Skip to main content

Forsíða

Snæfell

Hæsta fjall Íslands utan jökla, 1833 m. Gengið frá skilti sem er við bílastæði um 1,5 km innan við Snæfellsskála. Löng og meðalerfið en nokkuð greið leið. Gönguleiðin er stikuð og er fær öllu vönu göngufólki. Fjallið er hæsti hluti lítillar megineldstöðvar.
Hólkurinn með gestabók og stimpli er á toppi fjallsins. Ef hann er á kafi í snjó er stimpill í Snæfellsskála.

  • Vegalengd og hækkun: 14 km. og 1030 m. hækkun
  • GPS hnit: (N64°47.846-W15°33.631)

Snæfell er hæsta fjall á Íslandi utan jökla 1833 m y.s. Það er fornt eldfjall sem ekki er víst að sé útdautt enda langyngst eldfjalla á Austurlandi. Í því er töluvert líparít sem gerir fjallið litbrigðaríkara en ella. Við tind fjallsins eru ávallt fannir þótt um hásumar sé og skriðjöklar teygja sig niður hlíðarnar.

Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur gerði fyrstur manna tilraun til að ganga á fjallið 2. september árið 1794. Það mistókst vegna óveðurs. Það var svo ekki fyrr en 1874 að Guðmundur Snorrason frá Bessastaðagerði gekk á fjallið, fyrstur manna svo vitað sé.

Skammt austan við fjallið eru Eyjabakkar, einstök gróðurvin og griðland gæsa í sárum. Þá sést vel til Þrándarjökuls í austri, Geldingafells og Eyjabakkajökuls. Til suðurs næst fjallinu liggja Þjófahnjúkar og svo til norðurs Nálhúshnjúkar.

Á Vesturöræfum halda hreindýr mikið til og má oftast sjá til þeirra, en aðalburðarsvæði þeirra er Háls á Vesturöræfum og sennilega mikilvægasta svæðið bæði til burðar og beitar fyrrihluta sumars. Góður staður til að fylgjast með hreindýrum er frá Sauðahnjúkum. Gróðurvinin hér nær frá jökli til sjávar og er það einsdæmi á Íslandi.

Í lok 18. aldar voru hreindýr flutt fjórum sinnum frá Noregi til Íslands. Þeim fjölgaði framan af og voru sennilega flest um miðja 19. öld. Eftir það fækkaði þeim og dóu þau út alls staðar nema á Austurlandi. Í byrjun síðustu aldar voru eftir fá dýr í stofninum og þeim fór ekki að fjölga aftur fyrr en eftir 1940. Þá fjölgaði þeim tiltölulega hratt aftur og talið er að stofninn hafi farið upp í 4000 dýr á árunum á milli 1970 og 1980. Áætlað er að stofninn sé nú um 3000 dýr og um helmingur þeirra gangi á Snæfellsöræfum.

Héraðsbúar fylgjast vel með fjallinu, og nota skýjamyndanir þess m.a. til að spá í veður.

Við Snæfell
Margir hafa ort um Snæfell og eru hér tvö ljóð:


Snæfell rís í suðri sælu:
Silfri krýnda Héraðsdís,
frá þér holla finn ég kælu,
fagurlega djásn þitt rís.
Heilsa bað þér bróðir svás,
Bárður hvíti, Snæfellsás,
Hann á vestra hrós og lotning.
Hér ert þú hin ríka drottning.
úr Héraðskvæði Matthíasar Jochumsonar

Gnæfir
Bergnuminn
við auðn og lágan
gróður

risinn

hvítur fyrir hærum

og horfir
yfir gæsabyggðina

óttast ekkert
allra sízt

fuglahræður.
Matthías Johannessen

  • Last updated on .
  • Hits: 2611