Skip to main content

Útivistar og ævintýrafjölskylduferð í Loðmundarfjörð. 16.- 17. ágúst. uppseld

  • Upphaf ferðar: 2025-08-16

Útivistar og ævintýrafjölskylduferð í Loðmundarfjörð. 16.- 17. ágúst.

Tveir göngudagar, ein gistinótt.

Við ætlum að dvelja eina nótt í hinum undirfagra firði Loðmundarfirði. Tilvalið jafnt fyrir fjölskyldur sem eru að stíga sín fyrstu skref í útivist og sem lengra komna.

Fara í göngur um svæðið, leika í fjörunni, skoða fallega steina,,kíkja á fuglalíf, príla í klettum og almennt njóta náttúrufegurðar og samveru.

Dagur eitt: Við sameinumst í bíla á Borgarfirði eystri kl 9:00 ( við íþróttahús) svo keyrum við yfir fjöll og leggjum bílum við Klyppstaðarskála. Komum okkur fyrir og nærum okkur. Skundum í könnunarleiðangur niður að fjöru og sjáum hvað rekur á fjörur okkar. Gengið til baka í frekari ævintýraleit. Um kvöldið verður svo kjötsúpa og kvöldvaka.

Dagur tvö: Eftir morgunverð og fjölskyldujóga höldum við glaðbeitt með nesti og bros á vör í gönguferð uppi í Norðdal þar sem við munum skoða himinháar klettaborgir, kíkja eftir álfum og njóta friðsældar og fegurðar dalsins. Göngum aftur í skála og græjum okkur til heimferðar.

Áætluð heimferð frá Loðmundarfirði er kl 15:00.

Verð: 20,000 þúsund fyrir fullorðinn og 5000 fyrir börn yngri en 18 ára. Innifalið: Skálagisting, leiðsögn, og kvöldverður í Loðmundarfirði. Tekið er á móti skráningum á heimasíðu ferðafélagsins til 15. júní.

Fararstjórn Þórdís Kristvinsdóttir og Hildur Bergsdóttir.

Þær stöllur eiga ýmis verkfæri í bakpokunum sem verða nýtt í ferðinni, báðar eru þær menntaðar fjallaleiðsögukonur og hafa starfað lengi saman við útivistarþjálfun og ævintýragöngur.

Þórdís er að auki skátaforingi með meiru og Hildur menntaður félagsráðgjafi með áherslu á náttúrumeðferð og reynslunám, og er auk þess landvörður og jógakennari.

  • Last updated on .
  • Hits: 93