Bærinn byggður úr landi Arnórsstaða 1853 hjá rústum hins forna Arnórsstaðasels 6 km norðvestur af Ármótaseli. Bærinn stendur í 528 m. hæð yfir sjávarmáli. Hálsinn vestan við bæinn heitir Skollagrenisás en sunnan við hann heitir Langahlíð. Af henni er bæjarnafnið komið þ.e. Hlíðarendi.
Frumbyggjar voru Jón Stefánsson bónda á Eyvindará og Guðrún Lára Þórðardóttir bónda á Staffelli í Fellum. Þau komu úr húsmennsku á Háreksstöðum og fluttu þangað aftur 1860 eftir frumbýlingsárin á Hlíðarenda. Ábúendaskipti á Hlíðarenda voru tíð og stundum voru þar tveir ábúendur samtímis. Hlíðarendi var í alfaraleið (nyrðri leiðin) þau 18 ár sem hann var byggður og áttu ferðamenn þar athvarf ef þörf var á. Aðalgististaðirnir á þessari leið voru þó Gestreiðarstaðir og Háreksstaðir.
Bærinn fór endanlega í eyði 1872.
Saga: Árið 1891 var maður að nafni Marteinn Gíslason á leið frá Vopnafirði að Brú á Jökuldal. Hann lenti í snjóbyl og þegar hann óvænt rekst á húsatættur ákveður hann að hvíla sig um stund. Hann áttar sig á að tætturnar muni vera á Hlíðarenda. Hann telur sig ekki hafa sofnað en þykir þó að til hans komi maður sem ávarpar hann og segir honum að halda áfram ferðinni í stað þess að liggja hér og sofa. Marteinn rís upp og heldur áfram ferðinni og kemst heim að Brú um kvöldið. Þegar Helga Sigmundsdóttir heyrði sagt frá fyrirburði þessum og heyrði lýsingar Marteins af manninum varð henni að orði: „Þetta hefur verið hann Sigfús minn“. Sigfús Pétursson lést á Hlíðarenda árið 1870.
Ábúendatal:
1. 1853 – 1860: Jón Stefánsson (f.1817) frá Eyvindará og Guðrún Lára Þórðardóttir (f.1827) frá Háreksstöðum. Börn: Pétur Lárus (f.1847), Sigurjón (f.1851) fluttist til Vesturheims, Guðrún (f.1854) og Katrín Soffía (f.1857). 1859 – 1860: Magnús Hallgrímsson og Sesselja Danélsdóttir, húsmennska. Börn: Hallgrímur og Sigurður (f.1858)
2. 1860 – 1864: Jón Jónsson frá Þrándarstöðum Gunnlaugssonar frá Hjarðarhaga og Ragnhildur Magnúsdóttir frá Meðalnesi. Börn: Sigfús (f.1841) bóndi á Hlíðarenda og Sigríður.
3. 1861 – 1862: Jón Benjamínsson (f.1835) frá Veturhúsum og Guðrún Jónsdóttir (f.1834) frá Breiðuvík. seinna á Mel og Háreksstöðum. Börn: Benjamín (f.1861), Jón (f.1864), Ísak (f.1866), Þórunn Guðrún (f.1867,d.1869), Gísli (f.1869,d.1872), Gunnar (f.1870) Þórarinn (f.1873) og Gísli (f.1876). Margir afkomendur Jóns og Guðrúnar fluttust til Vesturheims.
4. 1862 – 1864: Páll Pétursson og Sigríður Vigfúsdóttir (áður á Víðihólum)
5. 1864 – 1869: Sigfús Jónsson Sigfúsarsonar (f.1841) og Ólöf Sigfúsdóttir (f.1833). Fór frá honum til Vesturheims. Barn: Stefán (f.1865). Seinni kona Margrét Björnsdóttir frá Hofi í Fellum.
6. 1869 – 1870: Sigfús Pétursson (f. 1813) frá Hákonarstöðum og Helga Sigmundsdóttir (f.1822) frá Flögu í Skriðdal, þau bjuggu áður í Sænautaseli. Börn: Guðný Ingibjörg (f.1849), Guðlaug Kristín (f.1851), Pétur (f.1853), Guðrún Hallfríður (f.1855), Arnbjörn (f.og d.1858), Sigfús (f.og d.1859), Gunnlaugur Árni Björn (f.1860), Sigurjón (f.1863,d.1865), Sigfinna Guðrún, Hallfríður (f.1868) og Jónína Stefanía. Börn Sigfúsar með Ólöfu Einarsdóttur vinnukonu á Hákonarstöðum: Þórunn (f. og d. 1834) og Jósep (f.1835)
7. 1870 – 1872: Jón Guðlaugsson frá Mjóadal í Bárðadal og Steinunn Símonardóttir – áður í Ármótaseli og Víðihólum