Gleðilegt nýtt ár öll sömul, takk fyrir samskiptin og samveruna á síðasta ári.
Hér er ný ferðaáætlun félagsins fyrir 2019. Hún mun birtast í dagatali okkar hér á síðunni á allra næstu dögum.
Ferðafélag Fljótsdalshéraðs
Heimasíða: www.ferdaf.is
Fésbók: Ferðafélag Fljótsdalshéraðs
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Sími: 863 5813
Allar sunnudagsgöngurnar: Verð: 500. Mæting við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8 á Egilsstöðum. Fólk er hvatt til að taka þátt í perlu gönguleiknum.
Hjálpleysa-Valtýshellir (perla) 2 skór
5. maí, kl. 10. Valtýshellir er lítill skúti innan við urðar-rana skammt innan af Hjálpleysuvatni. Gengið frá þjóðvegi 95 austan (utan) við Gilsá. Farið er framhjá rústum Hátúna, en það var myndarbýli í árdaga. Þaðan er gengið í Hjálpleysu, sem er þröngur dalur á milli Sandfells og (Hátúna)-Hattar í Skriðdal.
Ekkjufell í Fellum 1 skór
12 maí, kl. 10. Ekkjufell í Fellum. Ekið að Vínlandi og þaðan gengið á Ekkjufell og Grettistak skoðað. U.þ.b. 3 klst. ganga fyrir fjölskyldu.
Brimnes við Seyðisfjörð 1 skór
19. maí, kl. 10. Keyrt er 10 km frá miðbænum á Seiðisfirði, út að bóndabænum Selsstöðum. Þaðan er gengið eftir gömlum jeppaslóða. Brimnes er út í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Á öldum áður var það ein öflugasta útgerð sem fyrirfannst á austfjörðum. Tóftir gamalla bygginga má sjá þar í einstaklega fallegu umhverfi, þar er einnig viti. Gönguferð í góðu veðri er þeim ógleymanleg sem hana fara.
Múlakollur (perla) 2 skór
26. mai, kl. 10. Ekið að Þingmúla í Skriðdal. Múlakollur er fremsti hluti Þingmúla, sem skiptir Skiðdal í norðurdal og suðurdal. Bærinn Þingmúli var helsti þingstaður Austfirðinga um nokkrar aldir og eru Múlasýslur nefndar eftir honum.
Hengifoss (perla) 1 skór
2. júní, kl. 10. Þriðji hæsti foss landsins 128m hár í Hengifossá. Gengið frá bílastæði, hækkun um 300 metrar. Á leiðinni upp sést eitt hæsta stuðlaberg landsins við Litlanesfoss.
Fjölskylduferð í Húsey (perla) 1 skór
9. júní, kl. 10. Ekið á einkabílum frá Ferðafélagshúsinu Tjarnarási 8, Egilsstöðum, út í Húsey. Gengið er um sléttuna utan við Húseyjarbæina. Frítt fyrir 14 ára og yngri.
Landsendi (perla) 1 skór
16 júní, kl. 10. Gengið frá þjóðvegi (áður en haldið er upp á Heillisheiði) við Biskupshól út að Keri, sem er forn verstöð og þaðan út á Landsendahorn. Þaðan er afar fallegt útsýni yfir Móvíkur, tvær víkur, sem eru næst fyrir utan Landsenda og mynda stórar geilar inn í strandfjöllin.
Sólstöðuganga í Stapavík (perla) 1 skór
21. júní, kl. 20. Mæting við hús Ferðafélagsins Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Þaðan er ekið að Unaósi. Gengið frá bílastæði við heimkeyrsluna að Unaósi, út með Selfljóti. Fararstjóri: Stefán Kristmannsson. Verð: 500. Frítt fyrir 14 ára og yngri.
Treglugil á Jökuldal 1 skór
23 júní, kl. 10. Tregagil (Treglugil) á Jökuldal, er um 1,5 km innan við bæinn Merki á Jökuldal. Það er hrikalegasta þverárgil á Jökuldal, allt að 100 m djúpt og álíka breitt ofantil. Um gilið fellur Tregagilsá, vanalega kölluð Tregla, og myndar um 30-40 m háan, en dálítið flúðkenndan foss í heiðarbrún, er sést lítið tilsýndar, vegna þess hve gilið er krókótt og þröngt. Ekið að Merki í Jökuldal, þaðan er gengið í Treglugil. Fararstjóri: Lilja Óladóttir.
Svartfell, Borgarfirði Eystri 2 skór
30. júní, kl. 9. Gengið upp á tind Svartfells (510m) Brúnavíkurmegin. Fallegt útsýni er af toppnum yfir Borgarfjörð og Brúnavík. Á toppnum er að finna gestabók sem allir eiga að skrifa í. Farið er sömu leið niður af fjallinu. Svartfellshlíðarnar eru fallegt framhlaup sem hefur myndast einhvern tímann eftir síðastliðna ísöld. Þetta er leið 25 í ágætu göngukorti um Víknaslóðir. Fararstjóri: Sighvatur Sighvatz
Stuðlagil 1 skór
7 júlí, kl. 10. Stuðlagil er eitt af stærri stuðlabergssvæðum landsins og er í árfarvegi Jökulsár í Dal. Merktar gönguleiðir eru frá bænum Grund í Jökuldal, tvær gönguleiðir eru að gilinu sem liggja að mismunandi útsýnisstöðum.
Dagsferð á Heiðarbýlin – Þessi klassíska 2 skór
13. júlí, kl. 9. Fararstjóri: Þorvaldur P. Hjarðar.
Gengið á tíu Heiðarbýli. Farið verður á bílum á milli og gengið að hverju býli. Gangan í hvert skipti er ekki löng og því er þetta tilvalið fyrir alla fjölskylduna. Gott tækifæri til að fylla stimpilkort og taka þátt í skemmtilegum gönguleik ferðafélagsins. Hjá hverju býli er hólkur sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því ásamt gestabók og stimpli fyrir stimpilkortin. Býlin sem verða heimsótt í þessari ferð eru: Ármótasel, Háreksstaðir, Fagrakinn, Kálffell, Brunahvammur, Rangalón, Grunnavatn, Heiðasel og endað í Sænautaseli. Brottför kl. 9 frá Tjarnarási 8 á einkabílum. Verð 8.000/7.000. Innifalið: Fararstjórn, stimpilkort og kvöldmatur í Sænautaseli.
Krossanes úr Vöðlavík (perla) 1 skór
14. júlí, kl. 9. Ekið á einkabílum frá Ferðafélagshúsinu Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Ekið að Kirkjubóli í Vöðlavík og gengið þaðan að Krossanesi. Fararstjóri: Sigurjón Bjarnason.
Skælingur 2 skór
21. júlí, kl. 9. Skælingur er klettafjall á milli Loðmundarfjarðar og Húsavíkur í Víkum. Fjallið er svipmikið og sést langt af hafi. Það hefur stundum verið nefnt kínverska hofið þar sem klettaborgin efst minnir á steinrunnið kínverskt musteri. Ekið á Borgarfjörð, og þaðan á Nesháls á milli Húsavíkur og Loðmundarfjarðar. Þaðan er gengið á Skæling. Fararstjóri: Stefán Kristmannsson.
Víknaslóðir 3 skór
24. – 27. júlí, 4 dagar. Fararstjóri: Þórdís Kristvinsdóttir.
1.d. Ekið kl. 9 frá Fjarðarborg. Borgarfjörður-Brúnavík-Breiðavík.
2.d. Breiðavík-Húsavík.
3.d. Húsavík-Klyppstaður.
4.d. Klyppstaður um Kækjuskörð til Borgarfjarðar.
Verð: 46.500/43.000. Innifalið: Fararstjórn, skálagisting og trúss. Lágmark 10 manns. Skráningu lýkur 10. júlí.
Búrfell 2 skór
28. júlí, kl. 10. Búrfell (265 m hæð). Ekið að Fossvöllum við þjóðveg 917 (hlíðarvegur) , utan Brúarásskóla. Frá Fossvöllum er gengið upp með Laxá og síðan Hólmá sem rennur úr Búrfellsvatni. En Búrfellsvatn er ofan við Búrfellið. Fararstjóri: Jón Óli Benediktsson.
Stórurð (perla) 2 skór
4. ágúst, kl. 9. Stórurð er án efa eitt stórfenglegasta náttúrufyrirbrigði á Austurlandi og þó víðar væri leitað en talið er að hinar stóru steinblokkir sem einkenna hana hafi fallið niður á ís og hann síðan flutt þær fram dalinn og mótað þannig þessa undraveröld. Hinu sérstæða landslagi Stórurðar er erfitt að lýsa með orðum, en það er vissulega stórbrotið, sléttir grasbalar og hyldjúpar tjarnir innan um stór björg á hæð við fjölbýlishús. Yfir öllu þessu gnæfa tignarleg Dyrfjöllin. Fararstjóri: Þorsteinn Bergsson.
Hvannárgil (perla) 2 skór
11. ágúst, kl. 9. Hvannárgil er röð gila við Kverkfjallaveg. Afar falleg gil með fjölbreyttum klettamyndunum. Í mið gilinu er falleg hvelfing sem gaman er að skoða. Efsta gilið er mjög stórbrotið og endar í fallegum fossi. Ekin Kverkfjallaleið inn að Hvanná, gengið frá skilti við Kverkfjallaveg F905. Hringleið frá Kjólsstaðaskoru um Vatnsstæði, inn í Hvannárgil neðsta og gegnum þau öll til enda. Fararstjóri: Vernharður Vilhjálmsson.
Víknaslóðir – krakkaferð, I. hluti 2 skór
17.-19. ágúst. Fararstjóri: Þórdís Kristvinsdóttir.
Þessi ferð er sérstaklega hugsuð fyrir fjölskyldur og yngri kynslóðina. Farið verður á eigin bílum.
1.d. Ekið kl. 9 frá Fjarðarborg. Gengið frá Borgarfirði til Breiðuvíkur í gegnum Brúnuvík.
2.d. Gengið frá Breiðuvík og yfir í Húsavík þar sem hópurinn sameinast í bíla og fer tilbaka á Borgarfjörð. Verð: 10.000 fyrir fullorðna, börn undir 18 ára fá frítt.
Innifalið: Fararstjórn, skálagisting og túss. Lágmark miðast við tíu þátttakendur. Skráningu lýkur 4. ágúst. Stefnt verður að II. hluti verði farin sumarið 2020.
Þerribjörg (perla) 3 skór
18. ágúst, kl. 9. Þerribjörg er staðsett á Skaganum milli Vopnafjarðar og Héraðsflóa. Klettarnir eru einn af litríkustu sjó klettunum á Íslandi, gulir, appelsínugulir og svartur, skríða þeir fram af heiðinni ofan í grænbláan sjóinn. Ekið út á Hellisheiði og vegslóða að Kattárdal.
Dagsferð á Heiðarbýlin – Útheiðin 2 skór
24. ágúst, kl. 9. Fararstjóri: Þorvaldur P. Hjarðar.
Gengið á tíu Heiðarbýli. Farið verður á bílum á milli og gengið að hverju býli. Gangan í hvert skipti er ekki löng og því er þetta tilvalið fyrir alla fjölskylduna. Gott tækifæri til að fylla stimpilkort og taka þátt í skemmtilegum gönguleik ferðafélagsins. Hjá hverju býli er hólkur sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því ásamt gestabók og stimpli fyrir stimpilkortin.
Býlin sem verða heimsótt í þessari ferð eru: Arnarvatn, Desjamýri, Kálffell, Brunahvammur, Fagrakinn, Lindasel, Háreksstaðir, Hlíðarendi, Ármótasel og endað í Sænautaseli. Brottför kl. 9 frá Tjarnarási 8 á einkabílum. Verð 8.000/7.000. Innifalið: Fararstjórn, stimpilkort og kvöldmatur.
Spanarhóll (perla) 2 skór
25. ágúst, kl. 10. Spanarhóll er áberandi stuðlabergshóll í svonefndum Fjórðungi í Heiðinni út og upp af Ormarsstöðum. Innan við hann eru þrír lægri hólar með stuttu bili í beinni röð, einnig úr stuðlagrjóti, sem er meira eða minna brotið upp og myndar stórgrýtta urð. Óreglulegt stuðlaberg kemur einnig fram í Fjórðungshálsbrún, vestur af Spanarhól. Spanarhóll er vel þekktur huldufólksstaður. Ekið inn Fellin að Refsmýri, þaðan er gengið að Spanarhóli.
Lónsöræfi 3 skór
26. - 29. ágúst. 4 dagar. Fararstjóri: Þórdís Kristvinsdóttir.
Ganga í stórkostlegu umhverfi um ein afskekktustu öræfi landsins. Litríkar og fjölbreyttar jarðmyndanir setja svip sinn á svæðið sem lætur engan ósnortinn.
1.d. Ekið kl. 8 með rútu frá húsi Ferðafélags Fljótsdalshéraðs Egilsstöðum. Eyjabakkar-Geldingafell.
2.d. Geldingafell-Vesturdalur-Egilssel.
3.d. Egilssel-Víðidalur-Tröllakrókar-Múlaskáli.
4.d. Múlaskáli-Smiðjunes.
Verð: 54.500/51.000. Innifalið: Fararstjórn, akstur og skálagisting. Lágmark: 10 manns. Skráningu lýkur 12. júlí.
ATHUGIÐ að við munum endurskoða dagsetninguna fyrir þessa ferð á Lónsöræfi og látum vita þegar það er klárt.
Strútsfoss (perla) 1 skór
1. september, kl. 10. Strútsfoss í Strútsá steypist fram af brúnum Villingadals sem gengur inn af Suðurdal. Fossinn telst með þeim hærri á landinu en hann er tvískiptur. Neðri hluti hans er um 100 metra hár og sá efri um 20 metrar. Neðan fossins fellur áin í djúpu gili, Strútsgili, og sameinast Fellsá litlu neðar. Að öllum líkindum draga áin og fossinn nafn sitt af strýtulaga klettadrangi eða dröngum í gilinu. Strútsgil er afar litfagurt en í því skiptast á basalthraun og setlög sem eru tugir metra á þykkt. Mikið er um rauð og gulbrún millilög og líparít má sjá á einum stað. Innri-Þverá fellur ofan í gilið skammt frá Strútsfossi og myndar fallega fossaröð. Gönguleiðin að Strútsfossi liggur fá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er býsna langt inn dalinn.
Bjargselsbotnar (perla) 1 skór
8. september, kl. 10. Bjargselsbotnar er gönguleið ofan við Hallormstaðarbæinn. Gönguleiðin er undir endilöngu Hallormsstaðabjargi. Fallegt útsýni er yfir skógi vaxin Hallormstaðarsvæðið og Fljótsdal. Ekið að Hallormsstað og gengið frá Hússtjórnarskólanum og fylgt stikum sem eru ljósgrænar að lit.
(Hátúna) Höttur 2 skór
15. september, kl. 10. Höttur (Hátúnahöttur) er tignarlegt fjall, sem rís upp af fjallshryggnum milli Austur-Valla og Fagradals, og er af mörgum talinn bæjarfjall Egilsstaða. Gengið frá skilti austan (utan) við Gilsá í átt að Grjótánni aðeins utan við Víðihjalla og upp með ánni. Áfram upp á Hattarhólana og síðan beygt inn eftir og upp á Höttinn (1106 m).
Grjótgarðurinn ofan Hjarðarhaga 2 skór
22. september, kl. 10. Grjótgarður er í Hjarðarhagaheiði, liggur frá efsta fossi í Sauðá (Urðarfossi) norðaustur heiðina í átt að Teigará, sem er um 3-4 km. Garðurinn er hruninn að mestu en þó vel greinilegur, einnig sjást hlutar garðsins við Teigará neðan vegar.
Gönguleiðin að Grjótgarðinum er frá vegamótum Hnefilsdalsvegar 924 innan Hjarðarhaga og er bílum lagt við vegamótin neðan vegar nr.1. Farið er í gegnum hlið á girðingu ofan vegar og stefnt á neðsta foss í Sauðá, Sitjanda sem myndin er af, síðan upp með Sauðánni upp á dalbrún þar til komið er að Grjótgarðinum. Nokkrir fallegir fossar eru á gönguleiðinni.
Stuttidalur 2 skór
29. september, kl. 10. Stuttidalur liggur í austur á milli Hallbjarnarstaðatinds og Haugafjalls. Haugahólar eru geysi mikið berghlaup, eitt hið stærsta á Íslandi, sem fallið hefur úr Haugafjalli milli Stuttadals og Vatnsdals. Gönguleiðin er stikuð og fer hún upp að fallegri tjörn skammt innan við Sjónarhraunið. Upplagt að fara yfir ána og ganga um Haugahólana til baka niður að þjóðvegi. Gengið frá skilti, sem er við gönguhlið rétt við þjóðveginn utan við Haugaána.