Skip to main content

Fagrakinn

Fagrakinn var byggð 1848 að ráði Möðrudælinga sem töldu býlið í Möðrudalslandi. Landnemar voru Jón Ólafsson af Völlum á Fljótsdalshéraði og Guðríður Vigfúsdóttir ættuð úr Stöðvarfirði. Fagrakinn var nyrsta býlið í allri heiðabyggðinni. Frá Fögrukinn að Brunahvammi voru ekki nema röskir 3 km. Vorið 1886 lagðist byggð endanlega af í Fögrukinn. Höfuðástæða þess mun hafa verið uppblástur á Torfunni, sem bæjar- og gripahús stóðu á. Fagrakinn er skammt frá þjóðvegi 85 sunnan við Hölkná. Við ána er bílaplan og frá því að Fögrukinn eru ca 7-800 metrar og þá farið skáhallt fram og upp frá planinu.

(17) GPS hnit (N65°30.03 - W15°28.80)

Fagrakinn - Ítarefni og ábúendatal

Bærinn Fagrakinn stóð í hlíð skammt fyrir innan Hölkná rúmlega 1 km. vestan við núverandi þjóðveg þar sem hann liggur yfir Hölkná. Fargakinn er talin byggð úr Möðrudalslandi og voru landnemar þau Jón Ólafsson (f. 1807), ættaður af Völlum og Guðríður Vigfúsdóttir (f. 1799) ættuð úr Stöðvarfirði. Árið 1848 reisa þau hjón nýbýli sitt og völdu bænum stað á hæð þaðan sem víðsýnt er yfir flóana fyrir neðan og stutt var að sækja hleðslugrjót í urðina ekki fjærri. Á síðari búskaparárum sínum höfðu þau hjón tekið Grím Magnússon og Rósu Davíðsdóttur í ábúð með sér en Jón bóndi bjó í Fögrukinn til dauðadags en hann andaðist á nýbýli sínu árið 1862 en Guðríður bjó nokkur ár enn en hafði sambýlismenn.

Skömmu eftir öskufall eða árið 1879 féll jörðin úr ábúð og mun öskufallið hafa ráðið þar nokkru um. Síðustu ábúendur í Fögrukinn voru þau Eiríkur Einarsson og Katrín Hannesdóttir en þau brugðu búi vorið 1886 og eftir það byggðist Fagrakinn ekki.

Nú er öðruvísi umhorfs í Fögrukinn en þegar þau Jón og Guðríður ákváðu að byggja bæ sinn við lítinn læk í Kinninni fögru. Nálægð við hleðslugrjót í urðinni reyndist tvíbent því þegar uppblástur óx var slæmt að vera staðsettur við gróðurjaðarinn þar sem rofið verður. Íslensk eldfjallaaska er glerkennd og rofmáttur hennar er mikill þegar vindur blæs henni til og frá og hún kæfir auðveldlega viðkvæman hálendisgróður sem e.t.v. var ekki gróskumikill vegna beitarálags og kólnandi veðráttu.

Margt bendir til að jarðvegsrof og uppblástur sem varð í kjölfar gossins í Öskju 1875 hafi ráðið mestu um búskaparlok í Fögrukinn. Mikinn jarðveg hefur nú blásið burt við bæjarstæðið. Eftir standa hleðslur og grjót sem vitna um eljusemi ábúenda í Fögrukinn. 

Ábúendur:

1848-1862:   Jón Ólafsson og Guðríður Vigfúsdóttir. Með þeim bjuggu síðustu árin Grímur Magnússon  og Rósa Davíðsdóttir

1861-1873:   Arnbjörn Bjarnason og Sigurbjörg Jónsdóttir

1873-1879:   Jón Guðlaugsson og Steinunn Símonardóttir

1879-1881:   Í eyði

1881-1883:   Jóhannes Jónsson og Kolfinna Marteinsdóttir

1884-1886:   Eríkur Einarsson o g Katrín Hannesdóttir

  • Last updated on .
  • Hits: 1602

Desjamýri

Desjamýri (429m) stendur á hæð utan við Arnarvatn við svokallaðan Desjamýrarlæk. Frumbyggjar voru Eymundur Arngrímsson bóndi og meðhjálpari frá Hauksstöðum og kona hans Matthildur Sigurðardóttir frá Grímsstöðum. Þar er gott útsýni yfir grasir grónar mýrar og inn til fjalla. Hægt er að ganga frá stíflunni við Arnarvatn og út að Desjamýri. Þá er betra að vera vel skóaður því ganga þarf yfir mýrar. Einnig er hægt að ganga upp frá Hauksstöðum og inn að Desjamýri. Það er mun erfiðari leið en býður upp á að fara upp á Þverfellið í leiðinni. Þaðan er víðsýnt í allar áttir. Leiðin norðan við Þverfell er hluti af þjóðleiðinni frá Möðrudal út í Vopnafjörð. Fór í eyði 1880.

(22) GPS hnit (N65°36.796-W15°20.827)

Desjamýri - Ítarefni og ábúendatal

Desjamýri var afbýli úr Hauksstaðalandi. Þar reisti nýbýli um 1830 Eymundur Arngrímsson bóndi og meðhjálpari á Hauksstöðum. Þar dó hann 1849 (Desjamýri). Kona Eymundar var Matthildur Sigurðardóttir frá Grímsstöðum. Börn þeirra voru 6. Fjögur þeirra fóru til Ameríku. Dauði Arngríms föður Eymundar bar að með þeim hætti að hann ætlaði að ganga frá Hauksstöðum að Desjamýri þar sem hann ætlaði að vera um jólin 1839. En stórhríð brast á og hann varð úti 72 ára að aldri.

Litlar heimildir eru til um búskap að Desjamýri enda stóð búskapur þar stutt. Staðurinn var þó í þjóðleið og því ekki mjög einangraður. En ferðalangar á leið milli Vopnafjarðar og Möðrudals fóru um Desjamýri. Þar er enn áningarstaður smala í Hauksstaðaheiði.

Á manntali 1. okt. 1860 búa á Desjamýri 7 manns. Hjónin Tómas Pétursson bóndi 39 ára og Anna Árnadóttir kona hans 39 ára, tvö börn þeirra hjóna; Anna Sigríður 7 ára og Guðrún María 4 ára, vinnumaður; Sigurður Árnason 33 ára fæddur í Þingeyrarklaustursókn og 2 vinnukonur; Guðríður Pálsdóttir fædd hér í sókn 21 árs og Guðbjörg Jónsdóttir 50 ára fædd hér í sókn,.

Desjamýri er ekki getið á manntali 1880 og er þá væntanlega í eyði.

Menn geta sér þess til að nafnið Desjamýri sé dregið af heydesjum. Býlið stendur á hálsi sem umvafinn er mýrum sem erfitt var að heyja. Það var gert þannig að hey voru sett upp, torfhnausum hlaðið upp með og tyrft yfir. Þegar heyið var tekið um veturinn stóð torfið eftir líkt og hús. Það kallaðist des. 

Ábúendatal:

1830-1849: Eymundur Arngrímsson og Matthildur Sigurðardóttir og 6 börn þeirra

1853:         Tómas Pétursson bóndi og kona hans Anna Árnadóttir og dæturnar Anna Sigríður og Guðrún María. Auk þess Sigurður Árnason vinnumaður, Guðríður Pálssdóttir vinnukona, Guðbjörg Pálsdóttir vinnukona

1861:         Jón Björnsson og Guðrún Jónsdóttir. Árni Jónsson og María Grímsdóttir

  • Last updated on .
  • Hits: 1638

Brunahvammur

Bærinn í Brunahvammi (340m) stóð fremst í þurrlendum hvammi drjúgan spöl frá Hofsá, undir Brunahvammshálsi. Þjóðvegur 85 liggur nú rétt ofan við bæjarhvamminn. Brunahvammur mun hafa verið hjáleiga frá Bustarfelli og lengst af í eigu Bustarfellsbænda. Frumbyggi er talinn vera Jón Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir 1807. Jörðin þótti góð til búskapar með fornu lagi en nokkuð mannfrek til heyskapar og fjárgæslu. Þá þótti torfrista léleg og mór var enginn. Frá aldamótunum til 1913 var Brunahvammur tvisvar í eyði, alls í 6 ár, en eftir það í samfelldri byggð til 1945.

(18) GPS hnit (N65°31.62 - W15°25.89)

  • Last updated on .
  • Hits: 1585

Arnarvatn/Skálamór

Arnarvatn (420 m) stendur í stórri kvos, sem nefnist Brunahvammskvos. Yst í kvosinni er samnefnt vatn. Kvosina myndar að austan Kálffell en í suðri Brunahvammsháls og Súlendur gnæfa yfir. Frumbýlingar voru Jón Jónsson og Sigurbjörg Sigurðardóttir 1867. Fyrrum var Arnarvatn í alfaraleið frá Möðrudal og norðanverðri Jökuldalsheiði til Vopnafjarðar. Nú er hægt að ganga af þjóðvegi 85 annað hvort innan við Kálffell, en þá þarf að vaða kíl við bæinn, eða frá stíflu sem er við útfall vatnsins. Þá er gengið inn með vatninu. Hægt er að aka að stíflunni ef menn vilja og raunar alveg heim að bæ, en það er þess virði að ganga inn með vatninu, njóta kyrrðarinnar og fylgjast með fuglalífinu. Upplagt er að fá sér vatn úr uppsprettulind sem er framan (innan) við bæinn. Á Arnarvatni stendur gangnamannakofi sem smalar í Hauksstaðaheiði nýta. Arnarvatn fór í eyði 1935.

(21) GPS hnit (N65°35.29 - W15°24.05)

Arnarvatn/Skálamór - Ítarefni og ábúendatal

Arnarvatn var frá upphafi afbýli frá Hauksstöðum og hét Skálamór. Elstu heimildir um byggð á Skálamó eru frá 1867. Þá er fyrst getið um heimilshald þar í prestþjónustubók Hofssóknar í Vopnafirði.

Nafnið Skálamór er líklega í fyrstu þannig til komið að þarna hefur verið byggður skáli ( kofi )yfir þá sem í afréttargöngur fóru um heiðarlöndin. Gangnamannaskýli hafa staðið þarna frá öndverðu og enn gista smalar í Hauksstaðaheiði á Arnarvatni. Vali staðarins hafa að sjálfsögðu ráðið hin sérstöku náttúrskilyrði sem tanginn út í vatnið veitti um vörslu fjárins um nætur. Sumarfagurt er á Arnarvatni og þar er mikið fuglalíf. Silungsveiði er í vatninu og víðar í tjörnum og lækjum í kring.

Gunnar Gunnarsson skáld frá Ljótsstöðum keypti og dvaldi þar eitt sinn part úr sumri um það leyti sem hann flutti í Skriðuklaustur. Hann keypti jörðina og hugðist byggja hana upp en ekkert varð úr þeim framkvæmdum.

Árið 1902 hóf Jón Helgason búskap á Skálamó. Hann breytti nafninu í Arnarvatn og byggði upp hús af miklum myndaskap. Jón var Mývetningur og tengja menn nafngiftina við Arnarvatn í Mývatnssveit. Enn má sjá merki um 800 feta langa vatnslögn sem hann lagði úr lindinni framan (innan við) og ofan við bæinn. Það þótti nýmæli að flytja járnpípur um langan veg til þess að fá sjálfrennandi vatn í húsin.

Síðustu ábúendur á Arnarvatni voru Eggert Ó Breim og kona hans Guðbjörg Gunnarsdóttir. Fljótlega eftir að þau hófu búskap kom í ljós að þau voru með öllu óhæf til búskapar á heiðarbýli. Um votviðrasamt sumarið sinntu þau heyskap illa. Smalamenn í fyrstu leit komu heyjum í tóft. En ekki þótti ráðlegt að hafa þau ein þarna, illa búin undir veturinn. Auk þess sem Guðbjörg húsfreyja var langt gengin með annað barn þeirra hjóna. Seint í nóvember fóru menn úr Vesturárdal með hesta og sleða og fluttu allt lifandi og dautt frá Arnarvatni og út í Hauksstaði. Guðbjörg ól sveinbarn um veturinn og allt fór vel. Bústofn þeirra hjóna var ein kýr og vetrungur, þrjú hross og um 30 sauðkindur. Á Hauksstöðum dvöldu þau nokkrar vikur en þá fluttu þau í Hof. Sumarið eftir flutti þetta fólk úr Vopnafirði til Reykjavíkur. 

Ábúendatal:

1867: Jón Jónsson og Sigurjörg Sigurðardóttir.

1868-1876: Jónas Gíslason og Sólveig Jóhannesdóttir

1877-1885: Sigurgeir Jónatansson og Þorgerður Jóhannesdóttir

1880-1881: Kristján Kristjánsson og Guðrún Benediktsdóttir.

1886: Sigurður Þorsteinsson og Karólína Jónsdóttir

1902-1916: Jón Helgason og Ingibjörg Björnsdóttir

1916-1919: Salína Einarsdóttir

1919-1923: Þórarinn Ketilsson

1923-1929: Björn Eyjólfsson

1929-1934: Í eyði

1934-1935: Eggert Ó. Briem and Guðbjör Gunnarsdóttir.

  • Last updated on .
  • Hits: 1734

Ármótasel

Ármótasel var byggt úr landi Arnórsstaða 1853 í 500 m hæð. Núverandi þjóðvegur liggur rétt við bæjarrústirnar ofarlega í Gilsárkvosinni, skammt ofan við Víðidalsá. Bærinn var kallaður Ármót í daglegu tali.

Continue reading

  • Last updated on .
  • Hits: 1834

More Articles …