Skip to main content

Hneflasel

Bærinn var byggður úr landi Eiríksstaða 1847 um 3 km suðaustur af Heiðarseli og stóð í 575 m hæð vestur af Ytri-Eiríksstaðahnefli. Nafnið bendir til þess að þar hafi verið sel fyrrum frá Eiríksstöðum. Frumbyggjar voru Oddur Sæbjörnsson, fæddur á Jökuldal og ráðskona hans Helga Guðmundsdóttir sem var ættuð af Jökuldal. Hneflasel fór í eyði við Öskjugosið 1875.
6) GPS hnit (N65°10.19 - W15°30.46)

Hneflasel - Ítarefni og ábúendatal

Hneflasel var hjáleiga undan Eiríksstöðum og lá í 575 metra hæð yfir sjó. Þar var líklega haft í seli áður og því sennilega einhver hús fyrir frumbyggjana að hverfa að.  Býlið hafði enga fasta hundraðstölu en goldið eftir það tveir sauðir veturgamlir eins og flest heiðarbýlin.  Frá Hneflaseli var nokkur veiði í Þverár- og Ánavatni.  Laufslægjur voru talsverðar og flóar grösugir.  Þar var ein besta vetrarbeitin í allri Suðurheiðinni.

 Frumbygginn Oddur hafði lengi verið beitarhúsasmali á Eiríksstöðum  og eftir að þau Helga brugðu búi á Hneflaseli vistuðust þau til æviloka á Eiríksstöðum og lögðu með sér eignir sínar (proventu). Lifði Helga á próventunni í 25 ár en Oddur í 29. 

Á meðan þau bjuggu á Hneflaseli tóku þau að sér pilt, sem líklega var náskyldur Helgu og átti hann að taka við af þeim en dó ungur. Kannski er það Guðmundur Magnússon tökubarn úr Klifsstaðasókn sem skráður er til heimilis hjá þeim strax fyrsta búskaparárið á Hneflaseli, þá 12 ára. Hann er ekki lengur skráður hjá þeim árið 1859.  Árið 1856 er til heimilis hjá þeim vinnukonan Björg Þorsteinsdóttir 43 ára og Vilborg Torfadóttir er vinnukona hjá þeim 1859.  

Oddur og Helga fylgdu húsmóður sinni Guðrúnu Finnsdóttur í Fremri-Hlíð í Vopnafirði í kjölfar Öskjugossins 1875 og dvöldu þar í 3-4 ár. 

Kristján Jónsson, kenndur við Hrjót í Hjaltastaðaþinghá var alinn upp í Vopnafirði og minnist Odds á eftirfarandi hátt.  “Oddur var orðinn því sem næst blindur en (...) yngra fólkið hafði grun um það að gamlinginn kynni illa við sig.  Svo er það einn morgun, þegar komið er á fætur í Fremri-Hlíð,  þá er Oddur horfinn.  Einhvernveginn var það nú svo að það drógst dálítið að elta karlinn, því menn þóttust þess fullvissir að hann hefði lagst til stroks. Svo kemur að því að Gunnlaugur (sonur Guðrúnar) leggur af stað á tveim gráum hryssum sem hann átti og voru eldfjörugar en hann náði Oddi ekki fyrr en langt suður á Tunguheiði sem var þó á réttri leið þó sjóndapur væri...Annars var Oddur þessi ákaflega forneskjulegur karl, hann riðaði mikið úr táum, smákörfur og ýmislegt, sumar voru þær vatnsheldar.  Stundum var hann að biðja mig að útvega sér táar. Þegar ég færði honum þær þá fór hann ofan í ákaflega forna járnbenta kistu og gaf mér brennivín í gömlu tinstaupi og steinsykur.  Það var sagt að þessi gömlu hjón hefðu átt mikið af gömlum munum, sem munu hafa runnið inn í Eríksstaðabúið”.

(Kristján Jónsson, e.d.)

Ábúendatal:

1. 1848 – 1860: Oddur Sæbjörnsson (06.07. 1798 - 04.03. 1889) fæddur á Brú á Jökuldal og ráðskona hans Helga Guðmundsdóttir (22.11. 1804 – 19.02. 1885) frá Vaðbrekku.  

2. 1860 – 1875: Einar Bessason f. 19.10. 1824 ættaður úr Bárðardal og Lilja Vigfúsdóttir frá Víðirhólum f. 27.04. 1839. Þau bjuggu í Hjarðarhaga áður en þau fengu ábúð á Hneflaseli. Þau eignuðust fimm börn. Anna Kristín,Sigfús, Anna Kristín yngri og Baldvin náðu ekki fullorðinsárum. Pálína fædd 1854 var að nokkru leiti alin upp í Brattagerði á Jökuldal en var með foreldrum sínu síðustu búskaparárin í Hneflaseli. Þau hrökkluðust að Gnýstöðum í Vopnafirði er ”yfir þyrmdi askan dimm, átján hundruð sjötíu og fimm” og þaðan vestur um haf árið 1878 frá Svínabökkum. Pálína fluttist til Vesturheims 1887 með son sinn Stefán frá Torfastöðum í  Vopnafirði. 

Heimildir:

• Aðalsteinn Aðalssteinsson (e.d.)Hneflasel. Óbirt gögn.

• Halldór Stefánsson, (1947). Austurland. Halldór Stefánsson og Þorsteinn M. Jónsson ritstj. Sögusjóður Austfirðinga. Akureyri. 

• Kristján Jónsson, (e.d.). Óbirt gögn á Héraðsskjalasafninu á Egilsstöðum

• Páll Pálsson (2009). Munnleg heimild.

• Þorvaldur Ásgeirsson. (2000). Múlasýslur sýslu- og sóknarlýsingar. Finnur N. Karlsson, Indriði Gíslason og Páll Pálsson ritstj. Sögufélag, Örnefnastofnun Íslands. Reykjavík .

  • Last updated on .
  • Hits: 1605