Skip to main content

Ármótasel

Ármótasel var byggt úr landi Arnórsstaða 1853 í 500 m hæð. Núverandi þjóðvegur liggur rétt við bæjarrústirnar ofarlega í Gilsárkvosinni, skammt ofan við Víðidalsá. Bærinn var kallaður Ármót í daglegu tali.

Frumbyggjar voru Jón Guðlaugsson, bóndi í Mjóadal í Bárðadal og víðar og Sigríður Jónsdóttir, bónda á Ljótsstöðum í Fnjóskadal. Búið var á Ármótaseli til 1943 en þó var bærinn stundum í eyði í nokkur ár. Bærinn á Ármótaseli var rifinn 1945. Hann hefur verið reisulegur á þeirra tíma mælikvarða og fjárhúsin tóku um 200 fjár.

(10) GPS hnit (N65°17.94 - W15°17.38)

Ármótasel - Ítarefni og ábúendatal

Upprunalega sel frá Arnórsstöðum.  Býlið jafnan nefnt Ármót í daglegu tali.  Ármótasel byggðist fyrst um 1853 og voru frumbýlingar Jón Guðlaugsson frá Mjóadal í Bárðardal og Sigríður Jónsdóttir frá Ljótsstöðum í Fnjóskadal. 

Ármótasels er getið í Fasteignabók 1932 og er þá í bændaeign.  Ármótasel er í svokallaðri Gilsárkvos þar sem koma saman Gilsá úr norðri og Víðidalsá úr suðri.

Búið var í Ármótaseli í 70 – 80 ár og þótti jörðin betur í sveit sett en ýmsar aðrar á Heiðinni vegna nálægðar við bæi niðri á dalnum.  Jörðin virðist hafa verið þokkalega húsuð og mun fjárhús hafa rúmað um 200 fjár.

Ármótasel fór í eyði 1943 og voru síðustu ábúendur Björn Sigurðsson frá Rangalóni og Sólveig Hallsdóttir frá Sleðbrjót.  Þar af bjó Sólveig sem ekkja síðustu tvö árin ásamt börnum sínum.  Bærinn var síðan rifinn 1945.

Sagan af Þorsteini Sveinssyni, bls. 270 í Austurlandi:

Þorsteinn Sveinsson vinnumaður á Ármótaseli varð úti á útmánuðum í sendiför að Veturhúsum. Hundur hans skilaði sér heim að Rangalóni en Þorsteinn ekki.  Var hans leitað og fundust spor eftir hann er lágu að lækjargili framan við Útigönguhnausinn.  Ekki fannst hann fyrr en í sextándu viku sumars, en þá gékk maður í hestaleit fram á lík hans í Hnauslækjargilinu.  Lá hann þar endilangur, en sem yfirstöðumaður yfir sauðfé á vetrum var hann vanur að kasta sér endilöngum í snjóinn og sofnaði þá nær samstundis.  Það var álit manna að hann hefði ætlað að hvíla sig með þessum hætti í gilinu, lagst fyrir og sofnað.  Þá hafi skeflt yfir hann og hann ekki vaknað á ný vegna loftleysis.

Kvenfélagsfundur að Ármótaseli:

Sagnir eru um að kvenfélagsfundur hafi verið haldinn að Ármótaseli.  Ekki virðast vera til skriflegar heimildir um fundinn, en hann mun trúlega hafa farið fram á búskapardögum síðustu ábúenda.  Ber það vitni um sóknarhug og framsýni að konur skyldu hafa komið saman á einu heiðarbýlanna til að ræða framfaramál.

 

Heimildir: Aðalsteinn Aðalsteinsson frá Vaðbrekku (e.d.) Ármótasel, óbirt handrit.

          Sveitir og jarðir í Múlaþingi, I. bindi.(1974) Búnaðarsamband Austurlands.

        Halldór Stefánsson (1957). Jökuldalsheiðin og byggðin þar.  Birtist í Austurland: safn austfirskra fræða. 1.b. Akureyri.  Sögusjóður Austfirðinga.

1. 1853 – 1858: Jón Guðlaugsson (f.1816) frá Mjóadal í Barðardal og Sigríður Jónasdóttir (f.1823) frá Lótsstöðum í Fnjóskadal.

2. 1858 – 1875: Eiríkur Sigurðsson (f.1821) frá Arnaldsstöðum í Fljótsdal og Una Sigfúsdóttir (f.1827) frá Langhúsum í Fljótsdal. Börn: Guðbjörg, Gróa flutti til Vesturheims, Sigfús (f.1857), Jón Sigurður (f.1861), Jón (f.og d.1864), Vilborg og Þorbjörg sem flutti síðar til Vesturheims.

1875 – 1878: Í eyði.

3.   1878 – 1879: Kristján Sigurðsson frá Breiðumýri og Sigfinna Jakobína Pétursdóttir frá Sleðbrjótsseli. Börn: Pétur Sigbjörn (f.1876), Jórunn Þorbjörg (f.1882) og Gunnar Jón Gunnlaugur (f.1889,d.1890)

1879 – 1881: Í eyði.

4.   1881 – 1882: Oddur Eiríksson og Elín Sigurðardóttir. Barn: Þorvaldur. Fluttu til Vesturheims.

5. 1882 – 1903: Björn Sigurðsson frá Breiðumýri og Guðrún Pétursdóttir frá Galtastöðum. Börn: Jónína Sigurbjörg (f.1881), Guðrún Jóhanna (f.1882), Þórný (f.1884) Jón Sigbjörn (f.1885). Seinni kona Björns var Guðrún Valgerður Hallgrímsdóttir pósts. Börn: Guðmundur (f.1887), Herdís Aðalbjörg (f.1889,d.1890), Elísabet (f.og d.1890), Aðalgrímur (f.1891), Benedikt (f.1893), Jóhanna (f.1894), Sölvi (f.1897,d.1898), Jónína Sigurbjörg (f.1899) og Magnús (f.1901) fluttist til VH.

6.   1903 – 1904: Arnoddur Þorleifsson (f.1854) frá Hrjót og Ingunn Antoníusdóttir (f.1855) úr Álftafirði.  Barn: Þorbjörn bílstjóri á Seyðisfirði. 1904 – 1905: Í eyði.

7.   1905 – 1907: Sigurgeir Jónasson (f.1872) úr Reykjadal,S.-Þing og Karólína Þorláksdóttir frá Laugum,S.-Þing. Börn: Jónas(f.1904) b. Breiðalæk, Aldís(f.1898) húsfr.Hvalnesi og stúlka óskírð.

8.   1907 – 1910: Guðjón Gíslason (f.1879) og Guðrún María Benediktsdóttir (f.1880) síðar ábúendur á Heiðarseli um áratugaskeið. 1910 – 1918: Í eyði.

9.    1918 – 1921: Sigurður Benediktsson (f.1880) frá Hjarðarhaga og Ólöf Óladóttir (f.1892) frá Þórshöfn.Börn: Benedikt (f.1918) kennari, Siglufirði, Óli Jóhannes (f.1919) bóndi á  Hauksstöðum, Ingibjörg (f.1921,d.1922) og Baldur (f.1923), Reykjavík.

10.    1921 – 1923: Bjarni Þorgrímsson (f.1877) ættaður af Strönd.  Ráðskona hans Anna Einarsdóttir (f.1862) frá Slýum í Meðallandi, V.-Skaft.

11. 1923 – 1925: Sigurður Benediktsson, sjá nr. 9.

12. 1925 – 1928: Ágúst Sigurðsson frá Hamri í Vopnafirði, einhleypur.

13. 1928 – 1933: Jón Stefánsson (f.1893) frá Norðf. og Dómhildur Benediktsdóttir (f.1890) frá Vopnafirði.

14. 1933 – 1935: Þorkell Björnsson frá Hnefilsdal og Anna Eiríksdóttir frá Skjöldólfsstöðum Börn: Björn(f.1933), Anna Þrúður (f.1936), Eiríkur (f.1938) og Ingvi (f.1939).

15. 1935 – 1937: Jón Stefánsson, sjá nr. 13.

16. 1937 – 1943: Björn Sigurðsson (f.1878) frá Rangalóni og Sólveig Hallsdóttir (f.1885) frá Sleðbrjót. Björn andaðist 1940 og bjó Sólveig áfram í Ármótaseli. Börn: Anna (f.1916) húsfr.Stuðlafossi, Þórey (f,1910) húsfr.Arnórsst. Eyveig, og Eiríkur (f. 1914) b. Arnórsst.

  • Last updated on .
  • Hits: 1099