Skip to main content

Grunnavatn

Bærinn stóð í 585 metra hæð um það bil 5 km fyrir sunnan Sænautavatn og byggðist 1853 úr Brúarlandi. Á Grunnavatni voru góðir sumar-hagar en snjóþungt. Frumbyggjar voru Jónas Bergsson (Peninga-Bergs) Hallssonar úr Eiðaþinghá og Arndís Magnúsdóttir ættuð úr sömu sveit. Þau fluttust til Vesturheims með börn sín 1880. Ekki var búið að Grunnavatni í 8 ár eftir öskufallið og einnig féll þar niður ábúð um tveggja ára skeið er baðstofan brann árið 1903, að öðru leyti var samfellt búið þar til 1923.

(3) GPS hnit (N65°13.52 – W15°34.08)

Grunnavatn - Ítarefni og ábúendatal

Grunnavatn er byggt úr landi Brúar 1853.  Frumbyggjar voru Jónas Bergsson sonur Peninga-Bergs Hallssonar og Arndísar Magnúsdóttir frá Jórvík í Breiðdal. Þau voru í húsmennsku árið 1852 í Sænautaseli og hafa þá að líkindum unnið að uppbyggingu á Grunnavatni til að undirbúa búsetuna á nýbýlinu.  Bæjarstæðið er óvenjulegt að því leyti að það stendur á bersvæði.  Venjulegra var að bæjarstæðin væru frekar á þeim stöðum þar sem skjól var á eina að fleiri  hliðar.  Líklega hafa frumbyggjarnir talið að betra væri að hafa bæinn nær engjalandinu en vatninu.

Byggingar á Grunnavatni voru með nokkuð sérstökum hætti þar sem þær voru allar í einu þorpi og innangengt í öll hús, svo ekki þurfti út nema til að sækja vatnið. 

Vorið 1890 koma Jón Jónsson og Anna Kristrún Gunnlaugsdóttir til búskapar á Grunnavatni.  Þau komu frá Brú og geta það talist undarleg jarðaskipti að fara frá Brú í Grunnavatn og mætti ætla að þar lægi eitthvað sérstakt að baki.  Þau bjuggu áður að Gestreiðarstöðum um 6 ára skeið og hefði mátt ætlað að þau vildu heldur búa að Brú en að fara aftur í Heiðina.  Að vísu var Brú illa farin eftir öskufallið en það eitt nægir ekki til að full skýring fáist á þessum jarðaskiptum.  Jón fékk viðurnefni af bæ sínum eins og algengt var á Jökuldal og reyndar víðar í sveitum og var kallaður Jón Grunni.  Jón þótti dugnaðarmaður og sérstaklega duglegur heyskaparmaður. Jón byggði 1890 stærstu hlöðu þar um slóðir, talið var að hún tæki 400 hesta af heyi.  Árið 1903 brann baðstofan á Grunnavatni og fluttu þá Jón og kona hans Kristrún að Torfastöðum í Vopnafirði og þaðan árið eftir til Ameríku.

Eftir þetta stendur Grunnavatn í eyði til ársins 1905 að hingað flytja til búskapar Guðni Arnbjörnsson og Signý Jónsdóttir og koma þau frá Kleif í Fljótsdals.  Það hafa verið mikil viðbrigði að fara úr Fljótsdal og upp á Jökuldalsheiði til búskapar, sennilega vart hægt að hugsa sér ólíkari jarðir en Kleif og Grunnavatn.  Með þeim komu Þórarinn Ketilsson og Helga kona hans sem var dóttir Guðna og Signýjar.  Þau bjuggu á Heiðarseli árið 1903 en fluttu þaðan í Kleif  vorið 1904. Þórarinn telst vinnumaður að Grunnavatni til 1908 en bóndi þaðan í frá til 1911 er hann flytur að Grund.   Árið 1919 tekur Björgvin sonur Guðna og Signýjar við búskapnum.  Hann bjó að Grunnavatni til 1923, en þá gékk yfir mjög harður vetur og varð hann sérstaklega langur í heiðinni.  Varð Björgvin þá heylaus og rak fé sitt niður í Grund og kom því þar fram.  Það ár flutti Björgvin frá Grunnavatni og var eftir það ýmist vinnumaður eða lausamaður á Jökuldal alla sína æfi en Grunnavatn fór í eyði og byggðist ekki aftur.

Ábúendatal:

1.  1853-1865: Jónas Bergsson sonur Peninga-Bergs Hallssonar (1825-) og Arndís Magnúsdóttir (1821-).  Börn Þorfinnur, Anna Kristín (1852-1894), Guðrún Björg (1854-1872), Sigurlaug (1857-1934) og Ólöf (1860-1969) Þau fluttust til Vesturheims.

2. 1865-1874: Sölvi Magnússon (1837-1907) frá Nesi í Loðmundarfirði og Anna Steinunn Einarsdóttir (1847-) frá Brú.  Börn: Einar Oddur (1866-1870), Anna Elísabet (f.og d. 1867), Guðrún Sólveig (1867-), Anna Elísabet (1869-), Einar Oddur (1871-) og Jónína (1874-). Fluttu að Klausturseli og þaðan 1875 að Svínadal í Kelduhverfi.

3. 1874-1875: Marteinn Jónsson (1839-) og Kristjana Magnúsdóttir (1844-). Börn: Kristín (1873-) og Jón (1875-) Fl. til Vesturheims.

4. 1886-1887: Sigurjón Sigurðsson (1858-1928) frá Fagranesi, S.-Þing. og Ragnhildur Jónsdóttir (1856-1943) frá Hraunkoti í Lóni. (systir Jóns Hnefils).  Börn: Jónína Steinunn (1888-), Anna S. og Vilborg L.

5. 1887-1890: Árni póstur Sigbjörnsson prests í Sandfelli og Þórdís Benediktsdóttir frá Sléttaleiti í Suðursveit.  Börn: Sigbjörn Am., Benedikt dó ungur, var völdunur í smíðum, Jakobína Kristín, Sveinn og Oddný Friðrika.

6. 1890-1903: Jón Jónsson frá Gilsárvöllum í Borgarfirði og Anna Kristrún Gunnlaugsdóttir (1849-) frá Klausturseli.  Börn: Einar (1882-), Kristjana Jakobína, Björgvin (1885-) og  Páll (1887-). Fluttu að Torfastöðum í Vf. og þaðan árið eftir til Vesturheims. 

7. 1905-1919: Guðni Arnbjörnsson (1843-1924) frá Kleif í Fljótsdal og Signý Jónsdóttir (1848-1920) frá Hafursá. Börn: Helga (1875-1917) húsfr. Grund, Jónína S. (1887-1927) húsfr. Sænautaseli og Björgvin (1892-1952) b. Grunnavatni.

8. 1905-1911: Þórarinn Ketilsson (1875-1948) frá Kleif í Fljótsdal og Helga Guðnadóttir (1873-1917) frá Grunnavatni.  Börn: Ólafur(-1916), Bergljót S,(1900) Signý (1901-), Guðni (1906-) og Alfreð (1811-).  Seinni kona Þórarins var Salína Einarsdóttir (1889-) frá Þorbrandsstöðum. Börn: Ólafur Vf., Jónína húsfr. Hamarsseli, Friðjón, Rvík, og Helgi Rvík.

9. 1919-1923: Björgvin Guðnason (1892-1952).

  • Last updated on .
  • Hits: 1679