Skip to main content

Hólmavatn

Hólmavatn var byggt hjá Langhólmavatni vestanverðu úr landi Skjöldólfsstaða 1861. Langhólmavatn (522 m) er í svonefndum Vatnaflóa í norðaustur hluta Jökudalsheiðar sem nefndur hefur verið Tunguheiði. Á Hólmavatni var aðeins búið í eitt ár. Ábúendur voru Jóhannes Friðriksson, bónda á Fossi, Árnasonar og Kristbjörg Guðlaugsdóttir, systir Jóns í Ármótaseli.

(15) GPS hnit (N65°27.728 - W15°22.099)

Hólmavatn - Ítarefni og ábúendatal

Hólmavatn var byggt úr landi Skjöldólfsstaða og er samkvæmt hreppamörkum á korti í Jökuldalshreppi.Halldór Stefánsson segir í umfjöllun um Jökuldalsheiðina og byggðina þar í ritinu Austurland, I. b., að Hólmavatn hafi verið talið til Vopnafjarðarhrepps eða a.m.k.til Hofssóknar þótt það væri innnan landamarka Jökuldalshrepps. Styttra var líka þaðan til Hofskirkju en til Hofteigskirkju. Bærinn stóð vestan við Langhólmavatn sem er eitt þriggja stórra veiðivatna í svonefndum Vatnaflóa í Tunguheiði, en svo er norðausturhluti Jökuldalsheiðarinnar nefndur. Rétt við bæinn er tjörn sem heitir Bæjartjörn og hefur afrennsli í Langhólmavatn (522 m.y.s.). Afrennli úr Langhólmavatni er í Sauðá er fellur í Hofsá. Helstu hlunnindi á Hólmavatni munu hafa verið silungsveiði í Langhólmavatni og fleiri vötnum í nágrenninu og næg heyöflunarskilyrði í nágrenni vatnanna í Vatnaflóanum. Beit fyrir búfé var líka talin góð í heiðinni allt árið þegar hennar naut við. Rjúpnaveiði var víða stunduð á heiðarbýlunum einkum á haustin og jafnvel veiddar álftir og gæsir þegar þessir fuglar voru í sárum síðsumars, en heimildir skortir um veiðskap á Hólmavatni, enda búsetutíminn stuttur. Bærinn var utan helstu alfaraleiða á heiðinni og gestagangur því trúlega lítill. Um 6 km til vesturs frá Hólmavatni var býlið Melur, en Sauðafellshálsinn aðskilur bæina.

Búseta hófst hér á Hólmavatni árið 1861 er Jóhannes (f. 15. janúar 1820) Friðriksson Árnasonar bónda á Fossi í Vopnafirði byggði hér nýbýli ásamt konu sinni Kristbjörgu Guðlaugsdóttur systur Jóns bónda í Ármótaseli. Ekki undu þau Jóhannes og Kristbjörg lengi á Hólmavatn, því ári síðar eða 1862 flytja þau að Hraunfellsseli, innsta býli í Hraunfellsdal inn af Vopnafirði. Sonur þeirra var J. Baldvin Jóhannesson hreppstjóri í Stakkahlíð. Búnaðarsaga Hólmavatns varð ekki lengri, það fór því eyði löngu fyrir Öskjugosið 1875. 

Um Skjöldólf og Skjöldólfshaug

Um 2- 3 km suður frá bænum á Hólmavatni er annað stórt vatn sem heitir Stórhólmavatn. Þar gerðust sögulegir atburðir á landnámsöld sem m. a. er sagt frá í Íslenskum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar VI. bindi Rvík. 1986. Þessar frásagnir eru sagðar fengnar úr Jökuldæla sögu (eða Jökuldælu), sem nú mun glötuð utan nokkur brot sem varðveist hafa í afskriftum. Þar eru m. a. sagnir af Skjöldólfi er nam Jökuldal austan Jökulsár upp frá Hnefilsá að Hölkná, en bjó á Skjöldólfsstöðum norðan/vestan Jökulsár sbr. Landnámabók. Sigfús tilfærir frásögn af Skjöldólfi er hafi sýnt Hákoni landnámsmanni á Hákonarstöðum yfirgang með því að reisa bæ á Skjöldólfsstöðum að Hákoni óspurðum í teig er var ónuminn milli landnáms Hákonar og Þorsteins torfa er nam Jökulsárhlíð alla og bjó á Fossvöllum.Höfðu þeir Hákon og Þorsteinn lagt teiginn undir hof þar sem nú er Hofteigur.

Skjöldólfshaugur

„Síðan tók Skjöldólfur undir sig veiðivötn þau er liggja í Norðurheiði. Reisti hann þar skála austan við stærsta vatnið og hafði þar veiðistöð.“... „Skjöldólfur sótti svo fast veiðina að hann hafðist þar við sjálfur. Hafði hann þar veiðiferju og net. Vogvík lítil er í vatnsfætinum niður frá skála Skjöldólfs. Þar setti hann ferjuna. Nú er frá því að segja að Hákon hóf heimanför sína. Njósnir komust að Skjöldólfsstöðum um fyrirætlun hans. Var þá skjaldmær sú er Valgerður hét send til að vara Skjöldólf við hættu þeirri er honum stæði af Hákoni því Skjöldóflur hafði eigi nema eina viðarexi til vopna. Það er af skjaldmeynni sagt að hún hafði [hlaupið] í spretti upp fjallið og norður að tjörn nokkurri fyrir norðan brýrnar. Þar féll hún dauð niður, sprungin af mæði. Heitir tjörn þessi af því Valgerðarhlaup. Hún hafði haft alvæpni Skjöldólfs og ætlað að færa honum. En af því svo til tókst þá var hann varbúinn við komu Hákonar.” ... „ En með því lauk að Skjöldólfur féll þar við víkina af því hann vantaði vopn sín; og var hann heygður í hólmanum í stóra vatninu.1 Er haugurinn hóll mikill. Tvisvar hefir verið reynt að brjóta hann; en orðið hafa þeir að hætta því fyrir drauma og fleiri orsakir.“ „Sögn Gunnars Jónssonar frá Háreksstöðum, nú Húsavík.“   

Feiri gerðir eru til af þessari sögu en þær verða ekki raktar hér.

Neðanmáls segir hjá Sigfúsi um stóra  vatnið eftirfarandi: „ Nú nefnt Stórhólmavatn.”

  • Last updated on .
  • Hits: 1706

Hneflasel

Bærinn var byggður úr landi Eiríksstaða 1847 um 3 km suðaustur af Heiðarseli og stóð í 575 m hæð vestur af Ytri-Eiríksstaðahnefli. Nafnið bendir til þess að þar hafi verið sel fyrrum frá Eiríksstöðum. Frumbyggjar voru Oddur Sæbjörnsson, fæddur á Jökuldal og ráðskona hans Helga Guðmundsdóttir sem var ættuð af Jökuldal. Hneflasel fór í eyði við Öskjugosið 1875.
6) GPS hnit (N65°10.19 - W15°30.46)

Hneflasel - Ítarefni og ábúendatal

Hneflasel var hjáleiga undan Eiríksstöðum og lá í 575 metra hæð yfir sjó. Þar var líklega haft í seli áður og því sennilega einhver hús fyrir frumbyggjana að hverfa að.  Býlið hafði enga fasta hundraðstölu en goldið eftir það tveir sauðir veturgamlir eins og flest heiðarbýlin.  Frá Hneflaseli var nokkur veiði í Þverár- og Ánavatni.  Laufslægjur voru talsverðar og flóar grösugir.  Þar var ein besta vetrarbeitin í allri Suðurheiðinni.

 Frumbygginn Oddur hafði lengi verið beitarhúsasmali á Eiríksstöðum  og eftir að þau Helga brugðu búi á Hneflaseli vistuðust þau til æviloka á Eiríksstöðum og lögðu með sér eignir sínar (proventu). Lifði Helga á próventunni í 25 ár en Oddur í 29. 

Á meðan þau bjuggu á Hneflaseli tóku þau að sér pilt, sem líklega var náskyldur Helgu og átti hann að taka við af þeim en dó ungur. Kannski er það Guðmundur Magnússon tökubarn úr Klifsstaðasókn sem skráður er til heimilis hjá þeim strax fyrsta búskaparárið á Hneflaseli, þá 12 ára. Hann er ekki lengur skráður hjá þeim árið 1859.  Árið 1856 er til heimilis hjá þeim vinnukonan Björg Þorsteinsdóttir 43 ára og Vilborg Torfadóttir er vinnukona hjá þeim 1859.  

Oddur og Helga fylgdu húsmóður sinni Guðrúnu Finnsdóttur í Fremri-Hlíð í Vopnafirði í kjölfar Öskjugossins 1875 og dvöldu þar í 3-4 ár. 

Kristján Jónsson, kenndur við Hrjót í Hjaltastaðaþinghá var alinn upp í Vopnafirði og minnist Odds á eftirfarandi hátt.  “Oddur var orðinn því sem næst blindur en (...) yngra fólkið hafði grun um það að gamlinginn kynni illa við sig.  Svo er það einn morgun, þegar komið er á fætur í Fremri-Hlíð,  þá er Oddur horfinn.  Einhvernveginn var það nú svo að það drógst dálítið að elta karlinn, því menn þóttust þess fullvissir að hann hefði lagst til stroks. Svo kemur að því að Gunnlaugur (sonur Guðrúnar) leggur af stað á tveim gráum hryssum sem hann átti og voru eldfjörugar en hann náði Oddi ekki fyrr en langt suður á Tunguheiði sem var þó á réttri leið þó sjóndapur væri...Annars var Oddur þessi ákaflega forneskjulegur karl, hann riðaði mikið úr táum, smákörfur og ýmislegt, sumar voru þær vatnsheldar.  Stundum var hann að biðja mig að útvega sér táar. Þegar ég færði honum þær þá fór hann ofan í ákaflega forna járnbenta kistu og gaf mér brennivín í gömlu tinstaupi og steinsykur.  Það var sagt að þessi gömlu hjón hefðu átt mikið af gömlum munum, sem munu hafa runnið inn í Eríksstaðabúið”.

(Kristján Jónsson, e.d.)

Ábúendatal:

1. 1848 – 1860: Oddur Sæbjörnsson (06.07. 1798 - 04.03. 1889) fæddur á Brú á Jökuldal og ráðskona hans Helga Guðmundsdóttir (22.11. 1804 – 19.02. 1885) frá Vaðbrekku.  

2. 1860 – 1875: Einar Bessason f. 19.10. 1824 ættaður úr Bárðardal og Lilja Vigfúsdóttir frá Víðirhólum f. 27.04. 1839. Þau bjuggu í Hjarðarhaga áður en þau fengu ábúð á Hneflaseli. Þau eignuðust fimm börn. Anna Kristín,Sigfús, Anna Kristín yngri og Baldvin náðu ekki fullorðinsárum. Pálína fædd 1854 var að nokkru leiti alin upp í Brattagerði á Jökuldal en var með foreldrum sínu síðustu búskaparárin í Hneflaseli. Þau hrökkluðust að Gnýstöðum í Vopnafirði er ”yfir þyrmdi askan dimm, átján hundruð sjötíu og fimm” og þaðan vestur um haf árið 1878 frá Svínabökkum. Pálína fluttist til Vesturheims 1887 með son sinn Stefán frá Torfastöðum í  Vopnafirði. 

Heimildir:

• Aðalsteinn Aðalssteinsson (e.d.)Hneflasel. Óbirt gögn.

• Halldór Stefánsson, (1947). Austurland. Halldór Stefánsson og Þorsteinn M. Jónsson ritstj. Sögusjóður Austfirðinga. Akureyri. 

• Kristján Jónsson, (e.d.). Óbirt gögn á Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum

• Páll Pálsson (2009). Munnleg heimild.

• Þorvaldur Ásgeirsson. (2000). Múlasýslur sýslu- og sóknarlýsingar. Finnur N. Karlsson, Indriði Gíslason og Páll Pálsson ritstj. Sögufélag, Örnefnastofnun Íslands. Reykjavík .

  • Last updated on .
  • Hits: 1604

Hlíðarendi

Hlíðarendi var byggður úr landi Arnórsstaða 1853, hjá rústum hins forna Arnórsstaðasels, 6 km norður af Ármótaseli. Frumbyggjar voru Jón Stefánsson, bónda á Eyvindará og Guðrún Lára Þórðardóttir, bónda á Staffelli. Ábúendaskipti á Hlíðarenda voru tíð og stundum voru þar tveir ábúendur samtímis. Bærinn fór endanlega í eyði 1872.

(11) GPS hnit (N65°19.24 - W15°25.80)

Hlíðarendi - Ítarefni og ábúendatal

Bærinn byggður úr landi Arnórsstaða 1853 hjá rústum hins forna Arnórsstaðasels 6 km norðvestur af Ármótaseli. Bærinn stendur í 528 m. hæð yfir sjávarmáli. Hálsinn vestan við bæinn heitir Skollagrenisás en sunnan við hann heitir Langahlíð. Af henni er bæjarnafnið komið þ.e. Hlíðarendi.  

Frumbyggjar voru Jón Stefánsson bónda á Eyvindará og Guðrún Lára Þórðardóttir bónda á Staffelli í Fellum. Þau komu úr húsmennsku á Háreksstöðum og fluttu þangað aftur 1860 eftir frumbýlingsárin á Hlíðarenda.  Ábúendaskipti á Hlíðarenda voru tíð og stundum voru þar tveir ábúendur samtímis. Hlíðarendi var í alfaraleið (nyrðri leiðin) þau 18 ár sem hann var byggður og áttu ferðamenn þar athvarf ef þörf var á. Aðalgististaðirnir á þessari leið voru þó Gestreiðarstaðir og Háreksstaðir. 

Bærinn fór endanlega í eyði 1872. 

Saga: Árið 1891 var maður að nafni Marteinn Gíslason á leið frá Vopnafirði að Brú á Jökuldal. Hann lenti í snjóbyl  og  þegar hann óvænt rekst á húsatættur  ákveður hann að hvíla sig um stund. Hann áttar sig á að tætturnar muni vera á Hlíðarenda. Hann telur sig ekki hafa sofnað en þykir þó að til hans komi maður sem ávarpar hann og segir honum að halda áfram ferðinni  í stað þess að liggja hér og sofa. Marteinn rís upp og heldur áfram ferðinni  og kemst heim að Brú um kvöldið. Þegar Helga Sigmundsdóttir heyrði sagt frá fyrirburði þessum og heyrði lýsingar Marteins af manninum varð henni að orði: „Þetta hefur verið hann Sigfús minn“. Sigfús Pétursson lést á Hlíðarenda árið 1870.

Ábúendatal:

1. 1853 – 1860: Jón Stefánsson (f.1817) frá Eyvindará og Guðrún Lára Þórðardóttir (f.1827) frá Háreksstöðum. Börn: Pétur Lárus (f.1847), Sigurjón (f.1851) fluttist til Vesturheims, Guðrún (f.1854) og Katrín Soffía (f.1857). 1859 – 1860: Magnús Hallgrímsson og Sesselja Danélsdóttir, húsmennska. Börn: Hallgrímur og Sigurður (f.1858)

2. 1860 – 1864: Jón Jónsson frá Þrándarstöðum Gunnlaugssonar frá Hjarðarhaga og Ragnhildur Magnúsdóttir frá Meðalnesi. Börn: Sigfús (f.1841) bóndi á Hlíðarenda og Sigríður. 

3. 1861 – 1862: Jón Benjamínsson (f.1835) frá Veturhúsum og Guðrún Jónsdóttir (f.1834) frá Breiðuvík. seinna á Mel og Háreksstöðum. Börn: Benjamín (f.1861), Jón (f.1864), Ísak (f.1866), Þórunn Guðrún (f.1867,d.1869), Gísli (f.1869,d.1872), Gunnar (f.1870) Þórarinn (f.1873) og Gísli (f.1876). Margir afkomendur Jóns og Guðrúnar fluttust til Vesturheims.

4. 1862 – 1864:  Páll Pétursson og Sigríður Vigfúsdóttir  (áður á Víðihólum)                

5. 1864 – 1869:  Sigfús Jónsson Sigfúsarsonar (f.1841) og Ólöf Sigfúsdóttir (f.1833). Fór frá honum til Vesturheims. Barn: Stefán (f.1865). Seinni kona Margrét Björnsdóttir frá Hofi í Fellum.

6. 1869 – 1870: Sigfús Pétursson (f. 1813) frá Hákonarstöðum og Helga Sigmundsdóttir (f.1822) frá Flögu í Skriðdal, þau bjuggu áður í Sænautaseli. Börn: Guðný Ingibjörg (f.1849), Guðlaug Kristín (f.1851), Pétur (f.1853), Guðrún Hallfríður (f.1855), Arnbjörn (f.og d.1858), Sigfús (f.og d.1859), Gunnlaugur Árni Björn (f.1860), Sigurjón (f.1863,d.1865), Sigfinna Guðrún, Hallfríður (f.1868) og Jónína Stefanía. Börn Sigfúsar með Ólöfu Einarsdóttur vinnukonu á Hákonarstöðum: Þórunn (f. og d. 1834) og Jósep (f.1835)

7. 1870 – 1872:  Jón Guðlaugsson frá Mjóadal í Bárðadal og Steinunn Símonardóttir – áður í Ármótaseli og Víðihólum

  • Last updated on .
  • Hits: 1797

Heiðarsel

Bærinn stóð við Poll, sem er vatn við suðurenda Ánavatns í landi Brúar í 553 m hæð og byggðist 1858.  Á Heiðarseli er víðsýnt og þótti fagurt bæjarstæði. Frumbyggjar voru Jón Þorsteinsson, bónda á Brú, Einarssonar og Kristín Jónsdóttir, bónda á Aðalbóli, Péturssonar á Hákonarstöðum. Ekki var búið að Heiðarseli frá Öskjugosinu 1875 og fram undir aldamótin 1900.  Síðustu ábúendur bjuggu á jörðinni í 34 ár.  Heiðarsel var síðasta býlið sem fór í eyði á Jökuldalsheiðinni árið 1946.  Með því lauk rúmlega 100 ára byggðarsögu heiðarbýlanna.

(5) GPS hnit (N65°10.71 - W15°33.51)

Heiðarsel - Ítarefni og ábúendatal

Heiðarsel byggðist 1858 í landi Brúar og má gera ráð fyrir því að þarna hafi áður verið sel frá Brú og nafnið komið af því að þetta sel stóð í Heiðinni en önnur sel þaðan voru niðri í dölunum inn frá Brú.

Bærinn stóð við Poll sem er vatn við suðurenda Ánavatns í 553 m hæð. Á Heiðarseli er víðsýnt og þótti fagurt bæjarstæði. 

Síðustu ábúendur á Heiðarseli þau Guðjón Gíslason frá Hafursá á Völlum og Guðrún Benediktsdóttir frá Hjarðarhaga bjuggu þar í 34 ár.  Ekki fer hjá því að á svo löngum búskapartíma hafa skiptst á skin og skúrir, bæði í verðlagi og tíðarfari, enda á þeirra búskaparárum búnar að ganga yfir tvær heimstyrjaldir og heimskreppan og þó afskekkt væri í Heiðinni fóru slíkir hlutir ekki hjá garði þar frekar en annars staðar og birtust í verðlagi afurða og aðfanga.

Heiðarsel var síðasta býlið sem fór í eyði á Jökuldalsheiðinni árið 1946.  Með því lauk 100 ára byggðasögu Heiðarbýlanna.

Ábúendatal:

1. 1858 – 1863: Jón Þorsteinsson (f.1824) frá Brú og Kristín Jónsdóttir (f.1824) frá Aðalbóli. Barn: Jón (f.og d. 1847). Börn Jóns og Halldóru Sveinsdóttur vinnukonu á Vaðbrekku tvíburarnir Sveinn og Anna Sigríður (f.og d. 1860)

2. 1863 – 1875: Jón Sveinsson (f.1821) frá Bárðastöðum í Loðmundarfirði og Sólveig Magnúsdóttir (f.1827) systir Sölva á Grunnavatni. Börn: Jóhann Frímann (f.1849) tóvinnuvélstjóri Ormarsstöðum, Elísabet og Magnús sem bæði fluttu til Vesturheims.

1875 – 1898: Í eyði.

3.    1898 – 1903: Helgi Bjólan Dagbjartsson og ráðskona hans Oddný Kristjánsdóttir. Þau fluttu til Vesturheims.Barn: Kristján (f.1902).

4. 1903 – 1904: Þórarinn Ketilsson (f.1875) frá Kleif í Fljótsdal og Helga Guðnadóttir (f.1873) frá Grunnavatni.Börn: Ólafur, Bergljót(f.1900), Signý(f.1901), Guðni(f.1906) og Alfreð.

1904 – 1905: Í eyði.

5.    1905 – 1912: Sigfús Einarsson (f.1847) frá Hleinargarði, Eiðaþinghá og Guðbjörg Jónsdóttir (f.1863) úr V.-Skaftafellssýslu. Börn: Vilhjálmur (f.1904) og Halldór (f.1906). Sonur Guðbjargar Jón B. Guðlaugsson (f.1896) 

6. 1912 – 1946: Guðjón Gíslason (f.1879) frá Hafursá og Guðrún María Benediktsdóttir (f.1880) frá Hjarðarhaga. Börn: Einar Hjálmar og Sigrún, tvíburar (f.1907), Sólveig Sigfríður (f.1912), Arnheiður (f.1915), Elís (f.1918) drukknaði í Jökulsá af kláf hjá Skjöldólfsstöðum og Hallveig Friðrikka (f.1923).

  • Last updated on .
  • Hits: 1831

Háreksstaðir

Háreksstaðir voru byggðir úr landi Skjöldólfsstaða í 482 m hæð og voru fyrsta býlið sem reist var í Heiðinni árið 1841. Talið er að þar hafi verið fornbýli. Háreksstaðir voru jafnan taldir eitt besta býlið í Heiðinni og fjölsetnasta, enda var graslendið þar hvað samfelldast og víðáttumest. Frumbyggjar voru Jón Sölvason, bónda á Víkingsstöðum í Skógum og Katrín Þorleifsdóttir, Þorleifssonar frá Stóru-Breiðvík í Reyðarfirði. Nokkrir af ábúendum Háreksstaða og afkomendur þeirra fluttust til Vesturheims. Búið var á Háreksstöðum samfellt til 1923 utan eins árs sem býlið var í eyði. Þar er nú leitarmannaskýli.

(13) GPS hnit (N65°24.28 - W15°25.35)

Háreksstaðir - Ítarefni og ábúendatal

Háreksstaðir sem standa 482 m.y.s. eru byggðir úr Skjöldólfsstaðalandi. Talið er að þar hafi verið búið til forna og hafi bærinn fengið nafn sitt af landnámsmanninum Háreki. Er hans lítillega getið í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar í frásögn sem talin upprunnin frá  hinni glötuðu Jökuldælu. Munnmæli herma að býlið hafi farið í eyði í svartadauða en hvergi finnst stafur fyrir því.

Hárekstaðir voru fyrsta býlið sem byggt var í heiðinni þegar hið nýja landnám  hófst þar. Frumbýlingar voru Jón Sölvason og Katrín Þorleifsdóttir sem hófu þar búskap 1841. Lengst bjó þar Jón Benjamínsson sem flutti þangað árið 1871 ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur og höfðu þau áður búið á þremur  býlum í Heiðinni. Eftir lát Guðrúnar 1876  kvæntist Jón Önnu Jónsdóttur af Jökuldal.

Oft var gestkvæmt á heimilinu, ekki síst vor og haust, en afréttarlönd Vopnfirðinga  eru  á þessum slóðum og gistu gangnamenn þar jafnan. Jón bjó Háreksstöðum fram til ársins 1903 er hann flutti til Vesturheims  ásamt fjölskyldu sinni að undanskyldum einum syni sem settist að á Íslandi.

Land Háreksstaða er víðlent en mjög votlent og grasgefið. Túnið umhverfis bæinn fór langt með að gefa af sér kýrfóður, en kýr voru sjaldgæfir gripir á heiðarbýlunum. Annar heyskapur var stundaður á engjablettum í úthaga og vegna þess hve votlent er varð oftast að flytja heyið blautt á klökkum heim á tún og þurrka það þar.

Fært var frá ánum á vorin en það orð fór af að hvergi mjólkuðu þær betur eða að mjólkin væri kostameiri en í Heiðinni.

Ein af undirstöðum búskaparins var silungsveiðin og segir Gísli Jónsson einn af sonum Jóns Benjamínssonar í endurminningum sínum sem birtust í bók hans Haugaeldum að í búskapartíð föður hans hafi verið bátur á Háreksstöðum sem ekki var þyngri en svo að einn hestur gat dregið hann á milli vatna. Segir Gísli að í vötnunum hafi verið ólík fiskakyn en silungur bragðbestur í Skipatjörn.

Í endurminningum sínum nefnir Gísli fjölda örnefna sem segja sína sögu um landshætti og dýralíf og  verða nokkur þeirra talin hér: Vatnaflói, Lindaselsflói, Stekkjarflói, Sauðalónaflói, Geldingavatn, Langhólmavatn, Stórhólmavatn, Skipatjörn, Lómatjörn, Reiðtjörn, Götutjarnir, Kríutjörn, Skollagrenisás, Sauðafell, Háfslækur.

Háreksstaðir voru nær samfellt í byggð þar sem öskufallið í Öskjugosinu 1875 olli þar minni búsifjum en víða annars staðar í Heiðinni.

Ástæðan var að bærinn stóð utan mesta öskugeirans og eins sú að askan hvarf ofan í votlendið. Árið 1924 hætti endanlega að rjúka á Háreksstöðum, 83 ára búsetu var lokið.

Heimildir: Haugeldar, Gísli Jónsson, Sveitir og jarðir í Múlaþing

Samantekt: Arndís Þorvaldsdóttir.

Ábúendatal 

1. 1841 – 1864: Jón Sölvason (f.1803) frá Víkingsstöðum og Katrín Þorleifsdóttir (f.1809) frá Stóru-Breiðuvík.

Börn: Anna Sigríður (f.1832), Vilhelmína Friðrika (f.1833), dóttir Katrínar: Guðrún Lára Þórðardóttir (f.1827) húsfreyja Hlíðarenda.

1841 – 1871: Sólveig Eiríksdóttir (f.1806) frá Arnaldsstöðum í húsmennsku. Fráskilin, fyrrverandi maki Pétur Bjarnason frá Norðurkoti í Andakýlshreppi.

Börn: Páll (f.1828), Vigfús (f.1830), Benedikt og Sigríður.

1846 – 1855: Jón Stefánsson (f.1817) og Guðrún Lára Þórðardóttir (f.1827). Húsmennska.

 2. 1851 – 1866: Vigfús Pétursson (f.1830) og Anna Sigríður Jónsdóttir (f.1832)

Börn: Jón (f.1852), Pétur Vilhelm (f.1853), Methúsalem (f.1855), Júlíus (f.1856,d.1860), Sigurjón (f.1858, d.1862), Kristrún Una (f.og d.1860), M.Júlía (f.og d.1861), Jóhannes og Júlíus tvíburar(f.og d.1863), Vilhjálmur (f.d.1864).

Börn Vigfúsar og Katrínar Ófeigsdóttur: Pálína (f.1851) og Karólína (f.1860, d.1861)

Barn Vigfúsar og Guðnýjar Sigfúsdóttur: Stefán Helgi (f.og d. 1868)

Börn Vigfúsar og Helgu Andrésdóttur: andvana stúlka (f.1869) og Helga Stefanía (f.og d. 1872)

3. 1853 – 1870: Páll Pétursson (f.1828) og Vilhelmína Friðrika Jónsdóttir (f.1833).

Börn: María (f.1855), Anna Katrín (f.1856), Jón (f.1858,d.1860), Jón (f.1861), Ástríður    (f.1862,d.1869), Steinvör Petra Jóna (f.1864,d.1865) og Guðrún Aðalborg (f.1865, d.1866). 

Barn Vilhelmínu og Þorkels Jóhannessonar: Jóhannes (f.og d.1854)

Páll andaðist 1866 og seinni maður Vilhelmínu var Björn Árnason frá Hálsi.

Barn: Pálína Hildur (f.1867)

4. 1871 – 1903: Jón Benjamínsson (f.1835) frá Veturhúsum og Guðrún Jónsdóttir (f.1834) frá Breiðuvík. 

Börn: Benjamín (f.1861), Jón (f.1864), Ísak (f.1866), Þórunn Guðrún (f.1867, d.1869),Gísli (f.1869,d.1872),Gunnar (f.1870),Þórarinn (f.1873)og Gísli(f.1876)

Guðrún andaðist 1876 og seinni kona Jóns var Anna Jónsd. (f.1853) frá Hvoli.

Börn: Einar Páll (f.1880), Sigurjón (f.1881) og Anna María (f.1885).

5. 1903 – 1904: Benjamín Jónsson (f.1861) og Jóhanna Ó. Hallgrímsdóttir (f.um 1874) frá Fellsseli í S.- Þing.

Börn: Guðný, Jón (f.1896) féll í stríðinu í Frakklandi, Guðrún og Þórður.

Barn Benjamíns og Margrétar Jóhannesdóttur, Sænautaseli, Ásthildur (f.1889)

6. 1904 – 1909: Haraldur (f.1868) þineyskur og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir (f.1867) frá Fellsseli.

 Börn: Sigurður (f.1893), Jóna Þórdís (f.1902) og Guðbjörg Stefanía (f.1908) 

 1909 – 1911: Í eyði.

7. 1911 – 1924: Stefán Alexandersson (f.1886) frá Mjóafirði og Antonía Antoníusdóttir (f.1875) úr Álftafirði.

Börn: Björgvin (f.1907), Sigríður (f.1908), Alexander (f.1909), Sigurjón (f.1911), Margrét (f.1912), Aðalheiður (f.1914), Árni, Lára (f.1918) og Gunnar (f.1919).

Seinni kona Stefáns var Guðný Árnadóttir (f.1905) frá Teigaseli.

Barn Stefáns og Bjargar Antoníusardóttur: Stefanía (f.1907) húsfr.Flugustöðum

8. 1924 – 1925: Þorkell Björnsson (f.1892) frá Rangá og Þóra Þórðardóttir (f.1900) frá Gauksstöðum

Börn: Þórný, Soffía, Ingólfur, Þórður, Anna B., Margrét dó ung.

Dætur Þorkels: Margrét (f.1914) húsfr.Brekku, Mjóafirði og Kristín (f.1918) húsfr.Hafursá.

Margir af ábúendum á Háreksstöðum og afkomendur þeirra fluttust til Vesturheims á sínum tíma. 

  • Last updated on .
  • Hits: 2294