Skip to main content

Víðirhólar

Bærinn var byggður úr landi Hákonarstaða 1846 í 540 m hæð ca 5 1/2 km norður af Hálsi.  Býlið var fyrst kallað Víðirdalssel. Frumbyggjar voru Vigfús Jósafatsson frá Hömrum í Reykdælahreppi og Rósa Jónsdóttir ættuð úr Öxnadal.  Búið var í Víðirhólum til 1905 en þá hafði jörðin rýrnað svo af uppblæstri og ágangi af völdum vikursins að ekki þótti búandi þar lengur.  Byggð á Víðirhólum lá þó niðri í nokkur ár eftir Öskjugosið.  Tæplega 1 km sunnan við bæjarstæðið er Víðirhólarétt, fjallskilarétt (N65°13.63 - W15°22.71), hlaðin úr grjóti.  Hún var byggð um aldamótin 1900 og var notuð í rúm 20 ár.

(9) GPS hnit (N65°14.09 - W15°22.46)

Víðirhólar - Ítarefni og ábúendatal

Víðihólar voru byggðir úr landi Hákonarstaða 1847. Bærinn var um fjóra  km austan Veturhúsa og um 8½ km sunnan Ármótasels og var í þeim hluta Jökuldalsheiðar sem nefndur er Suðurheiðin. Bæjarstæðið er í sunnarlega í Víðidal vestan Víðidalsár. Vestur af Víðihólum er flóasvæði sem heitir Bæjarflói. Úr flóanum rennur lækur rétt við bæinn er heitir Brandslind og tengist nafnið fornum sögum. Svokölluð syðri leið vestur yfir Jökuldalsheiði, sem hægt var að fara frá fjórum efstu bæjum á Jökuldal og frá bæjum í suðurheiðinni, lá m. a. um Víðihóla og Sænautasel. Þetta var alfaraleið, einkum eftir að brú kom á Jökulsá hjá Hákonarstöðum.

Helstu hlunnindi Víðihóla hafa verið næg silungsveiði í vötnum í Suðurheiðinni. Einnig var oft mikil rjúpnaveiði og nærtæk á haustin og nokkrar nytjar af sundfuglum (álftir, endur og gæsir) á sumrin einkum er þessir fuglar voru í sárum. Graslendi var nægt til heyöflunar og búfé yfirleitt vænt og spakt í högum. Helstu ókostir við búskapinn á Víðihólum sem og á öðrum heiðarbýlum voru einkum vetrarríki, einangrun og langar vegalengdir sem fara þurfti til aðdrátta og til að leita læknis.

Á söguöld bjó eða hafðist við á Viðihólum Brandur sterki, sauðamaður Hákonar á Hákonarstöðum. Gaukur er bjó á Gauksstöðum drap Brand á Viðihólum fyrir litlar sakir. Sigfús Sigfússon Rvík. 1986,VI b. Bls.58-59:

„Það var að haustblóti að Brandur hinn sterki fór erinda austur á útdalinn og reið upp austursíðu. Voru þeir fleiri saman og sumir ófrjálsir menn. Þeir komu að Gauksstöðum og réðst Gaukur til farar með þeim. Riðu þeir sem leið liggur og ætluðu  yfir ána að Goðavaði og til blótsins. Gaukur var vel búinn að vopnum og klæðum; hafði hann sverðið góða. Ríða þeir nú á ána og var kæti mikil í för þeirra. En er þeir voru á ánni þá brá Brandur sterki spjótsfal fyrir fætur hesti Gauks og snjakaði honum. Féll hesturinn og blotnaði Gaukur en gat þó rétt hestinn. Voru hinir þá komnir af ánni upp í Goðanes og gerðu kalls mikið að þessu, kváðu skrúðklæðin hafa blotnað á Gauki. Eigi lét hann sem hann heyrði það. Máttu þeir eigi berjast þar sökum helgi staðarins. Og áður þeir skildu mótið mælti Gaukur að minnast skyldi hann öfundarbragðs þessa síðar meir, og skildu svo. Líður nú vetur og bar eigi til tíðinda með þeim. 

Öndverðlega á næsta sumri var það dag einn að Gaukur tekur sverð sitt  og herklæði og ríður heiman og veit enginn hvert hann hefir ferð sinni heitið. En það  er af honum að segja að hann léttir eigi ferð sinni fyrr en hann kemur norður á Víðirhól. Hittir hann Brand að kolagerð. Vissi hann ei fyrr af en Gaukur var þar kominn og gekk eftir reyknum. Bað hann Brand verja sig. Sumra sögn er að Brandur væri inni staddur og gengi út; en hvort sem var þá lauk því svo að þar féll Brandur. Kastaði Gaukur  honum í læk þann er síðan heitir Brandslind og er þar hjá garði. ....”

Víðihólar fóru í eyði 1905.

Ábúendur Víðirhólum:

Landnemar hér voru  „Vigfús (f. 1790) Jósafatsson frá Hömrum í Reykdælahreppi og Rósa (f. 1796) Jónsdóttir ættuð úr Öxnadal. Þau höfðu fluttst árið 1832 með dóttur sína, Lilju, frá Svíra í Hörgárdal til vistar að Hvanná. Höfðu þau dvalið í ýmsum vistum á Jökuldal og í húsmennsku á Gestreiðarstöðum tvö síðustu árin áður en þau byggðu nýbýli sitt.”(Heimild: Halldór Stefánsson: Jökuldalsheiðin og byggðin þar. Austurland I. bindi. 1947).

Þau Vigfús og Rósa bjuggu á Víðihólum til vors 1855, en fluttu þá til Lilju dóttur sinnar,sem þá var orðin húsfreyja á öðru heiðarbýli, Hneflaseli, enda voru þau þá farin að eldast nokkuð. Húsmennskuábúð með Vigfúsi frá 1852 hafði Jón Guðlaugsson, sem síðar varð frumbyggi í 

Ármótaseli. Eftir að Vigfús og Rósa hættu búskap á Víðihólum héldu ábúðinni þar Magnús (f. 1826) Jónsson bónda í Mjóanesi í Skógum, Ormssonar og Aðalbjörg (f. 1822) Jóhannesdóttir bónda í Fjallsseli, hálfbróður Jóns (yngra) í Möðrudal. Þau höfðu verið saman í vist á Eiríksstöðum árið 1854 og giftust þá um haustið, en fengu svo húsmenskuábúð á Víðihólum vorið eftir. Þau bjuggu á Víðihólum til 1859, en reistu þá nýbýlið Háls úr Eiríksstaðalandi.

Á Víðihólum var stundum tvíbýli og jafnvel húsmaður að auki, en ekki er rúm hér til að geta allra ábúenda þar, enda  sumir þar aðeins skamma hríð. 

Síðustu ábúendur á Víðihólum fyrir Öskjugosið 1875 voru Bjarni (f. 1819) rami Rustikusson frá Breiðumýri, sá er Kristján Fjallaskáld fræðgi í ljóði fyrir afl og atgjörvi og kona hans Arnbjörg (f. 1819) Einarsdóttir, Einarssonar frá Lundi í Fnjóskadal, hálfsystir Einars í Nesi. Þau höfðu gifst á Breiðumýri vorið 1846 og dvalið á ýmsum stöðum áður en þau fengu ábúð á Víðihólum 1864. Arnbjörg dó í desember 1873, en Bjarni bjó þar áfram til öskufalls, en  hörfði þá niður að Hákonarstöðum, sem ábúendur þar höfðu yfirgefið vegna öskufalls. Bjargði hann fénaði sínum það ár með því að nytja báðar jarðirnar. Eftir það lögðust Víðihólar í eyði í sex ár vegna öskufallsins. Víðihólar voru hins vegar annað býlið í Jökuldalsheiðinni sem byggðist aftur eftir Öskugosið næst á eftir Ármótaseli. Byggð hófst aftur á Víðihólum 1879. Þá fluttust þangað Krisján Sigurðsson og Sigfinna Jakobína Pétursdóttir, sem verið höfðu  ábúendur í Ármótaseli í eitt ár 1878. Þau hjónin höfðu þá keypt Víðhóla og önnur heiðarbýli er byggð voru úr Hákonarstaðalandi. Kristján lenti síðar í landamerkjadeilu við Möðrudal ásamt feiri aðilum er leiddu til langvinnra málaferla. Kristján bjó á Víðihólum til dauðadags 1898 og eftir hann ekkja hans með Pétri syni þeirra til vors 1901. Snjólfur Eiríksson úr Breiðdal og Elísabet Arnbjörnsdóttir bjuggu á Víðihólum 1901-1903. Þau fluttu til Ameríku með tvo syni sína. Síðustu ábúendurnir á Viðihólum 1904-1905 voru Sigurgeir Jónsson frá Reykjadal S-Þing. og Karólína Þorláksdóttir frá Laugum S-Þing. Þau fluttu frá Víðihólum að Ármótaseli 1905. 

Ábúendatal:

1. 1846 – 1855: Vigfús Jósafatsson (f.1790)  og Rósa Jónsdóttir (f.1796). Börn: Sigríður (d.1835), Lilja (f.1823) húsfreyja, Hneflaseli, Páll (f.1833) bóndi, Veturhúsum, Sigríður (f.1837) húsfreyja Víðihólum. 1852 – 1853: Jón Guðlaugsson, húsmennska.

2.  1855 – 1859: Magnús Jónsson (f.1826) frá Mjóanesi og Aðalbjörg Jóhannesdóttir (f.1822) frá Fjallsseli. Börn: Guðmundur (f.1855), Jón (f.1856) og Guðjón (f.1858)

3. 1858 – 1859: Páll Vigfússon (f.1833) og Gróa Sigurðardóttir (d.1864). Börn: Elínbjörg (f.og d.1859) og Lilja (f.1861, d.1862) (Veturhús)

4. 1859 – 1866: Páll Pétursson (f.1833) frá Hákonarstöðum og Sigríður Vigfúsdóttir (f.1837). Börn: Vigfús (f.1858), Rósa (f.1860) og Sigurbjörg (f.1862)

5. 1861 – 1864: Jón Guðlaugsson og Steinun Símonardóttir. Börn: Sigríður (f.1863, d.1865), Sigríður (f.1865, d.1872) og Sveinn (f.1869, d.1872)

6. 1864 – 1875: Bjarni rami Rustikusson (f.1819) og Arnbjörg Einarsdóttir (f.1819). Börn: Hárekur (f.um 1847) varð úti frá Möðrudal 12.okt. 1869.  Þau áttu auk þess fimm börn sem öll dóu ung. Ráðskona Bjarna, Ingibjörg Snjólfsdóttir. Börn: Hárekur (f.1870) og Arnbjörg Sigurveig (f.1878, d.1882). Sonur Bjarna og Vilborgar Pálsdóttur frá Vatnsdalsgerði, Arnbjörn (f.um 1845)

1875 – 1879: Í eyði.

7. 1879 – 1901: Kristján Sigurðsson frá Breiðumýri og Sigfinna Jakobína Pétursdóttir frá Sleðbrjótsseli af Hákonarstaðaætt. Börn: Pétur Sigbjörn (f.1876) bóndi á Hákonarstöðum, Jórunn Þorbjörg (f.1882) og Gunnar Jón Gunnlaugur (f.1889,d.1890). Eftir andlát Kristjáns 1898 bjó Sigfinna áfram á Víðhólum til 1901. 1883 – 1884: Eiríkur Einarsson, húsmennska. 1886 – 1887: Árni Sigbjörnsson, húsmennska. 1900 – 1901: Guðmundur Bergmann Jónsson og Jónína Björnsdóttir, húsmennska.Börn: Helga og sonur Jónínu, Björgvin Ágússton. Fóru til Vesturheims.

8. 1901 – 1903: Snjólfur Eiríksson (f.1865) úr Lóni (d.1917 af slysförum, varð fyrir járnbrautarlest) og Elísabet Arnbjörnsdóttir (f.1859) frá Gerðum í Hraungerðishreppi í Flóa. Börn: Sigurður (f.1893) og Guðmundur (f.1900). Barn Elísabetar og Björns Sigfússonar: Jónína (f.1889). Þau fóru öll til Vesturheims.

9. 1903 – 1904: Pétur Kristjánsson og móðir hans Jakobína Pétursdóttir.

10. 1904 – 1905: Sigurgeir Jónasson og Karólína Þorláksdóttir.

  • Last updated on .
  • Hits: 1856