Skip to main content

Kálffell

Kálffell (440 m) er afbýli frá Fossi.  Bærinn stóð utan við samnefnt fell, norðan Bunguflóa og skammt norðan og vestan við þjóðveg 85.  Óljóst er um upphaf byggðar á Kálffelli en heimildir geta um Bjarna nokkurn Bjarnason, sem fæddur var þar árið 1840.  Sé það rétt er Kálffell með elstu býlum í heiðum Vopnafjarðar. Deildar meiningar eru um hvort rita skuli nafnið með einu f eða tveimur.  Kálffell var lengstum talin ágætis bújörð, engjar víðlendar og grasgefnar og beitiland gott bæði sumar og vetur.  Þó má ætla að landgæðum hafi hrakað með auknum uppblæstri á síðustu áratugum nítjándu aldar. Árið 1911 er jörðin komin í eyði og öll hús ofan tekin og burt flutt.  Eftir standa laglegar tóftir bæjar- og gripahúsa og vekur sérstaka athygli að umgangsdyr fjárhúsa virðast snúa upp í brekkuna.  Gunnar Gunnarsson rithöfundur keypti Kálffell 1932 en sex árum áður hafði hann keypt grannjörðina Arnarvatn.

(20) GPS hnit (N65°35.26 - W15°20.94)

Kálffell - Ítarefni og ábúendatal

Kálffell var leigubýli frá bænum Fossi. Bærinn stóð í 440 metra hæð yfir sjó við rætur fjallsins Kálffells, sem er norður af Bunguflóa. Ekki er mikið vitað um upphaf Kálffells en heimild er um að maður að nafni Bjarni Bjarnason hafi verið fæddur þar um 1840. Ef það er rétt, þá er Kálffell meðal elstu heiðarbýlanna á Vopnafjarðarheiði. Gunnar Gunnarsson, rithöfundur keypti Kálffell árið 1932 en sex árum áður hafði hann keypt býlið við hliðina, Arnarvatn.

Nafnið Kálffell kemur fyrir í heimildum  ýmist með einu eða tveimur "f". Í öllum heimildum frá 18. og 19. öld er nafnið skrifað með einu "f" og er þá verið að vísa í kál, en ekki kálf eins og heimildir frá 20. öld sýna en þá er nafnið skrifað Kálffell.

Kálffell var lengstum talin ágætis bújörð, engjar víðlendar og grasgefnar og beitiland gott bæði sumar og vetur og sýnir til að mynda heimild frá 1860 að á Kálffelli hafi búið auðugur bóndi.

Landgæðum virðist hafa hrakað með auknum uppblæstri á síðustu áratugum  nítjándu aldar en hlíðar Kálffells sýna glögg merki mikils uppblásturs. Á vefsíðunni www.nytjaland.is er sagt að yfir 60% af jörðinni Kálffell sé gróðurlaus vegna uppblásturs. Á síðustu árum hefur þó töluvert verið grætt upp í kringum Kálffell. 

Árið 1911 er jörðin komin í eyði og öll hús ofan tekin og burt flutt.  Eftir standa laglegar tóftir bæjar- og gripahúsa og vekur sérstaka athygli að umgangsdyr fjárhúsa virðast snúa upp í brekkuna,  líklega til að mynda skjól fyrir sterkum og köldum  norðanvindum.

Frá Kálffelli er gott útsýni til vesturs, norðurs og norð-austurs. Til vesturs er fjallið Kálffell, þá fjallið Hlíðarfell sem er við bæinn Arnarvatn og þar lengra Hrútsfjöll. Í norðri er Mælifell og austan við það Kistufell. Nær og austar stendur Þverfell, norðan við Vesturdalsá sem rennur í gegnum Þverfellsdal frá Arnarvatni. Til austurs er hæsti punktur Bæjaröxl, rétt ofan við bæinn Foss.

Íbúatal: 

1840 - ?         Bjarni. Föðurnafn er óþekkt. Hann átti son sem hét Bjarni Bjarnason en talið er að hann hafi verið fæddur á Kálffelli árið 1840.

1851 – 1856: Magnús Mikaelsson og Katrín Friðriksdóttir

1857 – 1861: Jón Friðriksson og Guðrún Einarsdóttir

1862 – 1876: Jón Björnsson og Guðrún Jónsdóttir. Þau fluttu til Vesturheims og settust að í Vikurbyggð, Pembina County, Norður Dakota um 1880.

1877:            Rustikus Guðmundsson og Sigurbjörg Þorvarðardóttir

1878:            Guðmundur Sigurðsson

1884:            Kristján Kristjánsson og Guðrún Benediktsdóttir.

1886:            Guttormur Benediktsson og Guðbjörg Eiríksdóttir.

1889-1892:    Magnús Jóhannesson og Ragnheiður Guðmundsdóttir.

1892-1909:    Í eyði

1909-1910:    Sigurður Þorsteinsson, en hann nýtti landið frá 1907 - 1909

 

  • Last updated on .
  • Hits: 1074