Skip to main content

Forsíða

Sandfell

Sandfell er mikilfenglegt, hrygglaga líparítfjall er minnir á tjaldbúð því hlíðar þess eru með jöfnum halla, klettalausar að mestu. Á Sandfelli eru tveir toppar dökkleitir.
Gengið frá skilti rétt innan við Gilsá. Gengin slóð í fyrstu, inn að girðingu, en síðan er gott að ganga upp með girðingunni. Því næst skal halda upp hrygginn norðan í fjallinu og áfram beint af augum upp á topp sem er í 1157 m. hæð

  • Vegalengd og hækkun: 14 km. og 1050 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°05.637-W14°30.298) 

Sandfell í Skriðdal (1157 m) er hluti af megineldstöð sem kölluð er Þingmúlaeldstöð. Í Þingmúlaeldstöð eru þóleiít, andersít og ríólít helstu bergtegundir. Í miðhluta eldstöðvarinnar eru hraunlög og innskot af andersít- og ríólítgerð algengari heldur en á jöðrum eldstöðvarinnar auk þess sem ummyndun bergsins gætir meira þar. Bæði berggerð og ummyndun þess valda því að litasamsetning bergsins á svæðinu er mjög fjölbreytt.

Næst Reyðarfirði er áberandi hinn súri svipur líparítsins í Áreyjartindi og Hjálpleysu, en Skriðdalsmegin eru áberandi ummyndanir og líparít í ofanverðum fjöllum frá Hetti (1106 m) norðan Hjálpleysunnar Héraðsmegin suður í Hallbjarnarstaðatind (1146 m). Sunnan við Sandfell er Skúmhöttur (1229 m) og austan við það er Kistufell (1239 m) sem ber upp af Fagradal og er hæst allra fjalla norðan Þrándarjökuls.

Við rætur Sandfells eru bæirnir Stóra og Litla Sandfell. Töluverð skógrækt er á jörðunum og einnig er gamall birkiskógur, Sandfellsskógur.

Á Sandfelli eru tveir hnjúkar, Hádegishnjúkur sá lægri og Kinnahnjúkur hærri. Þórisá, Víná og Grjótá eiga upptök sín á fjallinu og renna niður í Skriðdal. Gilsá rennur um Hjálpleysu. Mikil skriða féll úr Sandfelli í Hjálpleysu innarlega árið 2004 og er hægt að sjá ummerkin í Hjálpleysu nálægt Hjálpleysuvarpi.

  • Last updated on .
  • Hits: 2279