Skip to main content

Forsíða

Rauðshaugur

Rauðshaugur er áberandi brjóstlaga hóll upp af bænum Höfða og sést víða af Héraði. Þjóðsaga segir hauginn vera grafhaug Rauðs bónda á Ketilsstöðum, sem nefndur er Ásrauður í fornsögum, og sést þaðan til tveggja annarra frægra hauga, Bessahaugs í Fljótsdals og Ormarshaugs í Fellum.  Sagan segir að Rauður hafi verið heygður með öll sín auðæfi og fólk hafi reynt að grafa í hauginn, en orðið frá að hverfa þar sem bærinn á Ketilsstöðum virtist standa í ljósum logum. Frábært útsýni yfir Fljótsdalshérað.  Gengið frá skilti við Fagradalsveg (N65°14,590-W14°21.156) eftir vegaslóða áleiðis inn vegahálsinn.

  • Vegalengd og hækkun: 8,4 km og 300 m hækkun
  • GPS hnit: (N65°12.77-W14°23.01)

Rauðshaugur er á mörkum Ketilsstaða- og Egilsstaðahálsa en er í landi Höfða á Völlum. Rauðshaugur er um 20-30 metra hár hóll, blasir við sjónum á hálsbrúninni fyrir ofan Höfða og minnir um margt á meyjarbrjóst, sérstaklega sunnan frá séð, varða á toppi hólsins myndar geirvörtuna. Hvergi sér í fast berg í hólnum og virðist hann allur vera úr lausagrjóti. Mikið af grjótinu er allstórt og vottar víða fyrir óreglulegum stuðlum. Rétt fyrir innan hauginn er melarani, sem kallast Rauðshaugskragi og á honum er einn kringlóttur kollhúfulegur melur sem er úr svipuðu efni og Rauðshaugur. Austan við hauginn í sporöskjulaga kvos er stöðuvatn sem nefnist Rauðshaugsvatn. Lækjarsitra rennur í það innanog ofan af Hálsinum og önnur úr því til norðausturs. Þó að vatnið sé blátært sést ekki til botns í dýpsta hlutanum. Víðsýnt er af haugnum og áhugavert að telja gömlu kirkjusóknirnar sem sjást þaðan.
Þjóðsögnin
Það er mál manna að í forntíð hafi á Fljótsdalshéraði verið þrír vinir er hétu Ormar, Bessi og Rauður, lifði Rauður þeirra lengst. Ormar bjó á Ormarstöðum í Fellum, Bessi á Bessastöðum í Fljótsdal og skal hver þeirra vera heygður í landareign þeirra. Munnmæli segja að Rauður hafi búið að Ketilsstöðum og sé hann Ásrauður sem getið er í Landnámu. Þegar báðir vinir hans voru andaðir, mælti hann svo fyrir að hann heygður yrði á þeim stað er sæist til hauga þessara beggja vina hans og var svo gjört. Bessahaugur er fyrir sunnan túnið á Bessastöðum og Ormarshaugur utarlega í Ormsstaðalandi, rétt fyrir neðan túnið á Hlíðarseli sem er afbýli frá Ormarsstöðum. Ef dregnar eru línur milli Bessastaðahaugs, Ormarshaugs og Rauðshaugs myndast rétthyrndur þríhyrningur.
Heimildir: Grein í Gletting eftir Helga Hallgrímsson

  • Last updated on .
  • Hits: 2378