Skip to main content

Desjamýri

Desjamýri (429m) stendur á hæð utan við Arnarvatn við svokallaðan Desjamýrarlæk. Frumbyggjar voru Eymundur Arngrímsson bóndi og meðhjálpari frá Hauksstöðum og kona hans Matthildur Sigurðardóttir frá Grímsstöðum. Þar er gott útsýni yfir grasir grónar mýrar og inn til fjalla. Hægt er að ganga frá stíflunni við Arnarvatn og út að Desjamýri. Þá er betra að vera vel skóaður því ganga þarf yfir mýrar. Einnig er hægt að ganga upp frá Hauksstöðum og inn að Desjamýri. Það er mun erfiðari leið en býður upp á að fara upp á Þverfellið í leiðinni. Þaðan er víðsýnt í allar áttir. Leiðin norðan við Þverfell er hluti af þjóðleiðinni frá Möðrudal út í Vopnafjörð. Fór í eyði 1880.

(22) GPS hnit (N65°36.796-W15°20.827)

Desjamýri - Ítarefni og ábúendatal

Desjamýri var afbýli úr Hauksstaðalandi. Þar reisti nýbýli um 1830 Eymundur Arngrímsson bóndi og meðhjálpari á Hauksstöðum. Þar dó hann 1849 (Desjamýri). Kona Eymundar var Matthildur Sigurðardóttir frá Grímsstöðum. Börn þeirra voru 6. Fjögur þeirra fóru til Ameríku. Dauði Arngríms föður Eymundar bar að með þeim hætti að hann ætlaði að ganga frá Hauksstöðum að Desjamýri þar sem hann ætlaði að vera um jólin 1839. En stórhríð brast á og hann varð úti 72 ára að aldri.

Litlar heimildir eru til um búskap að Desjamýri enda stóð búskapur þar stutt. Staðurinn var þó í þjóðleið og því ekki mjög einangraður. En ferðalangar á leið milli Vopnafjarðar og Möðrudals fóru um Desjamýri. Þar er enn áningarstaður smala í Hauksstaðaheiði.

Á manntali 1. okt. 1860 búa á Desjamýri 7 manns. Hjónin Tómas Pétursson bóndi 39 ára og Anna Árnadóttir kona hans 39 ára, tvö börn þeirra hjóna; Anna Sigríður 7 ára og Guðrún María 4 ára, vinnumaður; Sigurður Árnason 33 ára fæddur í Þingeyrarklaustursókn og 2 vinnukonur; Guðríður Pálsdóttir fædd hér í sókn 21 árs og Guðbjörg Jónsdóttir 50 ára fædd hér í sókn,.

Desjamýri er ekki getið á manntali 1880 og er þá væntanlega í eyði.

Menn geta sér þess til að nafnið Desjamýri sé dregið af heydesjum. Býlið stendur á hálsi sem umvafinn er mýrum sem erfitt var að heyja. Það var gert þannig að hey voru sett upp, torfhnausum hlaðið upp með og tyrft yfir. Þegar heyið var tekið um veturinn stóð torfið eftir líkt og hús. Það kallaðist des. 

Ábúendatal:

1830-1849: Eymundur Arngrímsson og Matthildur Sigurðardóttir og 6 börn þeirra

1853:         Tómas Pétursson bóndi og kona hans Anna Árnadóttir og dæturnar Anna Sigríður og Guðrún María. Auk þess Sigurður Árnason vinnumaður, Guðríður Pálssdóttir vinnukona, Guðbjörg Pálsdóttir vinnukona

1861:         Jón Björnsson og Guðrún Jónsdóttir. Árni Jónsson og María Grímsdóttir

  • Last updated on .
  • Hits: 1134