Skip to main content

Forsíða

Valtýshellir

Gengið frá þjóðvegi 95 austan (utan) við Gilsá (N65°08,172-W14°31.133). Farið er framhjá rústum Hátúna, en það var myndarbýli í árdaga Íslandsbyggðar og er sagt að þar hafi verið 18 hurðir á járnum. Sjást þar enn merki um hlaðna grjótgarða. Á 19.öld fannst þar fornt sverð sem var brætt upp og úr því smíðaðar skaflaskeifur og aðrir þarfir hlutir. Áfram er gengið og komið að sléttum grasvelli sem kallast Kálfavellir. Valtýshellir er lítill skúti innan við urðarrana skammt innan og norðan af Hjálpleysuvatni. Hólkur með gestabók og stimpli er rétt innan við skútann.

Hjálpleysan er dalur, fyrrum fjallvegur á mörkum Valla og Skriðdals, milli Hattar og Sandfells.
Lítið vatn er í dalnum. Þar nálægt við hliðina á smá læk er lítill hellisskúti sem heitir Valtýshellir.

Þar á „Valtýr á grænni treyju“, sem myrti sendimann Péturs sýslumanns á Ketilsstöðum á fyrri hluta 18.aldar að hafa hafst við eftir verknaðinn.

Þjóðsagan segir: „Eftir að hann myrti mann þennan sagðist hann hafa lagst á fjallveg þann sem Hjálpleysa heitir, stolist þaðan á bæi að ná sér í mat þangað til hann hefði farið enga mannavegi heim til sín vestur í Barðastrandasýslu.

En hann vildi ráðleggja hverjum einum sem lífi vildi halda að fara ekki Hjálpleysu“. (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri IV, safnað af Jóni Árnasyni, bls. 78-81)

  • Last updated on .
  • Hits: 2783