnir herma að hún hafi orðið úti undir Konusteini í Svalbarðshálsi. Steinn þessi er áberandi í melnum í Svalbarðshálsinum, vestur af Víðirhólabænum, á milli hans og Gripdeildar. Björn giftist árið 1867 Vilhelmínu Friðriku Jónsdóttur á Háreksstöðum en lést stuttu seinna.

Heimildir:

• Aðalsteinn Aðalssteinsson (e.d.) Háls. Óbirt gögn.

• Einar Jónsson 1965. Ættir Austfirðinga. Austfirðingafélagið í Reykjavík. 

• Halldór Stefánsson 1947. Austurland. Halldór Stefánsson og Þorsteinn M. Jónsson ritstj. Sögusjóður Austfirðinga. Akureyri. 

• Páll Pálsson 2009. Munnleg heimild.

• Ólafur Sigurgeirsson 2004. http://www.obyggd.stjr.is/na3.pdf

  • Last updated on .
  • Hits: 1169