Víknaslóðir

Víknaslóðir eru göngusvæði sem engan svíkur. Þar blandast saman fallegir firðir og víkur, líparítfjöll og glæsileg fjallasýn hvert sem litið er. Á göngusvæðinu er hægt að finna net stikaðra gönguleiða við allra hæfi. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs á og rekur þrjá skála á Víknaslóðum. Í Breiðuvík, í Húsavík og í Loðmundarfirði. Einnig er hægt að tjalda við hvern skála.

Víknaslóðir og Dyrfjallasvæðið með Stórurð njóta vinsælda umfram allt vegna landslags og náttúru. Þetta er jaðarsvæði á Íslandi, sem þýðir að hér ertu að upplifa þig nokkuð einan með náttúrunni. Leiðarkerfi merktra leiða nær yfir 150 km og er net fjölbreyttra leiða og ólíkra. Hér er göngufólk ekki endilega að ganga eina fyrir­fram ákveðna leið, heldur velja menn leiðir milli skála eftir veðri og erfiðleikastigi. Svæðið býður upp á mjög mikla landfræðilega fjölbreytni. Hér er gengið um gríðarstóra forna megineldstöð og það þýðir að hér er mikið af ljósum líparít og flikrubergsfjöllum, í bland við hin meira þekktu austfirsku og hraunlaga­skiptu basaltfjöll. Dyrfjöllin og svæðið kringum þau er svo ævintýri líkast og á sér enga hliðstæðu á Íslandi. Þar er Stórurð helsta djásnið. Þar hvíla risavaxin þursa- og móbergsbjörg úr hlíðum Dyrfjalla á víð og dreif og fylla þannig dalbotn Urðardals sem liggur undir Dyrunum héraðsmegin. Inn á milli bjarganna eru svo rennisléttir setbalar og fagurgrænar jökulár og lækir. Þessi fjölbreytileiki landslags ásamt góðum innviðum er aðalástæða vinsælda Víknaslóða.

Umsjón gönguleiða á Víknaslóðum er í höndum Ferðamálahóps Borgarfjarðar eystra en það starf er unnið í góðu samstarfi við Ferðafélag Fljótsdalshéraðs. Síðan 2018 hafa þessi tvö félög staðið fyrir landvörslu á svæðinu yfir sumarmánuðina til að vinna markvisst að sjálfbærni Víknaslóða sem ferðamannastaðar. 

               

Nánari upplýsingar um Víknaslóðir eru á www.borgarfjordureystri.is 

Myndir: Tómas Guðbjartsson og Hafþór Snjólfur Helgason.

Við erum á Facebook