Skip to main content

Melur

Nýbýlið var byggt 1848 og töldu býlisstofnendur sig byggja í almenningi, en presturinn á Hofi var á öðru máli og reis af þessu mikið málaþras, sem nýbýlingarnir töpuðu og gékk jörðin til Hofskirkju. Frumbyggjar á Mel voru Jón Guðmundsson, Mývetningur að ætt og Steinunn Torfadóttir frá Arnkelsgerði, Torfasonar. Melur var í byggð til 1904 en mun þó hafa verið í eyði örfá ár á tímabilinu. Á Mel er leitarmannakofi.

(16) GPS hnit N65°28.24 - W15°26.95)

Melur - Ítarefni og ábúendatal

Nýbýlið Melur var byggt árið 1848 og töldu býlisstofnendur sig byggja í Almenningi. Presturinn á Hofi og Dvergasteini voru  á öðru  máli og reis af þessu mikið málaþras sem nýbýlingarnir töpuðu og gekk jörðin til Hofskirkju. Ábúendur þurftu að greiða 2 kindur, 5 kg af ull og 10 kg af tólgi í leigu á ári til kirkjunnar. Steinunn, dóttir Torfa Torfasonar í Arnkelsgerði og Jón, sonur Guðmundar sem ættaður var frá Mývatni voru fyrstu ábúendur Mels.

Melur hét í fyrstu heimildum Melar og var í ábúð í 56 ár fyrir utan örfá ár sem býlið var í eyði. Í einhver ár voru tvö býli á Mel. Jörðin var nokkuð góð bújörð og gáfu heimahagarnir nóg hey fyrir eina kýr og nægt gras til slátta. Í dag stendur leitarmannakofi á Mel fyrir þá sem smala Tunguheiði.

Frá Mel er fallegt útsýni til suð-vesturs, vesturs og norð-vesturs. Á bak við býlið til suðurs er Sauðafellsháls, Sauðafell og Háreksstaðaháls. Einnig sérðu Gestreiðastaðakvísl og Gestreiðastaðaaxlir og til vesturs sést hvernig áin Kollseyra og Gestreiðastaðakvísl renna saman og mynda Hofsá. Þar lengra er Grenisöxl og enn lengra fjallið Þjóðfell. Hinu megin við Hofsá er Kinnarland, þá Hölkná og síðan Brunahvammsháls. Yfir sunnanverðum Brunahvammshálsi sést í Súlendur. Fjallið Bruni sést svo í norðri, austan við Hofsá.

Þann 29. janúar 1894 fór Sigurbjörn bóndi á Mel eftir mjólk yfir í Háreksstaði, en kona hans Guðlaug og tvö börn urðu eftir heima. Hann stoppaði stutta stund á Háreksstöðum áður en hann dreif sig heim aftur.  Þegar ábúendur á Háreksstöðum töldu að hann hlyti að vera hálfnaður á heimleið, gerði slæmt veður með snjóbyl. Ábúendur á Háreksstöðum töldu þó líklegt að hann næði heim.

Guðlaug, kona Sigurbjörns var mjög áhyggjufull þegar veður versnaði svo skyndilega og vissi að líkur voru á því að maður hennar væri einhversstaðar á milli bæjanna tveggja. Þó vonaði hún að hann hefði ílengst á Háreksstöðum vegna veðurútlits. Þegar veður tók að lægja ákvað hún að fara yfir í Brunahvamm eftir hjálp. Hún sagði börnum sínum að bíða róleg og ekki vera áhyggjufull þó hún kæmi seint heim. Eftir stuttan gang frá bænum sá hún hund þeirra hjóna þar sem hann sat hjá líki Sigurbjörns sem hafði þá orðið úti. Hún fékk sig ekki til þess að fara til hans og fór í Brunahvamm eftir hjálp þar sem hún kom seint um kvöld, aðframkomin af þreytu og angist. 

Daginn eftir, þegar ábúendur Brunahvamms ásamt Guðlaugu komu að Mel, sat sex ára sonur Guðlaugar með tveggja ára systur sína í fanginu og hughreysti.

Guðlaug, börnin hennar og búsmali voru flutt í Brunahvamm og í þrjú ár bjó enginn á Mel. Þann 8. maí 1894 fæddi Guðlaug litla stúlku sem fékk nafnið Sigurbjörg. Hún varð síðar húsfreyja á Hauksstað í Vopnafirði.

Ábúendur:

1848-1863: Jón Guðmundsson og Steinunn Torfadóttir.

1864: Stefán Kristjánsson og Sigurveig Friðriksdóttir

1865-1866: Kristinn Sveinn Jóhannesson og Sigrþrúður Þorgrímsdóttir.

1867: Í eyði

1868-1871: Jón Benjamínsson og Guðrún Jónsdóttir.

1872: Sólveig Eiríksdóttir.

1873: Björn Björnsson og Björg Sigurðardóttir / Jón Jónsson og Sigurbjörg Sigurðardóttir.

1874-1876: Gísli Benjamínsson og Guðbjörg Daníelsdóttir

1876-1885: Sigfús Jósepsson og Valborg Árnadóttir

1885-1887:  Í eyði

1887-1890: Eiríkur Einarsson og Katrín Hannesdóttir.

1890: Þórður Þórðarson og Þóra Margrét Þórðardóttir.

1891-1894: Sigbjörn Jóhannesson og Guðlaug Elsa Sigurðardóttir

1894-1897:  Í eyði.

1897-1904: Sigtryggur Þorsteinsson og Hallfríður Runólfsdóttir.

  • Last updated on .
  • Hits: 1219