Skip to main content

Múlakollur

Þingmúli skiptir Skriðdal í norðurdal og suðurdal en þjóðvegur 95 liggur um suðurdal yfir í Breiðdal. Bærinn Þingmúli var helsti þingstaður Austfirðinga um nokkrar aldir og eru Múlasýslur nefndar eftir honum. Múlakollur er fremsti hluti Þingmúla. Gengið frá skilti beint upp hrygginn. Síðan er gaman að ganga inn fjallið og niður austan megin nokkuð innan við Múlastekk.  Á þeirri leið má sjá falllegt kubbaberg. Einnig er hægt að ganga inn með fjallinu að austanverðu og upp frá Múlastekk.

Vegalengd og hækkun: 6 km. og 400 m. hækkun

GPS hnit: (N65°01.624-W14°38.049)

Fjallið Múli er nafngjafi hins forna Múlaþings í þeim skilningi, að af Múlanum er nafn þess dregið, svo og Múlasýslna. Þar var þingstaður að fornu og getið vorþings þar á einum stað í Droplaugarsonasögu. Múlakollur er fremsti hluti Múlans (538 m) . Múlakoll ber hátt yfir miðja Skriðdalssveit og er höfuðprýði hennar. Múlakollur er mjög sérstætt fjall og ólíkt öðrum fjöllum á Héraði, með áberandi berghlaupum, steingervingum og fleiru.
Hér uppi er fjallið kollaga en austan og vestan í því eru hamrabelti, þar sem koma fram sérkennileg berglög, mjög þykk kubbabergslög neðan til en ofar þunn og stuðluð lög, ýmislega sveigð. Veglegust er norðvesturhliðin sem minnir á síamskt hof. Þar eru björgin skoruð af sprungum og heitir sú stærsta Gjá. Innan við hana er stallur , sem kallast Lambatorfa og Fálkabjarg innar, um 80-90 m hátt þverhnípi úr kubbabergi. Þar hefur orðið berghrun og liggja risastór stykki í hlíðinni fyrir neðan. Að norðan er fjallið með lágum og hallandi klettum, og á NA-öxl er Klaufin, þar sem fært er uppgöngu. Niður frá henni gengur Hryggur úr jökulruðningi út undir Þingmúlabæ. Austurhlíð Múlakolls er öll meira eða minna hlaupin fram og má greina þar 2 til 3 urðarhrúgöld. Það syðsta er langstærst og kallast Múlastekkshraun.Ofan við hraunið er geysimikil hamraskál, Stóribotn, með graslendi og tveimur tjörnum.
Urðarhraun er ennað berghlaup úr austurhlíð Múlakolls utan til, aðskilið hinu af hrygg sem Röðlar kallast. Rauðaskriða er hár stallur neðan við björgin.
Múlakollur er líklega á jaðri hinnar miklu eldstöðvar sem oft er kennd við Þingmúla, en hér er nefnd "Hjálpleysueldstöð", og virðast hin þykku kubbabergslög og stuðlabergið hafi orðið til við hraunrennsli ofan í dalkvos með stöðuvatni. Svipaðar berggerðir er helst að finna í Dyrfjöllum

Heimildir: Ólafur Jónsson: Berghlaup. Ak. 1976: 121-125. Helgi Hallgrímsson: Múlakollur í Skriðdal. Austri, jólablað 1997. Hjörleifur Guttormsson: Austfjarðafjöll, 1974. Sveitir og Jarðir í Múlaþingi.

  • Last updated on .
  • Hits: 2124