Skip to main content

Strútsfoss

Gengið er frá skitli rétt hjá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er býsna langt inn dalinn. Þá er hægt að ganga upp með Strútsgili þar sem komið er að því. Þar uppi er hólkur með gestabók og stimpli. Ekki er hægt að komast alla leið að fossinum nema fara niður í gilið og vaða ána nokkrum sinnum sem getur verið varhugavert. Strútsfoss er á náttúruminjaskrá.

  • Vegalengd og hækkun: 8,5 km. og 229 m. hækkun
  • Kort og GPS Slóði
  • GPS hnit: (N64°54.194-W15°02.314)

Strútsfoss í Strútsá steypist fram af brúnum Villingadals sem gengur inn af Suðurdal. Fossinn telst með þeim hærri á landinu en hann er tvískiptur. Neðri hluti hans er um 100 metra hár og sá efri um 20 metrar. Neðan fossins fellur áin í djúpu gili, Strútsgili, og sameinast Fellsá litlu neðar. Að öllum líkindum draga áin og fossinn nafn sitt af strýtulaga klettadrangi eða dröngum í gilinu. Strútsgil er afar litfagurt.  Innri-Þverá fellur ofan í gilið skammt frá Strútsfossi og myndar fallega fossaröð.

Villingadalsgriðland innifelur allan Villingadal sem liggur suðaustur úr Suðurdal hjá Flöt. Fellsá rennur eftir dalnum í djúpu klettagili. Tvær þverár falla úr SA ofan í dalinn, Strútsá og Sultarranaá, þær hafa báðar myndað hrikaleg hamragljúfur og falla í háum fossum ofan í þau. Ysti hluti dalsins að austan kallast Strútsdalur. Villingadalur er vel gróinn hátt í hlíðar, en klettabelti eru víða í þeim, einkum að vestanverðu. Þetta griðland er allt í háum verndarflokki, en nánast óþekkt af öðrum en heimamönnum.

Gengið er í dalinn frá Flöt, en þaðan liggur rudd slóð inn að göngubrú á Strútsá. Þangað er um hálftíma gangur, en inn að gljúfrum Fellsár og Sultarranaár eru um 7 km, eða tveggja tíma gangur. Til stóð að rýra vatnsmagn Fellsár og Sultarranaár með svonefndri Hraunaveitu meiri til Jökulsár í Fljótsdal, en frá því var horfið.

Strútsgil og Strútsfoss eru á Strútsdal inn frá bænum Sturluflöt. Stórhrikalegt hamragljúfur, um 1,5 km langt, allt að 0,5 km breitt og 200-250 m djúpt, litfagurt, með klettadröngum og stöpum. Fyrir botni gilsins er Strútsfoss, sem er eins og áður segi tvískiptur. Stutt er á milli fossanna og þá ber saman neðan úr dalnum séð. Í gljúfrinu skiptast á basalthraun og setlög, sem eru tugir metra á þykkt, líkt og í Sturlárgljúfri. Basaltið er stuðlað í nokkrum lögum ofan á setberginu og mikið er af rauðum og gulbrúnum millilögum. Einnig kemur fram líparít á einum stað í gilbotni. Neðantil í gljúfrinu er strýtulaga drangur, sem líklega er "Strúturinn", nafngjafi fossins. Ytri- og Innri- Þverá falla ofan í gilið austan frá, sú síðarnefnda skammt frá Strútsfossi, og myndar samfellda fossastiga ofan í gljúfrið. Suður úr því ganga nokkur gjögur. Að Strútsfossi að ofan liggur grunnur farvegur, líkt og að Hengifossi, og að ýmsu svipar þeim saman. Milli Þveránna heita Þverárkinnar, þær eru töluvert grónar ofantil og yst í þeim eru nokkrar torfur vaxnar þéttu birkikjarri, allt að mannhæðarháu. Nokkurt hvannstóð er í gilbotni næst fossinum sem býr við stöðugan úða.

Strútsfoss snýr í NV og er því oft í skugga, en best er að skoða hann seinni part dags um hásumar. Hægt er að ganga langt inn í gljúfrið að utanverðu, en þó ekki alla leið að fossi nema vaða ána nokkrum sinnum. Strútsgil og Strútsfoss voru skráð á opinbera náttúruminjaskrá 1996. (Helgi Hall.: Strútsfoss í Fljótsdal. Útivist 15: 63-73, 1989. Sami: Felufoss í Fljótsdal. Austri 33, 1. sept. 1988. Einar Þórarinsson: Hraunavirkjun. Orkust. 1997, bls. 31.

  • Last updated on .
  • Hits: 2210