Arnarvatn/Skálamór

ArnarvatnArnarvatn (420 m) stendur í stórri kvos, sem nefnist Brunahvammskvos.  Yst í kvosinni er samnefnt vatn.  Kvosina myndar að austan Kálffell en í suðri Brunahvammsháls og Súlendur gnæfa yfir.  Frumbýlingar voru Jón Jónsson og Sigurbjörg Sigurðardóttir 1867. Fyrrum var Arnarvatn í alfaraleið frá Möðrudal og norðanverðri Jökuldalsheiði til Vopnafjarðar.  Nú er hægt að ganga af þjóðvegi 85 annað hvort innan við Kálffell, en þá þarf að vaða kíl við bæinn, eða frá stíflu sem er við útfall vatnsins.  Þá er gengið inn með vatninu.  Hægt er að aka að stíflunni ef menn vilja og raunar alveg heim að bæ, en það er þess virði að ganga inn með vatninu, njóta kyrrðarinnar og fylgjast með fuglalífinu.  Upplagt er að fá sér vatn úr uppsprettulind sem er framan (innan) við bæinn.  Á Arnarvatni stendur gangnamannakofi sem smalar í Hauksstaðaheiði nýta.  Arnarvatn fór í eyði 1935.


(21) GPS hnit (N65°35.29 - W15°24.05)

...

Við erum á Facebook