Ekið Fjallselsveg upp á hæsta ás suðvestan við Hafrafell. Gengið frá skilti við veg að fjarskiptamöstrum á Hrafnafelli þar sem hólkinn með gestabók og stimpli er að finna. Upplagt að koma við í Hrafnafellsrétt (N65°18.02-W14°29.23) sem er sérstæð, hlaðin grjótrétt milli kletta skammt austan vegar.
Gaman er að ganga síðan út af Hrafnafellinu og inn með því að austanverðu og koma við í Kvíahelli (N65°18,359-W14°29,063). Ef genginn er hringur er hann lengri, eða 5,8 km og rauð leið.
- Vegalengd og hækkun: 2,6 km og 80 m. hækkun
- GPS hnit: (N 65°18,304-W14°29,098)
Hrafnafell er klettaborg í suðurenda Hafrafells sem er stærst fella í Fellahreppnum, 3 km á lengd og 218 m á hæð þar sem það rís hæst.
Þar hefur ísaldarjökulinn sorfið bergið í rennislétt hvalbök og niður í djúpa geil með því nær lóðréttum veggjum. Þarna gerðu hagsýnir bændur stóra fjárrétt með því að hlaða grjóti í báða enda geilarinnar. Þarna hét Hrafnafellsrétt og var lögrétt Fellahrepps allt til 1888 eða 1889 en þá var lögréttin flutt að Ormarstöðum og hefur verið þar síðan. Síðast var vitað til að réttað væri í Hrafnafellsrétt haustið 1907 þegar Tungu- og Fellafé var rekið í einu lagi úr Hnefilsdalsrétt beint austur yfir heiðina.
Af Hrafnafellinu er útsýn yfir Úthérað allt út á Héraðsflóa. Í norðri sjáum við Smjörfjöll, Hellisheiði, Dýjafjall og Kollumúla en að sunnan sjáum við Dyrfjöll, Beinageit og Botnsdalsfjall, einnig sést Herfellið í Loðmundarfirði.
Gaman er að ganga út Hrafnafellið þar sem það er hæst og niður af því þar sem það lækkar að norðanverðu og inn með því aftur að vestanverðu með brekkurótum. Þar liggur leiðin um svokallaða vættaborg. Mikið er það af gjótum og skútum sem er algjört ævintýraland fyrir smáfólkið. Þar finnst einir og hægt er að týna bæði einiber og bláber þegar líða fer á sumarið.
Einnig er gaman að ganga út af Hrafnafellinu og inn með því að austanverðu og koma við í Kvíahelli.