Brunahvammur - Ítarefni og ábúendatal

Brunahvammur var hjáleiga Bustarfells, fylgijörð og lengst af í eigu Bustarfellsbænda. Fyrrum var bærinn nefndur Brúnahvammur og þá kenndur til hálsbrúnirinnar ofan við bæinn en nú á annað hundrað ár hefur tíðkast að kalla hann Brunahvamm með vísan til fellsins Bruna sem stendur í Tunguheiði handan Hofsár gegnt bænum. 

Brunahvammur þótti ágætis jörð að fornum fari, sumarbeit góð, nægt og grasgefið slægjuland en sumt nokkuð langsótt.  Þetta ásamt erfiðri fjárgeymslu gerði jörðina mannfreka og má furðu gegna að einsetumaður hafi búið þar líkt og Gissur Gissurarson gerði á fyrri hluta 19. aldar.

Meðal ábúenda voru frábærir hagleiksmenn eins og Þórður Guðmundsson sem var snillingur í smíði og útskurði og Páll Jónsson söðlasmiður sem síðar bjó á Mælifelli. En orðsins list átti einnig sína fulltrúa í Brunahvammi því Valdimar Jóhannesson og Guðfinna skáldkona Þorsteinsdóttir (Erla) bjuggu þar í 5 ár og sonur þeirra, Þorsteinn skáld var fæddur þar 1918.

Nokkuð samfelldur búskapur var í Brunahvammi á 19. öld en erfiðlega gekk að byggja hana á fyrstu árum þeirrar 20. þrátt fyrir faguryrtar auglýsingar í Austra 1903 og 1909.

Ekki er víðsýninu fyrir að fara af Brunahvammshlaði, að baki gnæfa brúnir Brunahvammsháls og handan ár rís Bruni, brattur og gróðurber. Til norðausturs má sjá Fríðufell handan Hofsár og Bæjaröxl til norðurs en Gestreiðarstaðaaxlir til suðvesturs og er þá nokkurn vegin upptalið.

Hinn 14. ágúst 1831 féll 13 ára smalapiltur frá Brunahvammi Þorleifur Þorleifsson af hestbaki og beið þegar bana. Þar sem slysið varð heitir síðan Þorleifsgróf. Þjóðsagan segir að líkið hafi verið borið til bæjar og lagt til í eldiviðarkofa. Er ekki að orðlengja það að Þorleifur gekk þegar aftur ljósum logum og sáu hann jafnt freskir sem ófreskir hvort sem var á nóttu eða björtum degi. Gerði hann mönnum ýmsar glettur. Til dæmis varð það veturinn 1916-17 þegar Bjarni Þorgrímsson bjó einn í Brunahvammi að hann kom heim seint að kvöldi í vonskuveðri að Þorleifur ólmaðist svo í bænum að Bjarni kaus heldur að híma úti þar til dagaði en ganga til fundar við hann og var hann þó ekki talinn neinn veifiskati. Þorleifur bekktist ekki til við Stefán Alexandersson heldur stóð álengdar og glennti sig og geiflaði í átt til hans. Ekki er talið örgrannt um að Þorleifur sé enn á slangri við bæjartóftirnar í Brunahvammi.

Ábúendatal:

1807-1811:  Jón Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir

1820-1831:  Gissur Gissurarson, vinnumaður frá 1832 - 1844 en það lést hann. 

1832:     Þórður Guðmundsson og Anna Pétursdóttir

1833:  Jón Guðmundsson og Þórunn Ólafsdóttir.

1834-1841: Bjarni Bjarnason og Guðrún Arngrímsdóttir.

1842-1853: Þórður Guðmundsson og Guðrún Arngrímsdóttir.

1854-1860: Þórður Þórðarson og Kristín Sveinsdóttir

1861:   Þórarinn Sigfússon og Guðný Björnsdóttir

1864-1866: Jón Björnsson og Ingunn Jóhannsdóttir

1874-1875: Jón Jónsson og Mekkin Torfadóttir (Flutti til Vesturheims)

1876: Jón Einarsson og Hermannía Jónsdóttir (Flutti til Vesturheims)

1877-1879: Magnús Mikaelss. og Sigurbjörg Kolbeinsd. (Flutti til Vesturheims)

1880-1882: Magnús Rafnsson og Björg Þorsteinsdóttir

1884-1886: Bjarni Helgason og Þuríður Halldóra Bjarnadóttir

1889-1891; Sigurjón Sigurðsson og Ragnhildur Jónsdóttir

1893-1901: Páll Jónsson og Margrét Eiríksdóttir (later Mælifell)

1901-1903: Pétur Kristjánsson

1903-1904:  Í eyði

1904-1909: Sigtryggur Þorsteinsson

1909-1913:  Í eyði

1913-1917: Bjarni Þorgrímsson (Veturhús)

1917-1922: Valdimar Jóhannesson

1917-1919: Jóhannes Jóhannesson

1922-1924:   Í eyði

1924-1931: Stefán Alexandersson

1931-1945:  Björgvin Stefánsson og Sigurjón Stefánsson 

Við erum á Facebook