Skip to main content

Hengifoss

Einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna sem heimsækja Austurand, er Hengifoss í Fljótsdal. Góð gönguleið er upp að fossinum sem vel er hugsað um af starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs en Snæfellsstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs er um fjóra kílómetra innar í dalnum. Hengifoss er annar hæsti foss landsins, um 128 metra hár og rennur í Hengifossá. Um miðja leið upp, sést í gilinu hæsta stuðlaberg landsins en það er við Litlanesfoss. Perluhólkur með gestabók og stimpli fyrir perluleikinn er á grasflöt nokkru áður en stígurinn endar (N65°05.422-W14°53.200). 

  • Vegalengd og hækkun: 4,5 km og 300 m. hækkun
  • GPS hnit: (Upphafspunktur N65°04.41-W14°52.84)

Hengifoss er 128 m hár og annar hæsti foss landsins. Vatnsmagn hans er hins vegar fremur lítið.

Í fossbrúninni eru nokkur blágrýtislög en milli þeirra röndótt millilög, sum fagurrauð. Stuðlabergs-myndanir prýða umhverfi hans og gera hann að einum af fegurstu fossum landsins. Þar er hægt að finna steinrunna stofna kulvísra barrtrjáa og surtarbrand, sem vísar til hlýrra loftslags á seinni hluta tertíer tímabilsins. Neðan blágrýtislaganna er þykk sandsteinsmyndun sem veðrast fyrr en blágrýtið og veldur því eiginlega fossmynduninni.

Á sú, sem Hengifoss er í, heitir Hengifossá. Hún á upptök sín í Hengifossár-vatni uppi á Fljótsdalsheiði og fellur í innanvert Lagarfljót. Neðan við Hengifoss og skammt fyrir ofan bæinn Hjarðarból er annar foss í ánni sem heitir Litlanesfoss. Fellur áin þar í allháum fossi niður í óvenju svipfagran stuðlabergssveip.

Auðvelt er að ganga bak Hengifoss þegar lítið er í ánni og skoða hellisskúta.

Hæð Hengifoss hefur lengi verið á reiki. Í grein um Hengifoss 1967 eftir Sigurð Blöndal er þetta ritað:
Hann er eins og silfurband, þar sem hann fellur beinn og tígulegur fram af hinum ógnarlega hamri, 128 m á hæð (skv. mælingu Steingríms Pálssonar, mælingamanns hjá Raforkumálastjóra). Skipar þessi hæð honum í 2. sæti íslenzkra fossa á eftir Glym í Hvalfirði, en á undan Háafossi í Þjórsárdal.
(Austurland 7. júlí 1967)
Í Íslensku alfræðibókinni (1990) er Hengifoss talinn 118 m og Háifoss í Þjórsárdal 122 m og næsthæsti foss landsins; þar er Glymur í Botnsá talinn hæstur, 198 m.

  • Last updated on .
  • Hits: 2392