Skip to main content

Spanarhóll

Spanarhóll er í norðurenda Fjórðungsháls, 591 m. Ekið inn Fellin að Refsmýri. Gengið frá skilti utan við Refsmýri upp með Þorleifará, um 0,5 km, en síðan sveigt frá ánni og tekin stefna á Hlíðarsel og áfram upp gilið fyrir ofan rústirnar upp á Fjórðung á Fellaheiðinni. Þaðan er greið leið að Spanarhóli.   Hólarnir eru fjórir og ætti fólk endilega að ganga að þeim öllum. Einnig er hægt að fara á Spanarhól með því að ganga upp með Ormarsstaðaánni eða frá Fjallsseli upp á brún og svo inn eftir.  
Hólkur með gestabók og stimpli er á stærsta hólnum. Spanarhóll er vel þekktur huldufólksstaður en nafnið er líklega dregið af líkingu stuðlanna við tréspæni.   

  • Vegalengd og hækkun: 14 km og 473 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°15.588-W14°41.446)       

 Örnefnið Spanarhóll er jafnan haft í eintölu en þarna er um 4 hóla að ræða sem mynda um 300 metra langa röð, frá suðri til norðurs. Nyrsti hóllinn er Spanarhóll, enda langhæstur og veglegastur, 25 metra hár. Frá honum liggur svo álíka langur hryggur til norð-norð-austurs og skiptist í ógreinilega hóla. Stuðlaberg er í öllum hólunum fjórum.Talið er að refir eigi greni í öllum hólunum. Syðsti hóllinn er lægstur en einna fjölbreytilegastur.
Stefna hólaraðarinnar og lögun hólanna bendir til þess að þarna hafi gosið í stuttri eldsprungu, líklega undir jökli eða í jökullóni.
Örnefnið Spanarhóll er ekki skiljanlegt nútímafólki en er líklega dregin af forníslenska nafnorðinu spann, sem var einhverskonar fata og mælieining fyrir korn o.fl. Örnefnið er því líklega dregið af líkingu við fötu á hvolfi, og stemmir það a.m.k. nokkuð vel við lögun Spanarhóls.

Huldufólk í Spanarhóli
Sagan segir að systkini Magnús og Sigríður frá Merki hafi farið á grasafjall á Heiðinni. Eitt sinn lentu þau í þoku og villtust frá öðru fólki og lentu austur að Spanarhóli sem þau könnuðust við af afspurn. Þar var gnótt fjallagrasa og laumuðust þau síðan að hólnum til grasa hvenær sem færi gafst. Fór svo fram tvö sumur og grösuðu engir eins vel og þau systkinin. Þriðja sumarið brá svo við að þau komu ekki aftur úr grasaferðinni og fundust ekki þrátt fyrir mikla leit um alla heiðina. Dreymir þá móður þeirra að Sigríður komi til sín og segi, að tilgangslaust sé að leita þeirra. "Er þér það satt að segja að við erum numin af huldufólki. Vil ég biðja þig að fyrirgefa okkur, en hvergi hefur okkur liðið betur en þar. Ég legg hér bréf sem þú skalt lesa. Mun það skýra nákvæmlega þennan atburð." Síðan þótti henni hún hverfa sér en bréfið lá þar eftir. Í bréfinu kom fram að þau systkin væru hjá huldufólki í Spanarhólnum sem þau höfðu tekið ástfóstri við. Margt fólk sögðu þau að væri, bæði í Spanarhól sjálfum og hólum og hæðum þar í kring. Fleiri bréf fékk móðir þeirra frá þeim systkinum og kom svo að þau giftust bæði í Hulduheimum og áttu afkomendur. Sagt var að Sigríður kæmi nokkrum sinnum til Hofteigskirkju eftir þetta en ekki tókst mönnum að ná tali af henni, því hún hvarf jafnan meðan útgöngusálmur var sunginn. Er líklegt að afkomendur þeirra systkina sé enn að finna í Spanarhóli og nágrenni.

 

  • Last updated on .
  • Hits: 846