Ekið upp fyrir Heiðarsel og beygt inn á slóð til vinstri áður en komið er að Nátthaga. Gengið frá skilti sem er við gamla veginn fyrir ofan Nátthaga. Gengið upp á brún og síðan út eftir til hægri uns komið er að hólknum þar sem er gestabók og stimpill. Gaman er að ganga út Heiðarendann, niður og inn með honum til baka eftir gamla veginum.
Heiðarendi er endi Fljótsdalsheiðar sem er heildarnafn á hálendinu milli Jökuldals og Upphéraðs, en ýmsir hlutar heiðarinnar eru nefndir eftir nærliggjandi jörðum. Fornt heiti á þessu svæði er Bótar- og Heiðarselsheiði. Heiðarsel á stórt landssvæði á suðvestanverðri Lágheiði og austanvert á Heiðarenda, þ.e. enda Fljótsdalsheiðar. Spilda Heiðarsels telst til Bótarheiðar þar sem Heiðarsel var hjáleiga frá Bót. Ufsin er hæsti hlutinn í Heiðarselslandi 431 metri. Norðvestur af Ufs er Miðheiðarháls sem nær út á Heiðarenda. Vestan við Ufs er svonefndur Grafningur í norðaustur af honum er Sauðadalur, norðvestur af Sauðadalsenda er botn nefndur Djúpibotn, þar í norðaustur tekur við Dimmidalur sem nær út undir þjóðveg.
Eyðibýlið Fagriflötur er í Heiðarselslandi, spölkorn utan við tún (rústir), en þó er það ekki á þeim Fagrafleti sem er örnefni þar skammt frá. Einnig eru óljós munnmæli um að býli hafi verið á Leiðvelli, niður af bæ handan áss. Þar voru beitarhús og nafnið þykir benda til að staðurinn dragi nafn af leiðarþinghaldi að fornu. Bærinn Nátthagi sem stendur á lóð úr Heiðarselslandi er hæsti bær yfir sjávarmáli í Hróarstungu um 230m.
Ærhamar
Fyrir langa löngu bjó bóndi í Bót í Hróarstungu. Ekki getur um nafn hans. Bóndi var í vináttu við huldukonu. Hún sagði honum fyrir um órðna viðburði og réð honum mög heilræði. Voru því kærleikar með þeim. Á hverju hausti kom hún á réttarvegg og sagði bónda hvað feigt væri af fénu. Lógaði hann því strax og missti svo aldrei kind á vetrum og varð hann auðugur mjög af sauðfé.
Eitt haust sem vant var kom hún á réttarvegginn, lítur yfir féð og mælti: “Allur er nú sauðurinn feigur utan þú, úrþvættið Kolla, og verður þó hætt einu auganu nema vel verði, Kollukind”.
Þegar hún sagði þetta benti hún á kollótta kind væskilslega. Bóndi vildi eigi trúa vinkonu sinni og lógaði fáu um haustið. En vetur sá næsti varð hinn mesti víkingur svo bóndi felldi allt fé sitt. En Kolla, sem bóndi kallaði Mókollu, komst á hamar milli Heiðarsels og Fremrasels norðanvert á Lágheiði og gekk þar úti og græddi bóndi út af henni mikinn kynstofn. Hamarinn er síðan kallaður Ærhamar.