Skip to main content

Hólmavatn

Hólmavatn var byggt hjá Langhólmavatni vestanverðu úr landi Skjöldólfsstaða 1861. Langhólmavatn (522 m) er í svonefndum Vatnaflóa í norðaustur hluta Jökudalsheiðar sem nefndur hefur verið Tunguheiði. Á Hólmavatni var aðeins búið í eitt ár. Ábúendur voru Jóhannes Friðriksson, bónda á Fossi, Árnasonar og Kristbjörg Guðlaugsdóttir, systir Jóns í Ármótaseli.

(15) GPS hnit (N65°27.728 - W15°22.099)

Hólmavatn - Ítarefni og ábúendatal

Hólmavatn var byggt úr landi Skjöldólfsstaða og er samkvæmt hreppamörkum á korti í Jökuldalshreppi.Halldór Stefánsson segir í umfjöllun um Jökuldalsheiðina og byggðina þar í ritinu Austurland, I. b., að Hólmavatn hafi verið talið til Vopnafjarðarhrepps eða a.m.k.til Hofssóknar þótt það væri innnan landamarka Jökuldalshrepps. Styttra var líka þaðan til Hofskirkju en til Hofteigskirkju. Bærinn stóð vestan við Langhólmavatn sem er eitt þriggja stórra veiðivatna í svonefndum Vatnaflóa í Tunguheiði, en svo er norðausturhluti Jökuldalsheiðarinnar nefndur. Rétt við bæinn er tjörn sem heitir Bæjartjörn og hefur afrennsli í Langhólmavatn (522 m.y.s.). Afrennli úr Langhólmavatni er í Sauðá er fellur í Hofsá. Helstu hlunnindi á Hólmavatni munu hafa verið silungsveiði í Langhólmavatni og fleiri vötnum í nágrenninu og næg heyöflunarskilyrði í nágrenni vatnanna í Vatnaflóanum. Beit fyrir búfé var líka talin góð í heiðinni allt árið þegar hennar naut við. Rjúpnaveiði var víða stunduð á heiðarbýlunum einkum á haustin og jafnvel veiddar álftir og gæsir þegar þessir fuglar voru í sárum síðsumars, en heimildir skortir um veiðskap á Hólmavatni, enda búsetutíminn stuttur. Bærinn var utan helstu alfaraleiða á heiðinni og gestagangur því trúlega lítill. Um 6 km til vesturs frá Hólmavatni var býlið Melur, en Sauðafellshálsinn aðskilur bæina.

Búseta hófst hér á Hólmavatni árið 1861 er Jóhannes (f. 15. janúar 1820) Friðriksson Árnasonar bónda á Fossi í Vopnafirði byggði hér nýbýli ásamt konu sinni Kristbjörgu Guðlaugsdóttur systur Jóns bónda í Ármótaseli. Ekki undu þau Jóhannes og Kristbjörg lengi á Hólmavatn, því ári síðar eða 1862 flytja þau að Hraunfellsseli, innsta býli í Hraunfellsdal inn af Vopnafirði. Sonur þeirra var J. Baldvin Jóhannesson hreppstjóri í Stakkahlíð. Búnaðarsaga Hólmavatns varð ekki lengri, það fór því eyði löngu fyrir Öskjugosið 1875. 

Um Skjöldólf og Skjöldólfshaug

Um 2- 3 km suður frá bænum á Hólmavatni er annað stórt vatn sem heitir Stórhólmavatn. Þar gerðust sögulegir atburðir á landnámsöld sem m. a. er sagt frá í Íslenskum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar VI. bindi Rvík. 1986. Þessar frásagnir eru sagðar fengnar úr Jökuldæla sögu (eða Jökuldælu), sem nú mun glötuð utan nokkur brot sem varðveist hafa í afskriftum. Þar eru m. a. sagnir af Skjöldólfi er nam Jökuldal austan Jökulsár upp frá Hnefilsá að Hölkná, en bjó á Skjöldólfsstöðum norðan/vestan Jökulsár sbr. Landnámabók. Sigfús tilfærir frásögn af Skjöldólfi er hafi sýnt Hákoni landnámsmanni á Hákonarstöðum yfirgang með því að reisa bæ á Skjöldólfsstöðum að Hákoni óspurðum í teig er var ónuminn milli landnáms Hákonar og Þorsteins torfa er nam Jökulsárhlíð alla og bjó á Fossvöllum.Höfðu þeir Hákon og Þorsteinn lagt teiginn undir hof þar sem nú er Hofteigur.

Skjöldólfshaugur

„Síðan tók Skjöldólfur undir sig veiðivötn þau er liggja í Norðurheiði. Reisti hann þar skála austan við stærsta vatnið og hafði þar veiðistöð.“... „Skjöldólfur sótti svo fast veiðina að hann hafðist þar við sjálfur. Hafði hann þar veiðiferju og net. Vogvík lítil er í vatnsfætinum niður frá skála Skjöldólfs. Þar setti hann ferjuna. Nú er frá því að segja að Hákon hóf heimanför sína. Njósnir komust að Skjöldólfsstöðum um fyrirætlun hans. Var þá skjaldmær sú er Valgerður hét send til að vara Skjöldólf við hættu þeirri er honum stæði af Hákoni því Skjöldóflur hafði eigi nema eina viðarexi til vopna. Það er af skjaldmeynni sagt að hún hafði [hlaupið] í spretti upp fjallið og norður að tjörn nokkurri fyrir norðan brýrnar. Þar féll hún dauð niður, sprungin af mæði. Heitir tjörn þessi af því Valgerðarhlaup. Hún hafði haft alvæpni Skjöldólfs og ætlað að færa honum. En af því svo til tókst þá var hann varbúinn við komu Hákonar.” ... „ En með því lauk að Skjöldólfur féll þar við víkina af því hann vantaði vopn sín; og var hann heygður í hólmanum í stóra vatninu.1 Er haugurinn hóll mikill. Tvisvar hefir verið reynt að brjóta hann; en orðið hafa þeir að hætta því fyrir drauma og fleiri orsakir.“ „Sögn Gunnars Jónssonar frá Háreksstöðum, nú Húsavík.“   

Feiri gerðir eru til af þessari sögu en þær verða ekki raktar hér.

Neðanmáls segir hjá Sigfúsi um stóra  vatnið eftirfarandi: „ Nú nefnt Stórhólmavatn.”

  • Last updated on .
  • Hits: 1707