Perlur Fljótsdalshéraðs

Perlur Fljótsdalshéraðs eru 30 fallegir og fjölbreyttir áfangastaðir á Héraði sem Ferðafélag Fljótsdalshéraðs hefur sérvalið á síðustu árum. Perlurnar eru af ýmsum toga; fossar og vötn, gil og gljúfur, smáhellar, víkur, fjöll og fjallstoppar með útsýni til allra átta. Sumar leiðir taka stutta stund en aðrar allan daginn og ætti öll fjölskyldan að geta fundið gönguleið við sitt hæfi. Hér til hægri á síðunni eru nánari upplýsingar um allar Perlurnar og hefur einnig verið gefinn út ítarlegur bæklingur sem er ómissandi að taka með sér í gönguna. Bæklinginn er að fá á upplýsingamiðstöðvum og svo er hægt að sækja hann í vefútgáfu hér á heimasíðunni.

Gönguleikur

Við hverja Perlu er hólkur sem inniheldur upplýsingar um staðinn ásamt gestabók og stimpli. Með því að stimpla í sérstakt stimpilkort, taka göngugarpar þátt í skemmtilegum gönguleik en safna þarf 10 stimplum til að fylla kortið. Hægt er að kaupa þessi kort í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum, á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8 Egilsstöðum, á Egilsstaðastofu við tjaldsvæðið á Egilsstöðum og í gönguferðum á vegum ferðafélagsins. Kortum skal skilað á sölustaði stimpilkortanna þegar búið er að sækja sér 10 stimpla frá mismunandi Perlum.

Dregið er úr innsendum kortum í byrjun október ár hvert og eru í pottinum veglegir vinningar.

Stuðlagil - Perla #30

Við erum á Facebook