Skip to main content

Háreksstaðir

Háreksstaðir voru byggðir úr landi Skjöldólfsstaða í 482 m hæð og voru fyrsta býlið sem reist var í Heiðinni árið 1841. Talið er að þar hafi verið fornbýli. Háreksstaðir voru jafnan taldir eitt besta býlið í Heiðinni og fjölsetnasta, enda var graslendið þar hvað samfelldast og víðáttumest. Frumbyggjar voru Jón Sölvason, bónda á Víkingsstöðum í Skógum og Katrín Þorleifsdóttir, Þorleifssonar frá Stóru-Breiðvík í Reyðarfirði. Nokkrir af ábúendum Háreksstaða og afkomendur þeirra fluttust til Vesturheims. Búið var á Háreksstöðum samfellt til 1923 utan eins árs sem býlið var í eyði. Þar er nú leitarmannaskýli.

(13) GPS hnit (N65°24.28 - W15°25.35)

Háreksstaðir - Ítarefni og ábúendatal

Háreksstaðir sem standa 482 m.y.s. eru byggðir úr Skjöldólfsstaðalandi. Talið er að þar hafi verið búið til forna og hafi bærinn fengið nafn sitt af landnámsmanninum Háreki. Er hans lítillega getið í þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar í frásögn sem talin upprunnin frá  hinni glötuðu Jökuldælu. Munnmæli herma að býlið hafi farið í eyði í svartadauða en hvergi finnst stafur fyrir því.

Hárekstaðir voru fyrsta býlið sem byggt var í heiðinni þegar hið nýja landnám  hófst þar. Frumbýlingar voru Jón Sölvason og Katrín Þorleifsdóttir sem hófu þar búskap 1841. Lengst bjó þar Jón Benjamínsson sem flutti þangað árið 1871 ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur og höfðu þau áður búið á þremur  býlum í Heiðinni. Eftir lát Guðrúnar 1876  kvæntist Jón Önnu Jónsdóttur af Jökuldal.

Oft var gestkvæmt á heimilinu, ekki síst vor og haust, en afréttarlönd Vopnfirðinga  eru  á þessum slóðum og gistu gangnamenn þar jafnan. Jón bjó Háreksstöðum fram til ársins 1903 er hann flutti til Vesturheims  ásamt fjölskyldu sinni að undanskyldum einum syni sem settist að á Íslandi.

Land Háreksstaða er víðlent en mjög votlent og grasgefið. Túnið umhverfis bæinn fór langt með að gefa af sér kýrfóður, en kýr voru sjaldgæfir gripir á heiðarbýlunum. Annar heyskapur var stundaður á engjablettum í úthaga og vegna þess hve votlent er varð oftast að flytja heyið blautt á klökkum heim á tún og þurrka það þar.

Fært var frá ánum á vorin en það orð fór af að hvergi mjólkuðu þær betur eða að mjólkin væri kostameiri en í Heiðinni.

Ein af undirstöðum búskaparins var silungsveiðin og segir Gísli Jónsson einn af sonum Jóns Benjamínssonar í endurminningum sínum sem birtust í bók hans Haugaeldum að í búskapartíð föður hans hafi verið bátur á Háreksstöðum sem ekki var þyngri en svo að einn hestur gat dregið hann á milli vatna. Segir Gísli að í vötnunum hafi verið ólík fiskakyn en silungur bragðbestur í Skipatjörn.

Í endurminningum sínum nefnir Gísli fjölda örnefna sem segja sína sögu um landshætti og dýralíf og  verða nokkur þeirra talin hér: Vatnaflói, Lindaselsflói, Stekkjarflói, Sauðalónaflói, Geldingavatn, Langhólmavatn, Stórhólmavatn, Skipatjörn, Lómatjörn, Reiðtjörn, Götutjarnir, Kríutjörn, Skollagrenisás, Sauðafell, Háfslækur.

Háreksstaðir voru nær samfellt í byggð þar sem öskufallið í Öskjugosinu 1875 olli þar minni búsifjum en víða annars staðar í Heiðinni.

Ástæðan var að bærinn stóð utan mesta öskugeirans og eins sú að askan hvarf ofan í votlendið. Árið 1924 hætti endanlega að rjúka á Háreksstöðum, 83 ára búsetu var lokið.

Heimildir: Haugeldar, Gísli Jónsson, Sveitir og jarðir í Múlaþing

Samantekt: Arndís Þorvaldsdóttir.

Ábúendatal 

1. 1841 – 1864: Jón Sölvason (f.1803) frá Víkingsstöðum og Katrín Þorleifsdóttir (f.1809) frá Stóru-Breiðuvík.

Börn: Anna Sigríður (f.1832), Vilhelmína Friðrika (f.1833), dóttir Katrínar: Guðrún Lára Þórðardóttir (f.1827) húsfreyja Hlíðarenda.

1841 – 1871: Sólveig Eiríksdóttir (f.1806) frá Arnaldsstöðum í húsmennsku. Fráskilin, fyrrverandi maki Pétur Bjarnason frá Norðurkoti í Andakýlshreppi.

Börn: Páll (f.1828), Vigfús (f.1830), Benedikt og Sigríður.

1846 – 1855: Jón Stefánsson (f.1817) og Guðrún Lára Þórðardóttir (f.1827). Húsmennska.

 2. 1851 – 1866: Vigfús Pétursson (f.1830) og Anna Sigríður Jónsdóttir (f.1832)

Börn: Jón (f.1852), Pétur Vilhelm (f.1853), Methúsalem (f.1855), Júlíus (f.1856,d.1860), Sigurjón (f.1858, d.1862), Kristrún Una (f.og d.1860), M.Júlía (f.og d.1861), Jóhannes og Júlíus tvíburar(f.og d.1863), Vilhjálmur (f.d.1864).

Börn Vigfúsar og Katrínar Ófeigsdóttur: Pálína (f.1851) og Karólína (f.1860, d.1861)

Barn Vigfúsar og Guðnýjar Sigfúsdóttur: Stefán Helgi (f.og d. 1868)

Börn Vigfúsar og Helgu Andrésdóttur: andvana stúlka (f.1869) og Helga Stefanía (f.og d. 1872)

3. 1853 – 1870: Páll Pétursson (f.1828) og Vilhelmína Friðrika Jónsdóttir (f.1833).

Börn: María (f.1855), Anna Katrín (f.1856), Jón (f.1858,d.1860), Jón (f.1861), Ástríður    (f.1862,d.1869), Steinvör Petra Jóna (f.1864,d.1865) og Guðrún Aðalborg (f.1865, d.1866). 

Barn Vilhelmínu og Þorkels Jóhannessonar: Jóhannes (f.og d.1854)

Páll andaðist 1866 og seinni maður Vilhelmínu var Björn Árnason frá Hálsi.

Barn: Pálína Hildur (f.1867)

4. 1871 – 1903: Jón Benjamínsson (f.1835) frá Veturhúsum og Guðrún Jónsdóttir (f.1834) frá Breiðuvík. 

Börn: Benjamín (f.1861), Jón (f.1864), Ísak (f.1866), Þórunn Guðrún (f.1867, d.1869),Gísli (f.1869,d.1872),Gunnar (f.1870),Þórarinn (f.1873)og Gísli(f.1876)

Guðrún andaðist 1876 og seinni kona Jóns var Anna Jónsd. (f.1853) frá Hvoli.

Börn: Einar Páll (f.1880), Sigurjón (f.1881) og Anna María (f.1885).

5. 1903 – 1904: Benjamín Jónsson (f.1861) og Jóhanna Ó. Hallgrímsdóttir (f.um 1874) frá Fellsseli í S.- Þing.

Börn: Guðný, Jón (f.1896) féll í stríðinu í Frakklandi, Guðrún og Þórður.

Barn Benjamíns og Margrétar Jóhannesdóttur, Sænautaseli, Ásthildur (f.1889)

6. 1904 – 1909: Haraldur (f.1868) þineyskur og Aðalbjörg Hallgrímsdóttir (f.1867) frá Fellsseli.

 Börn: Sigurður (f.1893), Jóna Þórdís (f.1902) og Guðbjörg Stefanía (f.1908) 

 1909 – 1911: Í eyði.

7. 1911 – 1924: Stefán Alexandersson (f.1886) frá Mjóafirði og Antonía Antoníusdóttir (f.1875) úr Álftafirði.

Börn: Björgvin (f.1907), Sigríður (f.1908), Alexander (f.1909), Sigurjón (f.1911), Margrét (f.1912), Aðalheiður (f.1914), Árni, Lára (f.1918) og Gunnar (f.1919).

Seinni kona Stefáns var Guðný Árnadóttir (f.1905) frá Teigaseli.

Barn Stefáns og Bjargar Antoníusardóttur: Stefanía (f.1907) húsfr.Flugustöðum

8. 1924 – 1925: Þorkell Björnsson (f.1892) frá Rangá og Þóra Þórðardóttir (f.1900) frá Gauksstöðum

Börn: Þórný, Soffía, Ingólfur, Þórður, Anna B., Margrét dó ung.

Dætur Þorkels: Margrét (f.1914) húsfr.Brekku, Mjóafirði og Kristín (f.1918) húsfr.Hafursá.

Margir af ábúendum á Háreksstöðum og afkomendur þeirra fluttust til Vesturheims á sínum tíma. 

  • Last updated on .
  • Hits: 1591