Skip to main content

Heiðarsel

Bærinn stóð við Poll, sem er vatn við suðurenda Ánavatns í landi Brúar í 553 m hæð og byggðist 1858.  Á Heiðarseli er víðsýnt og þótti fagurt bæjarstæði. Frumbyggjar voru Jón Þorsteinsson, bónda á Brú, Einarssonar og Kristín Jónsdóttir, bónda á Aðalbóli, Péturssonar á Hákonarstöðum. Ekki var búið að Heiðarseli frá Öskjugosinu 1875 og fram undir aldamótin 1900.  Síðustu ábúendur bjuggu á jörðinni í 34 ár.  Heiðarsel var síðasta býlið sem fór í eyði á Jökuldalsheiðinni árið 1946.  Með því lauk rúmlega 100 ára byggðarsögu heiðarbýlanna.

(5) GPS hnit (N65°10.71 - W15°33.51)

Heiðarsel - Ítarefni og ábúendatal

Heiðarsel byggðist 1858 í landi Brúar og má gera ráð fyrir því að þarna hafi áður verið sel frá Brú og nafnið komið af því að þetta sel stóð í Heiðinni en önnur sel þaðan voru niðri í dölunum inn frá Brú.

Bærinn stóð við Poll sem er vatn við suðurenda Ánavatns í 553 m hæð. Á Heiðarseli er víðsýnt og þótti fagurt bæjarstæði. 

Síðustu ábúendur á Heiðarseli þau Guðjón Gíslason frá Hafursá á Völlum og Guðrún Benediktsdóttir frá Hjarðarhaga bjuggu þar í 34 ár.  Ekki fer hjá því að á svo löngum búskapartíma hafa skiptst á skin og skúrir, bæði í verðlagi og tíðarfari, enda á þeirra búskaparárum búnar að ganga yfir tvær heimstyrjaldir og heimskreppan og þó afskekkt væri í Heiðinni fóru slíkir hlutir ekki hjá garði þar frekar en annars staðar og birtust í verðlagi afurða og aðfanga.

Heiðarsel var síðasta býlið sem fór í eyði á Jökuldalsheiðinni árið 1946.  Með því lauk 100 ára byggðasögu Heiðarbýlanna.

Ábúendatal:

1. 1858 – 1863: Jón Þorsteinsson (f.1824) frá Brú og Kristín Jónsdóttir (f.1824) frá Aðalbóli. Barn: Jón (f.og d. 1847). Börn Jóns og Halldóru Sveinsdóttur vinnukonu á Vaðbrekku tvíburarnir Sveinn og Anna Sigríður (f.og d. 1860)

2. 1863 – 1875: Jón Sveinsson (f.1821) frá Bárðastöðum í Loðmundarfirði og Sólveig Magnúsdóttir (f.1827) systir Sölva á Grunnavatni. Börn: Jóhann Frímann (f.1849) tóvinnuvélstjóri Ormarsstöðum, Elísabet og Magnús sem bæði fluttu til Vesturheims.

1875 – 1898: Í eyði.

3.    1898 – 1903: Helgi Bjólan Dagbjartsson og ráðskona hans Oddný Kristjánsdóttir. Þau fluttu til Vesturheims.Barn: Kristján (f.1902).

4. 1903 – 1904: Þórarinn Ketilsson (f.1875) frá Kleif í Fljótsdal og Helga Guðnadóttir (f.1873) frá Grunnavatni.Börn: Ólafur, Bergljót(f.1900), Signý(f.1901), Guðni(f.1906) og Alfreð.

1904 – 1905: Í eyði.

5.    1905 – 1912: Sigfús Einarsson (f.1847) frá Hleinargarði, Eiðaþinghá og Guðbjörg Jónsdóttir (f.1863) úr V.-Skaftafellssýslu. Börn: Vilhjálmur (f.1904) og Halldór (f.1906). Sonur Guðbjargar Jón B. Guðlaugsson (f.1896) 

6. 1912 – 1946: Guðjón Gíslason (f.1879) frá Hafursá og Guðrún María Benediktsdóttir (f.1880) frá Hjarðarhaga. Börn: Einar Hjálmar og Sigrún, tvíburar (f.1907), Sólveig Sigfríður (f.1912), Arnheiður (f.1915), Elís (f.1918) drukknaði í Jökulsá af kláf hjá Skjöldólfsstöðum og Hallveig Friðrikka (f.1923).

  • Last updated on .
  • Hits: 1832