Skip to main content

Snæfell

Hæsta fjall Íslands utan jökla, 1833 m. Gengið frá skilti sem er við bílastæði um 1,5 km innan við Snæfellsskála. Löng og meðalerfið en nokkuð greið leið. Gönguleiðin er stikuð og er fær öllu vönu göngufólki. Fjallið er hæsti hluti lítillar megineldstöðvar.
Hólkurinn með gestabók og stimpli er á toppi fjallsins. Ef hann er á kafi í snjó er stimpill í Snæfellsskála.

  • Vegalengd og hækkun: 14 km. og 1030 m. hækkun
  • GPS hnit: (N64°47.846-W15°33.631)

Snæfell er hæsta fjall á Íslandi utan jökla 1833 m y.s. Það er fornt eldfjall sem ekki er víst að sé útdautt enda langyngst eldfjalla á Austurlandi. Í því er töluvert líparít sem gerir fjallið litbrigðaríkara en ella. Við tind fjallsins eru ávallt fannir þótt um hásumar sé og skriðjöklar teygja sig niður hlíðarnar.

Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur gerði fyrstur manna tilraun til að ganga á fjallið 2. september árið 1794. Það mistókst vegna óveðurs. Það var svo ekki fyrr en 1874 að Guðmundur Snorrason frá Bessastaðagerði gekk á fjallið, fyrstur manna svo vitað sé.

Skammt austan við fjallið eru Eyjabakkar, einstök gróðurvin og griðland gæsa í sárum. Þá sést vel til Þrándarjökuls í austri, Geldingafells og Eyjabakkajökuls. Til suðurs næst fjallinu liggja Þjófahnjúkar og svo til norðurs Nálhúshnjúkar.

Á Vesturöræfum halda hreindýr mikið til og má oftast sjá til þeirra, en aðalburðarsvæði þeirra er Háls á Vesturöræfum og sennilega mikilvægasta svæðið bæði til burðar og beitar fyrrihluta sumars. Góður staður til að fylgjast með hreindýrum er frá Sauðahnjúkum. Gróðurvinin hér nær frá jökli til sjávar og er það einsdæmi á Íslandi.

Í lok 18. aldar voru hreindýr flutt fjórum sinnum frá Noregi til Íslands. Þeim fjölgaði framan af og voru sennilega flest um miðja 19. öld. Eftir það fækkaði þeim og dóu þau út alls staðar nema á Austurlandi. Í byrjun síðustu aldar voru eftir fá dýr í stofninum og þeim fór ekki að fjölga aftur fyrr en eftir 1940. Þá fjölgaði þeim tiltölulega hratt aftur og talið er að stofninn hafi farið upp í 4000 dýr á árunum á milli 1970 og 1980. Áætlað er að stofninn sé nú um 3000 dýr og um helmingur þeirra gangi á Snæfellsöræfum.

Héraðsbúar fylgjast vel með fjallinu, og nota skýjamyndanir þess m.a. til að spá í veður.

Við Snæfell
Margir hafa ort um Snæfell og eru hér tvö ljóð:


Snæfell rís í suðri sælu:
Silfri krýnda Héraðsdís,
frá þér holla finn ég kælu,
fagurlega djásn þitt rís.
Heilsa bað þér bróðir svás,
Bárður hvíti, Snæfellsás,
Hann á vestra hrós og lotning.
Hér ert þú hin ríka drottning.
úr Héraðskvæði Matthíasar Jochumsonar

Gnæfir
Bergnuminn
við auðn og lágan
gróður

risinn

hvítur fyrir hærum

og horfir
yfir gæsabyggðina

óttast ekkert
allra sízt

fuglahræður.
Matthías Johannessen

  • Last updated on .
  • Hits: 2608

Skúmhöttur

Skúmhöttur er næst hæsta fjall í fjallgarðinum milli Reyðarfjarðar og Fljótsdalshéraðs. Fjallið er að mestu úr líparíti en sjálfur tindurinn er úr dekkra bergi.
Sunnan við bæinn Litla Sandfell er ekið af þjóðvegi inn á veg í gegnum hlið og ekið þar til komið er að gamalli brú yfir Þórisá. Þar er bílastæði. Gengið frá skilti við Þórisá og síðan eftir hryggnum framan í fjallinu alla leið upp á topp, 1229. Skemmtileg fjallgana á áhugavert fjall.

  • Vegalengd og hækkun: 14 km. og 1100 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°02.548-W14°28.848)

SKÚMHÖTTUR 1229 m y.s.

Skúmhöttur er næsthæsta fjallið í fjallabálkinum milli Héraðs og Reyðarfjarðar, milli Ófærudals og Hallsteinsdals innantil. Fjallið nýtur sín vel þegar horft er inn eftir Ófærudal og hefur tiginborna reisn. Það mun mestallt vera úr líparíti og eru hlíðar þess ákaflega litskrúðugar en sjálfur tindurinn er þó úr dökku bergi, og má það vera skýring á nafni fjallsins. Það mun vera mjög nálægt miðju "Hjálpleysueldstöðvar", en hún hefur fram til þessa gengið undir nafninu "Þingmúla-eldstöð" meðal jarðfræðinga. Mikið litaskrúð er í dölum og fjöllum svæðisins, eins og jafnan þar sem líparít er í meiri hluta, og eins og slíkra fjalla er vandi eru þau mjög skriðurunnin og fremur gróðursnauð. Ná skriðurnar sumsstaðar niður í dalbotna. Umrædd líparítfjöll setja mjög mikinn svip á Skriðdal.
Hjálpleysugriðland hugsast ná yfir fjallabálkinn milli Skriðdals að vestan og Fagradals að austan, utan frá Hetti og inn í Þórudal og Áreyjadal. Innan þessara marka eru aðallega ljósgrýtisfjöll (líparít), sem talin eru hlutar af gríðarmikilli eldstöð, sem var virk á tertíertímabili, fyrir um 10-15 milljónum ára.
Skammt fyrir austan Skúmhött rís annar tindur, er Botnatindur nefnist (1163 m y.s.), og tengjast þeir saman um lítið lægra varp. Botnatindur er lítið áberandi af Héraði en rís þó tignarlega fyrir botni Hjálpleysu, oftast þakinn fönnum að utanverðu. Suðaustur úr honum er Kaldakinn (1129 m), og síðan Áreyjatindur (971 m) fyrir botni Reyðarfjarðar. (Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, 48).
Gunnar Gunnarsson kallar líparítið baulustein og lýsir þessu svo:
,,Það sem einkennir fjallaklasann milli Hjálpleysu og Jórudals, sem er eldra og réttara nafn en Þórudalur, sem á uppdrættinum stendur, er baulusteinninn, sem þarna er aðalbergtegundin. Skartar hann í ýmsum litum, rauðum, gulum, grænum o.s.frv., og tekur hinum furðanlegustu litabreytingum við áhrif ljóss og skugga. Kolsvartar blágrýtisæðar liggja hér og hvar um mjallhvítar eða grágular baulusteinsskriðurnar. Sagt er að hvergi á landinu sé jafn mikið af þessu skrautlega grjóti saman komið á einum stað." (Árbók F.Í. 1944, 112).
Þann 5. apríl 1905 fórust í Hallsteinsdal þeir Gunnar Sigurðsson og Guðjón Sigurðsson frá Strönd og Víkingsstöðum í snjóflóði sem kom úr hlíðum Skúmhattar, lík þeirra fundust þannig að hundur var með þeim sem slapp úr flóðinu. Þegar var farið að leita þeirra lá hundurinn á snjóflóðinu beint fyrir ofan líkin. (Guðni Nikulásson, Arnkelsgerði).

  • Last updated on .
  • Hits: 2453

Sandfell

Sandfell er mikilfenglegt, hrygglaga líparítfjall er minnir á tjaldbúð því hlíðar þess eru með jöfnum halla, klettalausar að mestu. Á Sandfelli eru tveir toppar dökkleitir.
Gengið frá skilti rétt innan við Gilsá. Gengin slóð í fyrstu, inn að girðingu, en síðan er gott að ganga upp með girðingunni. Því næst skal halda upp hrygginn norðan í fjallinu og áfram beint af augum upp á topp sem er í 1157 m. hæð

  • Vegalengd og hækkun: 14 km. og 1050 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°05.637-W14°30.298) 

Sandfell í Skriðdal (1157 m) er hluti af megineldstöð sem kölluð er Þingmúlaeldstöð. Í Þingmúlaeldstöð eru þóleiít, andersít og ríólít helstu bergtegundir. Í miðhluta eldstöðvarinnar eru hraunlög og innskot af andersít- og ríólítgerð algengari heldur en á jöðrum eldstöðvarinnar auk þess sem ummyndun bergsins gætir meira þar. Bæði berggerð og ummyndun þess valda því að litasamsetning bergsins á svæðinu er mjög fjölbreytt.

Næst Reyðarfirði er áberandi hinn súri svipur líparítsins í Áreyjartindi og Hjálpleysu, en Skriðdalsmegin eru áberandi ummyndanir og líparít í ofanverðum fjöllum frá Hetti (1106 m) norðan Hjálpleysunnar Héraðsmegin suður í Hallbjarnarstaðatind (1146 m). Sunnan við Sandfell er Skúmhöttur (1229 m) og austan við það er Kistufell (1239 m) sem ber upp af Fagradal og er hæst allra fjalla norðan Þrándarjökuls.

Við rætur Sandfells eru bæirnir Stóra og Litla Sandfell. Töluverð skógrækt er á jörðunum og einnig er gamall birkiskógur, Sandfellsskógur.

Á Sandfelli eru tveir hnjúkar, Hádegishnjúkur sá lægri og Kinnahnjúkur hærri. Þórisá, Víná og Grjótá eiga upptök sín á fjallinu og renna niður í Skriðdal. Gilsá rennur um Hjálpleysu. Mikil skriða féll úr Sandfelli í Hjálpleysu innarlega árið 2004 og er hægt að sjá ummerkin í Hjálpleysu nálægt Hjálpleysuvarpi.

  • Last updated on .
  • Hits: 2277

Rauðshaugur

Rauðshaugur er áberandi brjóstlaga hóll upp af bænum Höfða og sést víða af Héraði. Þjóðsaga segir hauginn vera grafhaug Rauðs bónda á Ketilsstöðum, sem nefndur er Ásrauður í fornsögum, og sést þaðan til tveggja annarra frægra hauga, Bessahaugs í Fljótsdals og Ormarshaugs í Fellum.  Sagan segir að Rauður hafi verið heygður með öll sín auðæfi og fólk hafi reynt að grafa í hauginn, en orðið frá að hverfa þar sem bærinn á Ketilsstöðum virtist standa í ljósum logum. Frábært útsýni yfir Fljótsdalshérað.  Gengið frá skilti við Fagradalsveg (N65°14,590-W14°21.156) eftir vegaslóða áleiðis inn vegahálsinn.

  • Vegalengd og hækkun: 8,4 km og 300 m hækkun
  • GPS hnit: (N65°12.77-W14°23.01)

Rauðshaugur er á mörkum Ketilsstaða- og Egilsstaðahálsa en er í landi Höfða á Völlum. Rauðshaugur er um 20-30 metra hár hóll, blasir við sjónum á hálsbrúninni fyrir ofan Höfða og minnir um margt á meyjarbrjóst, sérstaklega sunnan frá séð, varða á toppi hólsins myndar geirvörtuna. Hvergi sér í fast berg í hólnum og virðist hann allur vera úr lausagrjóti. Mikið af grjótinu er allstórt og vottar víða fyrir óreglulegum stuðlum. Rétt fyrir innan hauginn er melarani, sem kallast Rauðshaugskragi og á honum er einn kringlóttur kollhúfulegur melur sem er úr svipuðu efni og Rauðshaugur. Austan við hauginn í sporöskjulaga kvos er stöðuvatn sem nefnist Rauðshaugsvatn. Lækjarsitra rennur í það innanog ofan af Hálsinum og önnur úr því til norðausturs. Þó að vatnið sé blátært sést ekki til botns í dýpsta hlutanum. Víðsýnt er af haugnum og áhugavert að telja gömlu kirkjusóknirnar sem sjást þaðan.
Þjóðsögnin
Það er mál manna að í forntíð hafi á Fljótsdalshéraði verið þrír vinir er hétu Ormar, Bessi og Rauður, lifði Rauður þeirra lengst. Ormar bjó á Ormarstöðum í Fellum, Bessi á Bessastöðum í Fljótsdal og skal hver þeirra vera heygður í landareign þeirra. Munnmæli segja að Rauður hafi búið að Ketilsstöðum og sé hann Ásrauður sem getið er í Landnámu. Þegar báðir vinir hans voru andaðir, mælti hann svo fyrir að hann heygður yrði á þeim stað er sæist til hauga þessara beggja vina hans og var svo gjört. Bessahaugur er fyrir sunnan túnið á Bessastöðum og Ormarshaugur utarlega í Ormsstaðalandi, rétt fyrir neðan túnið á Hlíðarseli sem er afbýli frá Ormarsstöðum. Ef dregnar eru línur milli Bessastaðahaugs, Ormarshaugs og Rauðshaugs myndast rétthyrndur þríhyrningur.
Heimildir: Grein í Gletting eftir Helga Hallgrímsson

  • Last updated on .
  • Hits: 2376

Rangárhnjúkur

Gengið frá skilti við hliðið að Fjallsseli og genginn er vegarslóði fyrir ofan bæinn. Þegar upp er komið er farið út af veginum og gengið út á Rangárhnjúkinn þangað sem hólkurinn með gestabók og stimpli er. Gaman að fara niður hjá Egilsseli og ganga síðan veginn til baka í Fjallssel. Er þá gengið framhjá Dansgjá, sem er sérkennileg gjá eða sprunga í gegnum klettaás, vestur af Staffellsbjörgum, rétt við veginn.

  • Vegalengd og hækkun: 11 km. og 500 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°19.410-W14°35.498)

Ofan við byggðina í Fellum er Fellaheiðin, hún er víðast fremur grýtt og gróðurlítil. Heiðin tekur við ofan Brúna, sem víðast hvar ber við loft neðan úr byggðinni.
Innan til heitir Fjórðungur, þar fyrir ofan vel gróið land, sem árnar er falla austan um sveitina eiga upptök sín. Ormarsstaðaáin hefur grafið sér feiknalegt gljúfur í gegnum Brúnirnar og rennur hún þar í fossaföllum en klettabelti eru í Brúnunum beggja megin við gilið. Heitir þar Gerðisbjarg að innanverðu (453m), er þaðan víðsýnt yfir Miðfellin.
Að utan enda Brúnirnar í Rangárhnjúk, (562 m) en þaðan sést vel yfir Héraðið og allt til Héraðsflóa. Rangárhnjúkur er í raun endi á all breiðum og um 2 km löngum ási sem gengur NA úr Fellaheiðinni. Ásinn er flatur að ofan, en einkennileg gróf sem Grjótdæld kallast, liggur eftir honum endilöngum, austanvert, með mýrlendi og smátjörnum. Má rekja hana upp að Sandvatni og líkast til er hún gamall vatnsfarvegur myndaður við jökuljaðar. Efsta berglag í hnjúknum og ásnum er stuðlað og suðlaberg kemur einnig fram í 2 – 3 neðri lögum austan í hnjúknum og í Eggjahnjúk og Strípshnúk, sem eru í NA-öxla Rangárhnjúks. Einnig hittist það í Fjallselsbrúnum þar inn af. Stuðlarnir mynda sumsstaðar stiga, sem minna á Jötunstigann fræga í Skotlandi. Vestan í hnjúknum er mikil grjóturð úr stuðlabrotum. Berglög í Rangárhnjúk eru næstum lárétt, sem bendir til ungs aldurs og því má ætla að hnjúkurinn sé eldstöð frá því snemma á jökultíma. Óvengju litfagur skófagróður er á stuðlasteinum austan í hnjúknum. Á Rangárhnjúk er varða landmælinganna dönsku
Bakvið hnjúkinn fellur Rangá í nokkrum fossum til norðurs úr Sandvatni, sem er stærsta stöðuvatn í Fellum (um 570 m. y.s.). Í það rennur Sandá úr Álftavatni, langt inni á Heiði. Milli Sandár og Fjórðungsins er Fjórðungsháls, bunguvaxin alda, víða mjög grýtt og gróðurvana. Austan í hálsinum er oft nær samfelld snjófönn langt fram á sumar. Efst í Fjórðungi, upp af Refsmýri er Spanarhóll, sérkennileg klettaborg úr stuðlabergi og grjóturð mikil allt um kring. Þar er huldufólkssetur og völundarhús refa í urðinni.
Á vatnaskilum á heiðinni kallast Miðheiðarháls og voru þar mörk við Jökuldalshrepp .
Norðan við Sandvatn og Rangárhnjúk er Bótarheiði, sem tilheyrði Hróarstungu.

Heimild: Fellamannabók og fl.

  • Last updated on .
  • Hits: 2255