Skip to main content

Forsíða

Hnjúksvatn

Gegnt Merki á Jökuldal uppi á heiðinni er Hjúksvatn. Gengið er frá skilti við veg 923 upp með Hnjúksánni að Binnubúð við Hnjúksvatn. Þar er hólkurinn með gestabók og stimpli.  Gaman  er að ganga í kringum vatnið áður en haldið er til baka. Það var kona af Jökuldalnum, Brynhildur Stefánsdóttir, ljósmóðir, sem lét reisa þetta hús á sinn kostnað, fyrir fólk, sem vildi halda  til við vatnið og ganga um þetta hálendi.

  • Vegalengd og hækkun: 6,5 km og 300 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°14.333-W15°887)

Hæð yfir sjávarmál: 595 m. Silungsveiði

Hnjúksvatn liggur á hásléttu sem einkennist af ávölum hnjúkum þar sem Eiríksstaða-Hneflarnir (947 og 922 m) í suðri eru helstu kennileitin.

Við vatnið stendur lítið veiðihús, Binnubúð sem var byggð fyrir Brynhildi Stefánsdóttur, ljósmóður frá Merki. Á unga aldri veiddi Brynhildur í Hnjúksvatni. Hún fór á kláfi yfir Jöklu með netin sín og bar síðan veiðina heim sömu leið. Brynhildur var ákaflega merkileg kona, mikill ferðamaður og fór um heiðina þvera og endilanga, gangandi að sumri til og á skíðum þegar færi gafst, til að taka á móti börnum.

Binnubúð var byggð á Egilsstöðum af Völundi Jóhannessyni og flutt uppeftir í heilu lagi haustið 1983. Brynhildur lést aðeins nokkrum mánuðum eftir að húsið var reist og gat því aldrei nýtt sér aðstöðuna.

Af fellunum kringum Hnjúksvatnið rís til suðurs Þórfell 705 m. Til norðurs rís Kiðufellið hæst, 720 m og lítið austar er Arnórsstaðahnjúkur 636 m. Þar á milli er ónefnd hæð næst vatninu, 662 m. Hnjúksá fellur úr vatninu til austurs og niður í Jöklu. Hnjúksáin skiptir löndum Arnórsstaða og Hákonarstaða. Svæðið milli Eiríksstaða-Hnefla og Hnjúksvatns einkennist af miklum flóum sem nefndir eru Eiríksstaða- og Hákonarstaðaflóar.

Vestar á Jökuldalsheiðinni eru daldrög með gras- og sléttlendi og er Víðidalur þeirra mestur. Mörg veiðivötn eru á heiðinni og má nefna Gripdeild, Ánavatn og Sænautavatn. Svæðið afmarkast af Þríhyrnings-fjallgarði í vestur.

Ætla má að búið hafi verið á Jökuldal hið Efra allt frá landnámi því sögur benda til að Eiríkur morri hafi verið kominn til staðfestu á Eiríksstöðum litlu eftir 900. Hásléttan ofan brúna hefur verið harðbýl og voru kotin þar yfirleitt yfirgefin eftir aðeins nokkurra ára búsetu.

Ekki aðeins veðurfar heldur náttúruhamfarir eins og eldgos hafa valið búsifjum og hafa heiðarbýlin orðið verst úti. Má nefna að á 14. öld lögðu þrjú stór eldgos alla byggð í eyði á þessum slóðum. Síðasta stóra gos sem hafði mikil áhrif var Öskjugosið 1875 og má enn sjá ummerki þess. __________________________________________________________
Heimildir: Eiríksstaðir á Jökuldal, grein eftir Benedikt Gíslason frá Hofteigi; Múlaþing, 6. hefti – 1971; Frá Valdastöðum til Veturhúsa, Björn Jóhannsson; 1964; Árbók Ferðafélags Íslands; 1987; Dagný Pálsdóttir 2008.

 

  • Last updated on .
  • Hits: 2224