Skip to main content

Gestreiðarstaðir

Gestreiðarstaðir byggðust úr landi Möðrudals 1843 um það bil 5 km fyrir vestan Háreksstaði. Talið er að þar hafi verið fornbýli. Frumbyggjar voru Andrés Andrésson, bónda í Hallfreðarstaðahjáleigu, Sturlusonar og Una Jensdóttir, bónda á Hrjót, Árnasonar. Jörðin var óbyggð í 4 ár eftir Öskjugosið en byggðist síðan aftur og voru nokkuð tíð ábúendaskipti enda Jörðin vafalaust úr sér gengin eftir öskufallið. Einhverjir af ábúendunum fluttust til Vesturheims. Fór í eyði 1897.

(14) GPS hnit (N65°24.70 - W15°30.18)

Gestreiðarstaðir - Ítarefni og ábúendatal

Gestreiðarstaðir voru byggðir út úr Möðrudal  og áttu þangað kirkjusókn, en tilheyra nú Burstarfelli. Jörðin er talin vera fornbýli og mun leiðin norður í land hafa legið þar um garð og er álitið að þar sé að finna ástæðuna fyrir hinu sérstaka og skemmtilega bæjarnafni.

Bærinn stóð nær miðja vegu á milli bæjanna Skjöldólfsstaða og Grímsstaða og  því sjálfsagður viðkomustaður póstsins og þeirra ferðamanna er þar áttu leið um. Önnur leið lá um Gestreiðarstaðaskarð til Möðrudals.

Frumbýlingar á Gestreiðarstöðum voru ung hjón, Andrés Andrésson og Una Jensdóttir sem hófu búskap þar 1843 ásamt tveimur ungum börnum sínum. Ári seinna þegar manntalið er tekið 1945 eru  þar í húsmennsku hjónin Vigfús Jósafatsson og Rósa Jónsdóttir með þrjú börn, svo þröngt hefur verið setinn bekkurinn. Una og Andrés bjuggu á Gestreiðarstöðum í yfir 20 ár eða þar til Una andaðist 1866. En af Vigfúsi og Rósu er það að sega að þau urðu seinna frumbýlingar á Víðihólum,

Árið 1874 segir Þorvaldur Ásgeirsson prestur í Hofteigi í sóknarlýsingu sinni um Gestreiðarstaði “Þar er túnbali með betra móti eftir því sem gerist á heiðarkotum”. 

Nokkrum mánuðum seinna hófst gosið í Öskju með gríðarlegu öskufalli sem hafði mikil áhrif  á búsetu í Heiðinni og víðar á Austurlandi. Náttúruhamfarirnar höfðu í för með sér mikinn uppblástur og landeyðingu og var jörðin óbyggð í næstu fjögur árin. Um Gestreiðarstaðadal er sagt að hann hafi verið þurrlendastur og viðkvæmastur gagnvart öskufallinu og töldu ferðamenn sem þar fóru um að öskulagið hafa verið í miðjan legg á hesti. 

Nú tók við tími tíðra ábúendaskipta, en Gestreiðarstaðir fóru í eyði árið 1897. Eftir standa tóftir, leifar af grónu túni og sérkennilegt bæjarnafn sem hreyfir við ímyndunaraflinu.

Ábúendatal:

1. 1843 – 1867: Andrés Andrésson (f.1812)  frá Hallfreðarstaðahjáleigu og Una Jensdóttir (f.1821) frá Hrjót. Börn: Helga (f.1840), Jarþrúður (f.1842), Vigfús (f.1844), Sesselja (f.1847), Ingibjörg (f.1850), Jens Friðrik (f.1853), varð úti í Möðrudal 1869, Sólrún (f.1856), Stefán (f.1858), bóndi á Laugavöllum. 1843: Vigfús Jósafatsson og Rósa Jónsdóttir, húsmennska.

1867 – 1868: Í eyði

2. 1868 – 1874: Pétur Kristjánsson (f.1843) frá Kálfaströnd í Mývatnssveit og Aðalbjörg Árnadóttir úr Skeggjastaðahreppi.

1874 – 1875: Í eyði.

3. 1875 – 1876: Einar Einarsson frá Brú.

1876 – 1880: Í eyði.

4. 1880 – 1886: Jón Jónsson frá Gilsárvöllum og Anna Kristrún Gunnlaugsdóttir frá Merki, síðar búsett á Brú.

1886 – 1887: Í eyði.

5. 1887 – 1890: Benedikt Sigurðsson (f.1875 í Ássókn) og Stefanía Stefánsdóttir (f.1849) frá Skjöldólfsstöðum. Börn: Jakob (f.1886) bóndi á Rauðhólum og Stefanía (f.1877)

6. 1890 – 1891: Páll Jónsson söðlasmiður frá Þórisdal í Lóni og Guðný Margrét Eiríksdóttir (f.1859) frá Veturhúsum.Börn: Jón Þ., Sólveig St., Ingibjörg ljósmóðir Vf. og Aðalsteinn smiður Djúpavogi.

7. 1891 – 1892: Sveinn Sigurðsson frá Fagranesi í Reykjadal og Guðrún Jóhannesdóttir frá Rauf á Tjörnesi.

8. 1892 – 1893:  Páll Jónsson sjá nr. 6.

1893 – 1894:  Í eyði.

9. 1894 – 1896:  Benjamín Jónsson frá Háreksstöðum og Jóhanna Hallgrímsdóttir pósts.

10. 1896 – 1897:  Snjólfur Eiríksson ættaður úr Lóni og Elísabet Arnbjörnsdóttir ættuð af Suðurlandi.

  • Last updated on .
  • Hits: 1804