Skip to main content

Rangalón

Bærinn stóð við norðurenda Sænautavatns og byggðist 1843 úr landi Möðrudals. Frumbyggjar voru Pétur Guðmundsson, Sögu-Guðmundar Magnússonar á Bessastöðum og Þorgerður Bjarnadóttir systir Kristrúnar á Sænautaseli. Val býlisstæðisins hafa ráðið sömu ástæður og á Sænautaseli, en einnig að býlið var í alfararleið yfir Heiðina. Rangalón var í byggð til 1923. Nokkur síðustu árin sem búið var á Rangalóni, var lagður styrkur úr Ríkissjóði til að halda þar við byggð vegna póstsamgangna.

(2) GPS hnit (N65°17.64 – W15°31.26)

Rangalón - Ítarefni og ábúendatal

Rangalón byggðist 1843 úr landi Möðrudals.  Bærinn stóð við norðurenda Sænautavatns.  Frumbyggjar voru Pétur Guðmundsson, Sögu-Guðmundar Magnússonar á Bessastöðum og Þorgerður Bjarnadóttir, en hún var systir Kristrúnar á Sænautaseli.  Þau giftu sig á Brunahvammi í Vopnafirði 1843.  Árin þar á undan höfðu þau verið í vistum sitt í hvoru lagi austur á Héraði. Líklega hafa þau þó verið búin að ráða með sér hjúskap sinn, því að átt höfðu þau saman fyrsta barn sitt fjórum árum áður en þau giftust. Þorgerður var þá heimasæta í foreldragarði en Pétur í vist á næsta bæ. 

Virðist það þá hafa verið fyrst og fremst bújörð, sem á stóð, og þegar Jökuldalsheiðin tók að byggjast opnuðust hinar lokuðu dyr sem töfrahellirinn Sesem. Pétur hafði verið kvæntur Ólöfu Pétursdóttur frá Hákonarstöðum áður, en hún var dáin nokkru fyrr en þetta var. Þorgerður flutti úr foreldrahúsum að Brunahvammi vorið 1842 og Pétur einnig sama vorið austan af Héraði. Má ætla að þá þegar hafi verið ráðin búfestan í Heiðinni og þau hafi einmitt þess vegna flutt í grenndina, í þeim tilgangi að hafa nokkur skilyrði til að undirbúa nýbýlisstofnunina.

Líklegt má teljast að ástæðan fyrir vali býlisstæðisins hafi verið sú sama og á Sænautaseli, þ.e. fiskur í vatni og graslendi gott. En að nokkru leyti mun það hafa ráðið, að býlið var við alfaraleið yfir heiðina og bæir komnir á báðar hendur, þótt löng leið væri að vísu til Háreksstaða.

Rangalón var í byggð til 1923.  Nokkur síðustu árin sem búið var á Rangalóni var lagður styrkur úr Ríkissjóði til að halda þar við byggð vegna póstsamgangna. Sumarið 1959 voru Karl Jakobsson frá Eiríksstöðum og Gunnlaugur Jónsson frá Möðrudal með veitingasölu í skúr hér að Rangalóni.  Skúrinn var síðan fluttur í Möðrudal og var upphafið af Fjallakaffi.

Heimildir: Aðalsteinn Aðalsteinsson, óbirt / Karl Jakobsson munnlegar heimildir.

Ábúendatal:

1.  1843-1873: Pétur Guðmundsson (1798-1851) frá Bessastöðum.  Kona 1: Ólöf Pétursdóttir. Barn þeirra: Þorbjörg Elísabet (f. um 1832) Kona 2: Þorgerður Bjarnadóttir (1818-) frá Staffelli. Börn: Ólöf (1839-1865), Guðmundur (1841-), Sigurður (1844-1910), Petrólína Björg (1846-)Am., Bjarni (1848-1930),Am. og Sveinn (1850-1851).  Eftir að Pétur lést 1851 bjó Þorgerður ein áfram til 1855. 1857: Pétur Bjarnason og Ingibjörg Þorleifsdóttir í húsmennsku.Þorgerður giftist 1855 Guðmundi Kolbeinssyni og býr með honum til 1867 að hún skilur við hann en býr svo áfram til 1873.  Börn Þorgerðar og Guðmundar: Lilja Sigríður (1854-) Am., Ágústína Ingibjörg (1856-) Am., Guðríður Jónína (1856-) Am og Sigfús (1859-1931) Am.  Þorgerður fór til Vesturheims 1876.

2.  1873-1875: Sigurður Pétursson (1844-1910) og Þorbjörg Eiríksdóttir frá Ármótaseli. Börn: Einar (1874-) og Kristín (f.1875 eða 6) Am. Þau fóru til Vesturheims.

3.  1875-1880: Kristján Friðfinnsson (1830-1879) frá Álandi í Þistilfirði og Kristín Árnadóttir (1832-1906) frá Vindbelg í Mývatnssveit. Börn: Bjarni Brynjólfur, Jónas Helgi, Jakobína Kristín, Baldvin Jóhann, Guðný Sigurlaug (1870-1871), Sigurlaug (f.1873). Fóru öll til Vesturheims.

4.  1880-1887: Sigurður Björnsson 

5.  1887-1889: Bergþór og Vilhelmína Eyjólfsdóttir.

6.  1889-1893: Árni Jónsson og Helga Hallgrímsdóttir. Börn: Laufey (1887-) og Jósef (1889-) Am.

7.  1893-1904: Eyjólfur Marteínsson (1862-1941) og Þuríður Hallgrímsdóttir (1867-1925)  Börn: Margrét (1888-1975), Herdís (1892-1938), Jakobína (1896-) og Stefán (1904-1995)

8.  1906-1907: Jón Stefánsson (1880-1971) og Þórunn G. Vilhjálmsdóttir Oddsen (1873-1944) Börn: Þórlaug Aðalbjörg (1914-1933), Jóhann (1907-1986), Stefán (1908-1994), Vilhjálmur (1910-) og Þórhallur (1913-) Fósturdóttir Kristín G. Oddsen.

9.  1907-1909: Jón Guðmundsson og Guðrún Guðmundsdóttir

10. 1910-1917: Haraldur Sigurðsson (1868-) Þingeyskur og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir (1867-) frá Fellsseli S.-Þing. Börn: Sigurður (1893-1966) bóndi að Stuðlafossi og Jóna Þórdís (1902-)

11. 1918-1922: Magnús Jónsson (1888-1965) frá Freyshólum og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir frá Seyðisfirði.  Börn: Alfreð (1914-), Skúli (1918-), Björg (1920), Haraldur, Pálína og Sigfríður.

12. 1922-1924: Sigurður Haraldsson (1893-1966) og Hróðný Stefánsdóttir (1892-1966).  Börn: Stefán (1917-), Haraldur (1925-), Brynja (1919-1996), Valborg (1922-2008) og Hrefna (1923-2008).

  • Last updated on .
  • Hits: 1801