Skip to main content

Eiríksstaðahneflar

Gengið frá skilti við Þverá innan við Eiríksstaði á Fremri-Hnefil (947 m). Þar er hólkurinn með gestabók og stimpli. Síðan er gengið á Ytri Hnefil (922 m) ef vilji er til og niður í Eiríksstaði. Gaman er einnig að ganga að Hneflaseli, sem fór í eyði 1875 og halda síðan til baka milli Hneflanna niður í Jökuldal.

  • Vegalengd og hækkun: 10 km og 650 m. hækkun
  • GPS hnit: (N65°08.617-W15°28.195)

 

Eiríksstaða-Hneflar á Jökuldalsheiði

Eiríksstaða-Hneflar eru tvö há fell, kollótt að lögun sem sjást víða að og er því útsýnið gott af þeim. Syðra fellið er 947 m og það nyrðra 922 m. Í Landnámu er talað um Knefla og gæti það verið upphaflega nafngiftin.

Lítið eitt til norðaustur eru miklir flóar sem nefndir eru Eiríksstaða- og Hákonarstaðaflóar og norðan þeirra Þórfell (705 m) Kiðufell (720 m) og Arnórsstaðahnjúkur (636 m).

Norður af Hneflunum á Jökuldalsheiðinni eru daldrög með gras- og sléttlendi og er Víðidalur þeirra mestur. Hásléttan afmarkast í vestri af Þríhyrningsfjallgarði með Þríhyrning (958 m) sem er mjög góður útsýnisstaður.

Fiskidalsháls (629 m) liggur vestur af Eiríksstaða-Hneflunum og syðst í honum er hnjúkur sem heitir Múli (704 m). Þarna er grýtt og berangurs-legt. Upp af Brú eru Brúarurðir og Grænaöxl (622 m).

Ætla má að búið hafi verið á Jökuldal hið efra allt frá landnámi því sögur benda til að Eiríkur morri hafi verið kominn til staðfestu á Eiríksstöðum litlu eftir 900. Hásléttan ofan brúna hefur verið harðbýl og voru kotin þar yfirleitt yfirgefin eftir aðeins nokkurra ára búsetu.

Á Jökuldalsheiðinni eru ummerki eftir stærstu heiðabyggð hérlendis. Þar eru víðáttumikil gróðurlendi og stór veiðivötn í yfir 500 metra hæð og má þar nefna Gripdeild, Ánavatn og Sænautavatn. Hneflasel kúrir undir Hneflunum austanmegin með Hneflaflóa í vestur. Háls var norðaustur af Hneflum í 585 m hæð sem mun hafa verið hæst byggðra bóla á landinu. Þar var búið á árunum 1859 til 1863 eða 64. Heiðarsel, gegnt Hneflunum, var síðasta býlið sem búið var á og fór það í eyði árið 1946.

Ekki aðeins veðurfar heldur náttúruhamfarir eins og eldgos hafa valdið búsifjum og hafa heiðarbýlin orðið verst úti. Má nefna að á 14. öld lögðu þrjú stór eldgos alla byggð í eyði á þessum slóðum. Síðasta stóra gos sem hafði mikil áhrif var Öskjugosið 1875 og má enn sjá ummerki þess,
___________________________________________________________
Heimildir:
Eiríksstaðir á Jökuldal, grein eftir Benedikt Gíslason frá Hofteigi; Múlaþing, 6. hefti – 1971.
Frá Valdastöðum til Veturhúsa, Björn Jóhannsson; 1964.
Árbók Ferðafélags Íslands; 1987.

Perla

  • Last updated on .
  • Hits: 2377