Skip to main content

Hvannárgil

 Gengið frá skilti við Kverkfjallaveg F905. Hringleið frá Kjólsstaðaskoru um Vatnsstæði, inn í Hvannárgil neðsta og gegnum þau öll til enda. Efsta gilið er mjög stórbrotið og endar í fallegum fossi.  Hólkurinn með gestabók og stimpli er í efsta gilinu. Gengið til baka niður Slórdal.

  • Vegalengd: 14 km
  • GPS hnit: (N65°16.868-W15°47.418)

Hugleiðingar Páls Pálssonar frá Aðalbóli um Hvannárgil og fleira.
Neðra Hvannárgil í Möðrudalslandi er eitt af merkilegustu fyrirbærum þar um slóðir. Fer þar saman einstaklega áhugaverður staður til skoðunar í náttúru- og jarðfræðilegu tilliti; einnig það að mjög svo sérstætt og sögulega furðulegt örnefni tengist gilinu, svo nefnd Hestleið (ytri?) er lá í gegnum það. Þetta nafn á sér enga samsvörun eða hliðstæðu annars staðar á landinu, svo párara þessa pistils sé kunnugt um.
Almennir ferðamannavegir voru jafnt farnir af þeim sem höfðu hest sem fararskjóta og eins gangandi fólki. Hvers vegna heita götur á milli Möðrudals á Efra-Fjalli og Brúar á Jökuldal, Hestleið? Þannig má spyrja, en fátt verður um svör. Í gilinu leynist þó líklega ráðningin á nafngátunni. Þetta gil og umhverfi þess er því í meira lagi skoðunar og rannsóknar vert.
Vatnsstæðishólar heita hnúkar tveir við Fjallgarða suður frá Möðrudal fram af Miklafelli og blasa við augum af bæjarhlaði. Þeir standa á hrygg, sem er fyrsta þrepið upp að stiga í Fjallgarðana. Neðra Hvannárgil sker hrygginn alvegi í sundur til grunna sunnan við hólana.
Þegar komið er í gegnum gilið verður framundan víðáttumikil kvos milli Stórfells og Bæjaraxlar, með sléttum söndum, sem er framburðarfylling í gamalt vatnsstæði.
Þar er kjörið að skella á skeið á Hestleið.
Það mætti svo að orði komast, að telja Neðra Hvannárgil elstu vegagöng á landi hér. Gilið er þröngt líkt og nútíma jarðgöng í gegn um fjöll, sem gerð eru fyrir bifreiðaumferð. En þar er ekki berghvelfing yfir heldur himinhvolfið sjálft. Það sérkennilega er, að gilið hefur líklega snemma verið notað sem samgöngubót á milli Brúar og Möðrudals. Um gilið lá svo nefnd Hesteið milli nefndra bæja eins og áður segir, talin rúm þingmannaleið að lengd. Vísa vörður til vegar beint í gilskjaftinn, þá komið er ofan af Fjallgörðum þegar leiðin er farin frá Brú til Möðrudals.

Um gilið er getið í heimildum. Í sóknarlýsingu Hofteigsprestakalls 1874, eftir séra Þorvald Ásgeirsson í Hofteigi segir á þessa leið. „Framan við það (Snóksfell nú nefnt Stórfell) sker norðurbrún Fjallgarðsins tvö gil sem heita Efra- og Neðra- Hvannárgil. Um neðra gilið, milli afar hárra kletta, liggur vegurinn frá Möðrudal að Brú“. Séra Þorvaldur var prestur í Hofteigi á Jökuldal í 16 ár, 1864 – 1880 og þjónaði þá kirkjunum á Brú og í Möðrudal. Líklega hefur Valdi prestur farið í gegnum gilsgöngin í sinni frægu kirkjuflengreið, er hann messaði í báðum annexíukirkjunum í Möðrudal og á Brú samdægurs. Sagt er að þann sunnudag árla morguns hélt klerkur af stað að heiman frá sér að Hofteigi í embættisferðina, flugríðandi. Reiðfanturinn séra Þorvaldur er talinn hafa riðið einhestis á þremur klukkutímum úr kaupstað á Kolbeinstanga í Vopnafirði um Smjörvatnsheiði heim í Hofteig á Jökuldal. Hesturinn stóð lítið upp daginn eftir.

Sveinn Pálsson læknir og náttúrufræðingur ferðaðist um Austurland 1794. Hann fór frá Brú á Jökuldal 9.september, norður um Jökuldalsheiði og yfir Fjallgarða í átt til Möðrudals og hafði náttstað norðan við Fjallgarða hjá Vatnsstæði (efra ?), sem áður nefndir hólar og Vatnsstæðishryggur draga nafn af. Sveinn lýsir að nokkru leiðinni, umhverfi hennar og Fjallgörðunum. Þar bjargar hann frá gleymsku og þögn tveimur örnefnum á Hestleið, Kattarhrygg og Fúlukinn og hugleiðir nafnið á Matbrunnavatni ? er leiðin liggur framhjá í Brúarheiði. En tíðræddast verður honum um Hvannárgilið, sem leiðin lá í gegnum. „Vestan til í Fjallgörðum þessum liggur leiðin í gegnum svo þröngan klofa, er Hvannárgil nefnist, að klyfjahestar geta með naumindum smogið í gegnum. Hliðarnar eru úr eintómum litlum stuðlabergssúlum, er liggja í allar áttir, mest megnis samfléttaðar, en samt eins og þær séu límdar hver við aðra. Væri það næsta óskiljanlegt hvernig slík árspræna sem Hvanná hefur getað brotist þarna í gegn og grafið þetta nálega 20 faðma djúpa gil, ef dæmin sýndu ekki svo víða hinn undraverða kraft, sem vatnið býr yfir, til að brjótast í gegnum hinar sterkustu hindranir. Hér og hvar grillir í hella og hvelfingar niðri í þessu hálfdimma gili og virðist það liggja í augum uppi, að allir fjallgarðarnir og hæðirnar, sem kvíslast um allt svæðið milli Jökudalsheiðar og Jökulsár á Fjalli hljóti að vera af sömu gerð hið innra, þótt utan frá líti þær út sem dyngjur af möl og lausagrjóti. Sums staðar liggur móbergið sem hjúpur ofan á blágrýtinu, er víða gægist upp úr ysta malarlaginu.“
Hér hittir hinn skarpskyggni náttúrufræðingur Sveinn Pálsson naglann á höfuðið.

Nær tveimur öldum síðar rannsakaði Jóhann Helgason, jarðfræðingur Fjallgarðana. Þá reyndust Hvannárgilin bestu og fróðlegustu staðirnir til að gefa upplýsingar um jarðfræðilega uppbyggingu og innri gerð þeirra.
Efra-Hvannárgilið er djúpt og hrikalegt og má svo að orði kveða með orðalagi Jóns Helgasonar í frægu kvæði (Áfangar) „hér mundi gegnt í fjöllin“ um galopnar og hurðalausar dyr, þar sem gilið byrjar að skerast inn í Fjallgarðinn.

Um þessi vegagöng, Hvannárgil – Neðra – líka um Byttuskarð – fór kirkjurápsfólk frá Brú og Eiríksstöðum öldum saman. En þessir bæir ásamt Hákonarstöðum á Efra-Jökuldal áttu kirkjusókn að Möðrudal á Efra-Fjalli í kaþólskri tíð og eftir siðaskipti allt til þess að séra Bjarni prestur Jónsson síðastur Möðrudalsklerka, geyspaði endanlega lífsgolunni 1716 við Loftsmýrargróf milli Flatargerðis og Skriðusels á Efri-Jökuldal. Þar var hróflað tjaldi yfir hræið og Jökuldælsk hugrökk stelpudrós fengin til að vaka yfir líkinu, eins og belju sem komin var að burði. Henni tókst með naumindum að verja hamsinn af prestinum fyrir ásókn illfyglislegra varga, en um það hvernig sálartetrinu reiddi af hirti enginn.
Sigfús Sigvarðsson frá Brú á Jökuldal fór í gegnum gilið að vorlagi á heimleið úr skóla, ásamt Haraldi Þórarinssyni frá Skeggjastöðum í Fellum og Jóni í Möðrudal. Jón sagði Sigfúsi að Hestleið (ytri?) væri skemmsta og beinasta leiðin milli Möðrudals og Brúar og fylgdi þeim suður að Fjallgörðum og í gegnum gilið, en Sigfús hafði ætlað að fara um Byttuskarð, því honum var ókunnugt um þessa leið. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem Sigfús fór þennan veg, Ekki mundi Sigfús fyrir víst hvort Jón tilgreindi þessa leið sem ytri eða fremri Hestleið.
Þessar leiðir um Neðra-Hvannargil og Byttuskarð, eru líklega þeir Brúarvegir, sem nefndir eru í sóknarlýsingu Möðrudalsstaðar 1839.
Hofteigsprestur séra Erlendur Guðmundsson skírði meybarn á Brú „um sólaruppkomu“ 13.júní 1794. Hlaut egtaborið barnið nafnið Þorbjörg, fædd 11.ejusdem. Þá voru foreldrarnir, Einar Einarsson og Anna Þorsteinsdóttir að líkindum ný flutt að Brú frá Kjólsstöðum á Efra-Fjalli. Hafa kannski farið með búslóðarlestina um Hestleiðargilið. Þá gætu klyfjar hafa strokist við bergsnasir, líkt og Sveinn Pálsson gefur í skin í frásögn sinni þegar hann fór þessa leið síðar um sumarið. Þorbjörg var fyrsta barn þeirra hjóna er fæddist á Brú. Tvö eldri börnin, Solveig og Gunnlaugur, fæddust á Kjólsstöðum. (um 1791 og 1792)
?Langafi Einars og Önnu, Þorsteinn Magnússon bjó á Kjólsstöðum 1703. Einar hét þeirra son, bóndi á Brú, faðir Stefáns í Möðrudal, en Jón sonur hans sagði Sigfúsi á Brú frá Hestleið.
Elsta heimild um „Hestleið“ og „Brúarveg“ er vitnisburður Jóns nokkurs Guðmundssonar frá 1532, um landamerki Möðrudals á Fjalli. Jón sagðist barnfæddur í Möðrudal og hafa alist þar upp til 19 ára aldurs og sinn faðir séra Guðmundur Jónsson hefði haldið staðinn í Möðrudal í 26 ár. Um þá feðga er ekkert kunnugt frekar. Hannes Þorsteinsson vísar í þessa heimild í prestatali og prófasta.

  • Last updated on .
  • Hits: 1345