Gengið frá skilti við hliðið að Fjallsseli og genginn er vegarslóði fyrir ofan bæinn. Þegar upp er komið er farið út af veginum og gengið út á Rangárhnjúkinn þangað sem hólkurinn með gestabók og stimpli er. Gaman að fara niður hjá Egilsseli og ganga síðan veginn til baka í Fjallssel. Er þá gengið framhjá Dansgjá, sem er sérkennileg gjá eða sprunga í gegnum klettaás, vestur af Staffellsbjörgum, rétt við veginn.
- Vegalengd og hækkun: 11 km. og 500 m. hækkun
- GPS hnit: (N65°19.410-W14°35.498)
Ofan við byggðina í Fellum er Fellaheiðin, hún er víðast fremur grýtt og gróðurlítil. Heiðin tekur við ofan Brúna, sem víðast hvar ber við loft neðan úr byggðinni.
Innan til heitir Fjórðungur, þar fyrir ofan vel gróið land, sem árnar er falla austan um sveitina eiga upptök sín. Ormarsstaðaáin hefur grafið sér feiknalegt gljúfur í gegnum Brúnirnar og rennur hún þar í fossaföllum en klettabelti eru í Brúnunum beggja megin við gilið. Heitir þar Gerðisbjarg að innanverðu (453m), er þaðan víðsýnt yfir Miðfellin.
Að utan enda Brúnirnar í Rangárhnjúk, (562 m) en þaðan sést vel yfir Héraðið og allt til Héraðsflóa. Rangárhnjúkur er í raun endi á all breiðum og um 2 km löngum ási sem gengur NA úr Fellaheiðinni. Ásinn er flatur að ofan, en einkennileg gróf sem Grjótdæld kallast, liggur eftir honum endilöngum, austanvert, með mýrlendi og smátjörnum. Má rekja hana upp að Sandvatni og líkast til er hún gamall vatnsfarvegur myndaður við jökuljaðar. Efsta berglag í hnjúknum og ásnum er stuðlað og suðlaberg kemur einnig fram í 2 – 3 neðri lögum austan í hnjúknum og í Eggjahnjúk og Strípshnúk, sem eru í NA-öxla Rangárhnjúks. Einnig hittist það í Fjallselsbrúnum þar inn af. Stuðlarnir mynda sumsstaðar stiga, sem minna á Jötunstigann fræga í Skotlandi. Vestan í hnjúknum er mikil grjóturð úr stuðlabrotum. Berglög í Rangárhnjúk eru næstum lárétt, sem bendir til ungs aldurs og því má ætla að hnjúkurinn sé eldstöð frá því snemma á jökultíma. Óvengju litfagur skófagróður er á stuðlasteinum austan í hnjúknum. Á Rangárhnjúk er varða landmælinganna dönsku
Bakvið hnjúkinn fellur Rangá í nokkrum fossum til norðurs úr Sandvatni, sem er stærsta stöðuvatn í Fellum (um 570 m. y.s.). Í það rennur Sandá úr Álftavatni, langt inni á Heiði. Milli Sandár og Fjórðungsins er Fjórðungsháls, bunguvaxin alda, víða mjög grýtt og gróðurvana. Austan í hálsinum er oft nær samfelld snjófönn langt fram á sumar. Efst í Fjórðungi, upp af Refsmýri er Spanarhóll, sérkennileg klettaborg úr stuðlabergi og grjóturð mikil allt um kring. Þar er huldufólkssetur og völundarhús refa í urðinni.
Á vatnaskilum á heiðinni kallast Miðheiðarháls og voru þar mörk við Jökuldalshrepp .
Norðan við Sandvatn og Rangárhnjúk er Bótarheiði, sem tilheyrði Hróarstungu.
Heimild: Fellamannabók og fl.