Skip to main content

Kóreksstaðavígi

Kóreksstaðavígi er falllegur stuðlabergsstapi.  Þar á Kórekur að hafa varist óvinum sínum um stund þar til hann féll. Hann var heygður við Vígið.
Ekið er framhjá félagsheimilinu Hjaltalundi og síðan afleggjarann að Kóreksstöðum. Stoppað við bílastæði og skilti rétt hjá hliðinu heim að Kóreksstöðum. Gengið út eftir að Kóreksstaðavígi. Hólkurinn með gestabók og stimpli blasir við þegar komið er gangandi að Víginu. Gaman er að fara upp á Kóreksstaðavígi.

  • Vegalengd: 1,2 km
  • GPS hnit: (N65°32.782-W14°10.591)

Kórekur bjó að Kóreksstöðum samkvæmt Fljótsdælu. Kóreksstaðavígi tengist þjóðsaga um Kórek bónda, sem einnig er getið í Austfirðingasögum. Lítið tóttarbrot er uppi á kolli Kóreksstaðavígis, sem er að mestu klæddur birkikjarri, sem var plantað þar, auk reyniviðar og alaskalúpínu sem þekur stallana. Umhverfi Vígisins hefur líka verið spillt með skurðum og tilraunareitum fyrir víðirækt. (Helgi Hallgrímsson: Kóreksstaðavígi. Glettingur, 1.árg. (1), 1994)

4.2. Þjóðsögur
í þjóðsögum Jóns Árnasonar eru nokkrar sögur um haugbrot. Jón fjallar m.a. um gröf sem grafið á að hafa verið í á hans dögum. Það er gröf sem staðsett er við stuðlabergsklett við bæinn Kóreksstaði og kölluð er Kóreksstaðavígi. Þar á Kórekur að hafa varist óvinum sínum, fallið í bardaga og að lokum verið heygður þar. Eins og sagði segir Jón Árnason að grafið hafi verið í hauginn í hans minni og að þar hafi fundist ryðfrakki af vopni en það var svo ryðgað að ekki var hægt að greina hvernig það hafði verið í laginu.

Kóreksstaðir og Kóreksstaðagerði voru forðum tíð kristfjárjarðir, „þær standa undir umsjón héraðsprófastsins. Afgjald þeirra er að upphæð 240 fiskar, sem varist er til framfæris þyngsta ómaga í hreppnum“ segir í sóknarlýsingunni 1842. „Þar er bestur heyskapur í allri sókninni og þó víðar sé leitað en lítill útigangur“ stendur í sömu heimild. Á Kóreksstöðum stóð þinghús hreppsins 1901-1946, einn salur 5x8 m, forveri Hjaltalundar. Kóreksstaðagerði fór úr ábúð fyrir 1950 og Kóreksstaðir 1982. Náttúrufegurð er hér mikil og stórbrotið útsýni til fjallanna austur af. Milli bæjanna rennur Gerðisá áleiðis í Selfljót austan Hrafnakletta, sem eru fagrar stuðlabergsmyndanir. Utan til á Gerðismýrum er Kóreksstaðarétt, aðalskilarétt sveitarinna, hlaðin úr torfi um 1921 en endurnýjuð úr timbri 1973. Kóreksstaðabær stendur á mót suðaustri í Kóreksstaðaklettum en utan við þá er Vígi, fagurskapaður stuðlabergsklettur, klæddur kvisti á kolli, og segja munnmæli að þar hafi Kórekur bóndi verið veginn.
Úr árbók Ferðafélags Íslands 2008 eftir Hjörleif Guttormsson

  • Last updated on .
  • Hits: 2317