Þerribjarg

Nokkuð brött og erfið ganga. Ekið upp á Hellisheiði, beygt hægri og ekið eftir vegarslóða þar til komið er efst í Kattárdalsdrög. Vegarslóðinn liggur niður í Kattárdal.

Þar er skilti þar sem bílum er lagt og gangan hefst. Stikað er frá skiltinu fram á brún ofan við Múlahöfnina.

Þaðan (65°45.144-W14°21.964) liggur kindagata niður fyrir brúnina niður skriðuhrygg og niður í Múlahöfn. Höfnin er frábær náttúrusmíð gerð af meistarans höndum, umgirt bríkum og dröngum á tvo vegu.

Múlahöfn var gerð löggilt verslunarhöfn 1890 en aðeins var skipað þar upp einu sinni þar sem erfitt var að koma vörum til byggða. Frá Múlahöfninni er síðan gengið meðfram sjónum í norður út á ytri tangann. Þar blasir við Þerribjarg og þar undir Langisandur.

Hólkur með gestabók og stimpli er við stíginn niður á sandinn. Allir ættu að ganga sandinn undir Þerribjargi áður en haldið er til baka.

 • Vegalengd og hækkun: 10,7 km og 580 m. hækkun
 • GPS hnit: (N65°45.336-W14°20.990)

Út-Héraðsmenn kalla bjargið Þerrisbjarg og segja að það sé þurrkur þá daga sem sól skín á Þerribjargið að morgni. Skaginn utan Fagradals í Vopnafirði og Hellisár hjá Ketilsstöðum í Hlíðarhreppi hefur verið á opinberri náttúruminja-skrá síðan 1984.

Fjallið heitir Kollur, nú oftast kallaður Kollumúli. Ysti hnjúkurinn, Múlakollur (602 m) en út frá honum gengur hinn eiginlegi Kollumúli. Inn af Múlakolli er hnjúkurinn Köttur (521 m) fyrir botni Kattardals.

Langisandur undir Þerribjargi er um það bil ½ km langur. Utan við sandinn er berggangur sem nefnist Bjarglöng og eru þar landamerki Fagradals og Ketilsstaða í Hlíð en að sunnan er Múlahöfn. Múlahöfnin er í skjóli Múlatangans sem er klofinn í miðju af Skálabaksvík, og að innan varin af nokkrum klettadröngum m.a. Kríustapa og Arnarbrík. Í Ferðabók Olaviusar II segir m.a. á bls. 170 um Múlahöfn: Múlahöfn á Fljótsdalshéraði liggur sunnan undir Kollumúlafjalli og utar en Landsendatanginn. Það er lítil kringlótt vík, sem gengur til norðurs. Hún er óvarin gegn öllum vindum til þeirrar hliðar sem snýr að Ósfjöllum. En há fjöll skýla henni gegn hafátt, en Héraðsmegin hlífa lágir klettar eða sker upp úr sjónum henni.

Í miðju hafnarminninu er 8 faðma dýpi …. en alls staðar er sendinn leirbotn. Fullyrt var, að brim næði aldrei, hvorki vetur né sumar, innst í víkina og höfðu menn það til sannindamerkis, að tveir rekadrumbar litlir hefðu legið í fjörunni andspænis miðju mynninu í 3 ár án þess að haggast. Þá er talið að þar sé ætíð örugg bátalending. Hafís kvað aldrei koma inn á vík þessa.

Útræði var stundað frá Múlahöfn um aldir og í manntali 1703 kemur fram að á Múla býr bóndi með tveim ungum dætrum sínum. En árið 1872 voru tveir vinnumenn Gunnlaugs bónda á Ketilsstöðum við fiskveiðar úti á Múla. Er þeir ætla heim þann 8. apríl héldu þeir upp frá Skálabaksvík. Þar fyrir ofan féll á þá snjóflóð og fórust þeir báðir. Þeir fundust ekki fyrr en 10 dögum síðar. Þetta slys varð til þess að sjósókn frá verstöðvum út með fjalli lagðist niður.

Múlahöfn þótti fyrrum álitlegust höfn við Héraðsflóa og 1883 var hún mæld og gerð af henni uppdráttur. Héraðsmenn voru að leita að hafnaraðstöðu sem myndi þjóna þeim betur en hafnirnar niður á fjörðum. Var Múlahöfn löggilt sem verslunarstaður árið 1890, en aðeins var í eitt skipti skipað upp vörum þar. Flutningur vörunnar áfram til viðtakanda var nánast útilokaður og var það því ekki reynt aftur.

 • Last updated on .
 • Hits: 886

Ysti-Rjúkandi

Ysti-Rjúkandi er foss við þjóðveg 1 á Jökuldal og er nýjasta perlan hjá Perlum Fljótsdalshéraðs. Mjög fjölsóttur ferðamannastaður og við veginn er bílaplan og frá því göngustígur upp að fossinum. Um það bil 35.000 - 40.000 manns skoða fossinn árlega.

Hæð Ysta-Rjúkanda var mæld í sunnudagsgöngu þann 27 júlí 2013 og reyndist hann vera 139 metrar af fossbrún niður í hylinn undir fossinum og er hann því hæsti foss á Austurlandi. Stikuð gönguleið er upp með fossinum hægra megin upp á brún og þar er staukur með gestabók.

 • Vegalengd: 
 • GPS hnit: N65°20.100'-W15°04.887

 

 • Last updated on .
 • Hits: 885

Vestdalsvatn

Skemmtileg gönguleið er yfir Vestdalsheiði, frá Héraði yfir í Seyðisfjörð. Vestdalsheiði var áður fyrr fjölfarinn fjallvegur en gengið er upp með Gilsá, yfir heiðina og niður Vestdal í Seyðisfjörð.

Gengið er frá skilti á Fjarðarheiði (N65°15.577 - W14°13.524) og stefnt að vestari enda Bjólfsins. Vatnið blasir við þegar komið er á móts við Bjólfinn. Þetta er góð gönguleið um ávalar hæðir.

Þegar komið er að Vestdalsvatni er um þrjár leiðir að velja ef fólk vill ekki fara sömu leið til baka. Niður Vestdal í Seyðisfjörð er stikuð leið, niður Gilsárdalinn eftir greinilegri slóð að Gilsárteigi (austan við Eiða á Fljótsdalshéraði) eða fyrir vestan Bjólfinn niður í Stafdal.

Hólkurinn með gestabók og stimpli er þar sem Gilsáin fellur úr vatninu. Vaða þarf ána ef gengið er af Fjarðarheiði.

 • Vegalengd: 11 km
 • GPS hnit: (N65°17.102-W14°07.887)
 • Last updated on .
 • Hits: 829

Valtýshellir

Gengið frá þjóðvegi 95 austan (utan) við Gilsá (N65°08,172-W14°31.133). Farið er framhjá rústum Hátúna, en það var myndarbýli í árdaga Íslandsbyggðar og er sagt að þar hafi verið 18 hurðir á járnum. Sjást þar enn merki um hlaðna grjótgarða. Á 19.öld fannst þar fornt sverð sem var brætt upp og úr því smíðaðar skaflaskeifur og aðrir þarfir hlutir. Áfram er gengið og komið að sléttum grasvelli sem kallast Kálfavellir. Valtýshellir er lítill skúti innan við urðarrana skammt innan og norðan af Hjálpleysuvatni. Hólkur með gestabók og stimpli er rétt innan við skútann.

Hjálpleysan er dalur, fyrrum fjallvegur á mörkum Valla og Skriðdals, milli Hattar og Sandfells.
Lítið vatn er í dalnum. Þar nálægt við hliðina á smá læk er lítill hellisskúti sem heitir Valtýshellir.

Þar á „Valtýr á grænni treyju“, sem myrti sendimann Péturs sýslumanns á Ketilsstöðum á fyrri hluta 18.aldar að hafa hafst við eftir verknaðinn.

Þjóðsagan segir: „Eftir að hann myrti mann þennan sagðist hann hafa lagst á fjallveg þann sem Hjálpleysa heitir, stolist þaðan á bæi að ná sér í mat þangað til hann hefði farið enga mannavegi heim til sín vestur í Barðastrandasýslu.

En hann vildi ráðleggja hverjum einum sem lífi vildi halda að fara ekki Hjálpleysu“. (Íslenskar þjóðsögur og ævintýri IV, safnað af Jóni Árnasyni, bls. 78-81)

 • Last updated on .
 • Hits: 852

Stuttidalur

Gengið frá skilti sem er við gönguhlið rétt við þjóðveg 95 utan við Haugaána. Farið í gegnum gönguhlið og síðan gengið upp með girðingu, um 600 m. Haldið áfram eftir stikaðri gönguleið. Stuttidalur liggur í austur á milli Hallbjarnarstaðatinds og Haugafjalls. Hólkur með gestabók og stimpli er við tjörnina skammt innan við Sjónarhraunið.

Upplagt að fara yfir ána og ganga um Haugahólana til baka niður að þjóðvegi.  Haugahólar eru geysimikið berghlaup, eitt hið stærsta á Íslandi, sem fallið hefur úr Haugafjalli milli Stuttadals og Vatnsdals.

 • Vegalengd og hækkun: 4 km. og 100 m. hækkun
 • GPS hnit: (N64°59.173-W14°35.217)
 • Last updated on .
 • Hits: 1177

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs - Tjarnarási 8 - 700 Egilsstaðir - (Pósthólf 154) - This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. - sími: 863 5813