Skip to main content

Forsíða

Bjargselsbotnar

Gengið er frá skilti rétt við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og fylgt stikum ljósgrænum að lit. Leiðin liggur í gegnum framhlaupsurð, sem myndaðist fyrir um 10.000 árum og nefnist Hólar. Áfram er haldið upp í Bjargselsbotna, inn eftir, undir Bjarginu að Þverbjargi þar sem Illaskriða hefur fallið. Út og niður af Illuskriðu er gengið niður að Leirtjarnarhrygg. Þar er að finna hólkinn með gestabók og stimpli.

  • Vegalengd og hækkun: 4.5 km og 230 m hækkun.
  • GPS hnit: N65°05.465-W14°43.031

Bjargselsbotnar eru undir endilöngu Hallormsstaðabjargi með glögg mörk að innan við Þverbjarg en opnir norður úr þar sem Helgulækur rennur frá Helgutjörn út og niður í Gvendargrjót. Helgutjörn er grunn og við hana er vatnsból fyrir Hallormsstað. Rétt innan við er önnur tjörn dýpri og nafnlaus, freistandi sundpollur fyrir fleiri en endur á heitum degi.
Bjargsel sem gefur Botnum nafn, liggur hátt um það bil sem Skriðdalsvegur beygir út að Bjargsenda. Graslendið þar sker sig enn úr umhverfinu þótt liðið muni hátt á aðra öld frá því þar var haft í seli, jafnvel hokrað um tíma. Frá selstæðinu er kjörið að ganga inn eftir merktum stíg sem liggur um Flatir og fjárgötur fyrri tíðar undir Bjargi suður í olnbogabótina við Þverbjarg, svo haldið sé líkingu Sigurðar Gunnarssonar í sóknarlýsingu. Upp af gnæfir Hallormsstaðabjarg. Þar í krikanum hefur Illaskriða fallið niður úr hamrageil, að því er virðist í áföngum, löngu eftir að bresturinn mikli varð og fjallið klofnaði. Myndar hún bogadregnar svigður á leið sinni niður í Botna líkt og sjá má á skriðjöklum. Út og niður af kverkinni og Illuskriðu er enn ein tjörn nafnlaus sem skreytir þennan fjallasal. Leirtjörn undir Þverbjargi allnokkru neðar er hins vegar ekki lengur annað en nafnið tómt. Af Leirtjarnarhrygg við innri mörk skriðunnar miklu opnast sýn til Framskógar og Fljótsdals. Héðan er hæg ganga eftir skógarstíg niður um Framhóla á Skriðdalsveg og til bæja. Kúabotnar eru innst í Hólum neðan til við framhlaupsjaðarinn á móts við neðri enda Staðarárgils. Gætu þeir hafa orðið til við það að framhlaupið lokaði gilkjaftinum þannig að lón myndaðist og áin skolaði út efni úr skriðunni jafnhliða því sem hún gróf sig smám saman niður úr henni við endann á Kistuklettum.

( Úr bókinni: Hallormsstaður í Skógum, Hjörleifur Guttormsson og Sigurður Blöndal )

Perla

  • Last updated on .
  • Hits: 1579