Skip to main content

Veturhús

Býlið var upphaflega nefnt Barð og byggt úr landi Hákonarstaða 1846.  Bærinn var fyrst byggður á vesturbakka Krókatjarnar (N65°13.87 - W15°28.40) er síðar var kölluð Veturhúsatjörn, í 554 m hæð, en vegna uppblásturs þar var hann fluttur eftir aldamót 1900 á austurbakkann í 556 m hæð. Frumbyggjar voru Benjamín Þorgrímsson, Suður-Þingeyingur að ætt og Guðrún Gísladóttir, bónda á Arnórsstöðum á Jökuldal.  Nokkrir af ábúendum Veturhúsa fluttust til Vesturheims eftir Öskjugosið.  Veturhús voru í byggð til 1941 em voru þó í eyði frá gosinu 1875 og fram undir aldamótin 1900.

(8) GPS hnit (N65°13.85 - W15°27.72)

Veturhús - Ítarefni og ábúendatal

Veturhús byggðust úr landi Hákonarstaða árið 1846 og var býlið í fyrstu nefnt Barð.  Bærinn var fyrst byggður á vesturbakka Krókstjarnar er síðar var kölluð Veturhúsatjörn, í 554 m hæð, en vegna uppblásturs þar var hann fluttur á austurbakkann í 556 m hæð.  Nafnið Barð gæti komið af því að þarna hafi verið sel áður sem aðeins var til sumardvalar en þegar vetursetan kom til viðbótar hafi nafniu verið breytt í Veturhús. 

Fyrstu ábúendur á Veturhúsum eru Benjamín Þorgrímsson, Suður-Þingeyingur að ætt og Guðrún Gísladóttir frá Arnórsstöðum.  Þau höfðu staðið fyrir búi föður hennar á Arnórsstöðum á síðustu árum hans en eftir það búið á ýmsum stöðum þar til þau byggja Barð. Veturhús voru í byggð til 1941 en voru þó í eyði frá gosinu 1875 og fram undir aldamótin 1900.

Anna frá  Slýjum í Suðursveit keypti Veturhús 1924 og var Bjarni Þorgrímsson vinnumaður hjá henni. Hún deyr 1934 og var hún áður búin að gefa Bjarna jörðina.  Bjarni flytur fráVeturhúsum um 1940 Það var tveimur árum seinna að fólkið í Sænautaseli sér hvar maður kemur gangandi frá veginum við Rangalón.  Heitir sá Kjartan Ólafsson og mun hafa verið lektor við Háskóla Íslands. Hann tekur  Halldóru, húsfreyju í Sænautaseli, tali og kveðst vera búinn að kaupa Veturhús og shann langi að fara og skoða býlið því hann muni ætla að dvelja þar part úr sumrum. Halldóra býður honum Sigurjón son sinn sem fylgdarmann en hann þiggur það ekki. Vísar Halldóra honum þá leiðina að Veturhúsum og segir honum að hann eigi að fylgja slóðinni alla leið þangað, sem og hann gerir. Tjaldar Kjartan við bæjardyrnar og leggst til svefns.  Þá finnst honum eins og allt leiki á reiðaskjálfi og gerist þetta í þrígang.  Tekur þá Kjartan upp forláta skammbyssu  og skýtur þremur skotum inn í bæjardyrnar. Hann tekur pjönkur sínar og flýr til byggða. Fimmtíu árum síðar kemur hann til Sigurjóns þá bónda á Eiríksstöðum á Jökuldal. Sigurjón fylgir honum að Veturhúsum og segir Kjartan honum þá að hann sé búinn að selja hreppnum jörðina. Talið var að Anna hefði aldrei viljað að Veturhús væru seld.

Ábúendatal:

1.  1846-1853:  Benjamín Þorgrímsson (1794-1855) Suður-Þingeyingur og Guðrún Gísladóttir (1806-1868) frá Arnórsstöðum.  Börn: Ísak (1826-), Ingveldur (1824-), Gísli (1839-) Am., Kristín (1830-1832), Jón (1835-1921) bóndi á Háreksstöðum og Jóhann (1836-1837).  Barn bónda með Sólrúnu Andrésdóttur: Sigurbjörg (1838).  

2.  1853-1861: Björn Gíslason (1826-) og Ólöf Eyjólfsdóttir (1826-). Börn: Eyjólfur (1849-) og Kristín (1856-).

3.  1862-1864: Jón Benjamínsson (1835-1921) og Guðrún Jónsdóttir (1834-1876). Börn: Gunnar (1871-), Gísli (1869-) Am., Benjamín (1862-) Am., Jón (1864-), Ísak (1866-) Am. og Þórarinn Am.

4.  1862-1871: Eiríkur Einarsson (1822-) frá Mjóanesi og Katrín Hannesdóttir (1823-) frá Eyri við Reyðarfjörð.  Börn: Guðný Margrét (1859-), Stefán oddhagi (1863-) og Þórarinn (1867-).

5.  1870-1875: Páll Vigfússon (1833-1906) og önnur kona hans Elísabet Guðmundsdóttir (1844-1928) frá Brattgerði. Börn: Oddur (1868-), Þorbjörg (1869-) og Lilja (1869-). Þau fóru öll til Vesturheims.

6.  1899-1901: Höskuldur Guðmundsson (1859-1912) frá Hornafirði og Kristín Jónsdóttir (1862-1937) frá Hriflu.  Börn: Guðlaug Rannveig (f.og d.1892), Kristján Jakob (1896-), Halldóra (1901-) og Jón símaverkstjóri á Vopnafirði.

7.  1900-1904:  Haraldur Sigurðsson (1868-) Þingeyskur og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir (1867-) frá Fellsseli, S.-Þing. Börn: Sigurður (1893-1966) bóndi Stuðlafossi og Jóna Þórdís (1872-)

8.  1904-1907: Pétur Kristjánsson (1876-1921) og Guðný Torfadóttir (1888-).  Börn: Hákon (1914-), Margrét (1917-) og Kristján Pétur Jökull (1919-)

9.  1907-1913: Sigurður Hannesson (1870-1947) frá Efri-Ey, Vestur-Skaft. og bústýra hans Ingibjörg Bjarnadóttir (1881-1947) frá Hornafirði.

10. 1917-1921: Björn Jóhannsson (1891-1968) frá Valdastöðum og Anna Magnúsdóttir (1892-1967) frá Hjarðarhaga.  Börn: Ívar (1916-1990), Ragnheiður Jóhanna (f.og d. 1917), Ragnar (1918-), Hörður (1920-), Jóhann (1921-), Magnús (1923-1990), Sigurður (1924-), Björn (1927-) og Einar (1928-1959).

11. 1923-1924:  Þorkell Björnsson (1892-) og Þóra Þórðardóttir (1900-) frá Gauksstöðum. Börn: Þórný, Soffía, Ingólfur rektor Kóp., Þórður, Anna B., Margrét dó ung.  Dætur Þorkels: Margrét (1914-) húsfr. Brekku Mjó., og Kristín (1918-) húsfr. Hafursá.

12. 1924-1941: Bjarni Þorgrímsson (1877-) ættaðr af Strönd.  Ráðskona og eigandi Anna Einarsdóttir (1862-1937) frá Slýjum í Meðallandi, V.-Skaft.

 

  • Last updated on .
  • Hits: 2053