Skip to main content

Arnarvatn/Skálamór

Arnarvatn (420 m) stendur í stórri kvos, sem nefnist Brunahvammskvos. Yst í kvosinni er samnefnt vatn. Kvosina myndar að austan Kálffell en í suðri Brunahvammsháls og Súlendur gnæfa yfir. Frumbýlingar voru Jón Jónsson og Sigurbjörg Sigurðardóttir 1867. Fyrrum var Arnarvatn í alfaraleið frá Möðrudal og norðanverðri Jökuldalsheiði til Vopnafjarðar. Nú er hægt að ganga af þjóðvegi 85 annað hvort innan við Kálffell, en þá þarf að vaða kíl við bæinn, eða frá stíflu sem er við útfall vatnsins. Þá er gengið inn með vatninu. Hægt er að aka að stíflunni ef menn vilja og raunar alveg heim að bæ, en það er þess virði að ganga inn með vatninu, njóta kyrrðarinnar og fylgjast með fuglalífinu. Upplagt er að fá sér vatn úr uppsprettulind sem er framan (innan) við bæinn. Á Arnarvatni stendur gangnamannakofi sem smalar í Hauksstaðaheiði nýta. Arnarvatn fór í eyði 1935.

(21) GPS hnit (N65°35.29 - W15°24.05)

Arnarvatn/Skálamór - Ítarefni og ábúendatal

Arnarvatn var frá upphafi afbýli frá Hauksstöðum og hét Skálamór. Elstu heimildir um byggð á Skálamó eru frá 1867. Þá er fyrst getið um heimilshald þar í prestþjónustubók Hofssóknar í Vopnafirði.

Nafnið Skálamór er líklega í fyrstu þannig til komið að þarna hefur verið byggður skáli ( kofi )yfir þá sem í afréttargöngur fóru um heiðarlöndin. Gangnamannaskýli hafa staðið þarna frá öndverðu og enn gista smalar í Hauksstaðaheiði á Arnarvatni. Vali staðarins hafa að sjálfsögðu ráðið hin sérstöku náttúrskilyrði sem tanginn út í vatnið veitti um vörslu fjárins um nætur. Sumarfagurt er á Arnarvatni og þar er mikið fuglalíf. Silungsveiði er í vatninu og víðar í tjörnum og lækjum í kring.

Gunnar Gunnarsson skáld frá Ljótsstöðum keypti og dvaldi þar eitt sinn part úr sumri um það leyti sem hann flutti í Skriðuklaustur. Hann keypti jörðina og hugðist byggja hana upp en ekkert varð úr þeim framkvæmdum.

Árið 1902 hóf Jón Helgason búskap á Skálamó. Hann breytti nafninu í Arnarvatn og byggði upp hús af miklum myndaskap. Jón var Mývetningur og tengja menn nafngiftina við Arnarvatn í Mývatnssveit. Enn má sjá merki um 800 feta langa vatnslögn sem hann lagði úr lindinni framan (innan við) og ofan við bæinn. Það þótti nýmæli að flytja járnpípur um langan veg til þess að fá sjálfrennandi vatn í húsin.

Síðustu ábúendur á Arnarvatni voru Eggert Ó Breim og kona hans Guðbjörg Gunnarsdóttir. Fljótlega eftir að þau hófu búskap kom í ljós að þau voru með öllu óhæf til búskapar á heiðarbýli. Um votviðrasamt sumarið sinntu þau heyskap illa. Smalamenn í fyrstu leit komu heyjum í tóft. En ekki þótti ráðlegt að hafa þau ein þarna, illa búin undir veturinn. Auk þess sem Guðbjörg húsfreyja var langt gengin með annað barn þeirra hjóna. Seint í nóvember fóru menn úr Vesturárdal með hesta og sleða og fluttu allt lifandi og dautt frá Arnarvatni og út í Hauksstaði. Guðbjörg ól sveinbarn um veturinn og allt fór vel. Bústofn þeirra hjóna var ein kýr og vetrungur, þrjú hross og um 30 sauðkindur. Á Hauksstöðum dvöldu þau nokkrar vikur en þá fluttu þau í Hof. Sumarið eftir flutti þetta fólk úr Vopnafirði til Reykjavíkur. 

Ábúendatal:

1867: Jón Jónsson og Sigurjörg Sigurðardóttir.

1868-1876: Jónas Gíslason og Sólveig Jóhannesdóttir

1877-1885: Sigurgeir Jónatansson og Þorgerður Jóhannesdóttir

1880-1881: Kristján Kristjánsson og Guðrún Benediktsdóttir.

1886: Sigurður Þorsteinsson og Karólína Jónsdóttir

1902-1916: Jón Helgason og Ingibjörg Björnsdóttir

1916-1919: Salína Einarsdóttir

1919-1923: Þórarinn Ketilsson

1923-1929: Björn Eyjólfsson

1929-1934: Í eyði

1934-1935: Eggert Ó. Briem and Guðbjör Gunnarsdóttir.

  • Last updated on .
  • Hits: 1735